Staða

Staða

Lestu textann og svaraðu spurningunum eins vel og þú getur.
  • Af góðum hug koma góð ráð.

  • Allt fagurt er augum þekkt.

Fallorð

1. Þrír flokkar orða

Það hefur myndast hefð fyrir því að grunnskipta orðum í þrjá flokka og er þá tekið mið af málfræðilegum eiginleikum. 

 

Þessir flokkar eru:

  • fallorð
  • sagnorð
  • smáorð (sem eru óbeygjanleg orð)

 

Ef við skoðum helstu einkenni hvers flokks fyrir sig, sjáum við að

  • fallorð fallbeygjast en hin ekki.
  • sagnorð breytast eftir tíðum eða tíðbeygjast.
  • smáorð gera hvorugt, þ.e. þau fallbeygjast ekki og þau breytast ekki eftir tíðum.

 

Fallorðin greinast nánar niður í fimm orðflokka og smáorðin einnig.  Hér sjáið þið það.

 

Fallorð

 

Sagnorð

 

Smáorð

 

Nafnorð

Lýsingarorð

Fornöfn

Töluorð

Greinir

Sagnir

Atviksorð

Forsetningar

Nafnháttarmerki

Samtengingar

Upphrópanir

 

 

Verkefni:

  1. Hverjir eru þrír meginflokkar orða?
  2. Hvert er helsta einkenni fallorða?
  3. Hvert er helsta einkenni sagnorða?
  4. Hvert er helsta einkenni smáorða?

 

2. Fallorð – Einkenni þeirra og sérstaða

Undir fallorð falla 5 orðflokkar, sem hver hefur sín eigin sérkenni. Það eru: 

  • nafnorð
  • fornöfn
  • lýsingarorð
  • greinir
  • töluorð

 

Orð sem tilheyra þessum orðflokkum eiga það sameiginlegt að þau fallbeygjast. Föllin eru fjögur og nefnast þau:

  • (hér er) nefnifall
  • (um) þolfall
  • (frá) þágufall
  • (til) eignarfall

 

Orðin fyrir framan í svigunum eru hjálparorðin sem við notum til að finna föllin.

Annað sem fallorð eiga sameiginlegt er að:

  • þau eru flest til í bæði eintölu og fleirtölu (hestur – hestar).
  • þau taka kyn (hestur er karlkynsorð; hryssa er kvenkynsorð; folald er hvorugkynsorð).

 

Rétt er að vekja athygli á uppflettimynd fallorða í orðabókum. Þar eru þau sýnd í

  • nefnifalli eintölu (maður, kona, barn)

og er nauðsynlegt að átta sig á því þegar við ætlum að fletta orðinu upp í orðabók.

 

Auk þess sýna flestar orðabækur nafnorð í eignarfalli eintölu og nefnifalli fleirtölu. 

Dæmi: hest-ur -s, -ar KK
(KK stendur fyrir karlkyn)

 

Lýsingarorð eru venjulega sýnd í karlkyni og frumstigi. Ef þú rekst t.d. á orðið elst í texta þarftu að fletta upp orðinu gamall (kk.et.nf. frumstig, sterk beyging!).

 

 

Verkefni:

  1. Nefnið 5 orðflokka fallorða.
  2. Hver eru föllin fjögur?
  3. Hvað annað eiga fallorðin sameiginlegt utan það að fallbeygjast?
  4. Hvað þurfum við að hafa í huga þegar við flettum upp fallorðum í orðabók?
  5. Sýndu kenniföll orðanna steinn og kvæði.

 

3. Nafnorð

Nafnorð kallast þau orð sem eru heiti á verum (fólki, dýrum o.s.frv.), plöntum og jurtum, hlutum (bolli, rjómi, o.s.frv.), hugtökum og hugmyndum (ást, stefna o.s.frv.), verknuðum (bakstur, hjólreiðar, veiði o.s.frv.) og öðru er hefur á sér heiti. 

 

Nafnorð skiptast í sérnöfn og samnöfn. Sérnöfn eru sérheiti yfir einstakling eða hlut (Ingólfur, Þóra, Akureyri, Esja o.s.frv.). Samnöfn eru aftur á móti sameiginleg heiti á ýmsu (maður, stúlka, bær, fjall o.s.frv.).

 

Helstu einkenni nafnorða er að þau bæta við sig greini (hestur-inn), þau flokkast eftir kynjum, þau fallbeygjast, þau standa í ákveðinni tölu. 

 

 

Verkefni:

  1. Í hvaða tvo flokka skiptast nafnorð?
  2. Líttu á orðin angan og himinn. Hvernig væru þau með greini?

 

3.1 Hvernig þekkjum við nafnorð?

Eins og áður sagði búa nafnorð yfir ákveðnum eiginleikum sem greina þau frá öðrum orðum í öðrum orðflokkum.  Við skulum skoða þá helstu. 

 

  • Nafnorð bæta við sig greini.

 

Nafnorð er einu orðin sem bæta við sig greini.  Því getur verið auðveldast að prófa að bæta greini við orðið, sem á að greina, eða taka greininn af.  Ef orðið er með greini eða hægt að bæta honum við það er um nafnorð að ræða. 

Það ber þó að hafa í huga að ekki bæta öll nafnorð við sig greini og á það gjarnan við um sérnöfn. Bæjarnafnið Á er t.d. sjaldnast haft með greini en samnafnið á tekur með sér greini (áin er straumhörð). 

 

Dæmi um viðskeyttan greini:  ást-in, fólk-ið, bolli-nn, stefna-n, á-in. 

 

  • Hægt er að skipta  nafnorðum út og setja fornafn í staðinn.

 

Dæmi:  Maðurinn elskaði konuna – (Hann) elskaði (hana). Tilvistarstefnan varð vinsæl í Frakklandi. -  (Hún) varð vinsæl.

 

Lítum í þessu sambandi á orðið hver. Ef það er nafnorð má bæta við það greini og skipta því út fyrir fornafn: Ég sá hver-inn gjósa; ég sá hann gjósa.

 

 

Verkefni:

  1. Nefndu tvennt sem greinir nafnorð frá öðrum orðflokkum.
  2. Hvaða tegund nafnorða tekur sjaldnast greini?
3.2 Fallbeyging nafnorða

Nafnorð eru fallorð og fallbeygjast. Oftast vitum við hvernig orð fallbeygjast; við beygjum öll algeng orð án nokkurrar umhugsunar. Þetta lærist strax á unga aldri með talmáli. 

 

Dæmi:

hér er garður

um garð

frá garði

til garðs

hér er blóm

um blóm

frá blómi

til blóms

hér er ljóð

um ljóð

frá ljóði

til ljóðs

 

 

Ósamræmi

 

En svo eru önnur orð sem við notum sjaldnar, og við erum ekki alltaf viss um hvernig þau beygjast í öllum föllum. 

 

Það getur líka stundum orkað tvímælis hvernig sum orð beygjast; þetta á sérstaklega við um eignarfallið. Tökum sem dæmi orðið sjór, en það beygjum við á eftirfarandi hátt: 

 

hér er sjór

um  sjó

frá sjó

til sjávar

 

 

En svo segjum við: „Hann var til sjós á yngri árum.“ Í þessu tiltekna samhengi birtist málvenja sem virðist stríða gegn aðalreglunni um eignarfall orðsins sjór

 

Þá getur verið gaman að skoða eignarfallsbeygingu sumra nafna (mannanafna/sérnafna) og hvernig við svo tilfærum þau í daglegu tali. Tökum sem dæmi nafnið Guðmundur.  Það beygist svona:

 

hér er Guðmundur

um  Guðmund

frá Guðmundi

til Guðmundar

 

En svo segjum við að einhver sé Guðmundsson og eigum þá við að hann sé sonur Guðmundar. Sama á við um Sigurð (til Sigurðar / Sigurðsson) og fleiri nöfn.

 

 

Fallbeyging til stuðnings við stafsetningu

 

Það er öllum hollt að kunna góð skil á fallbeygingu, og getur það t.a.m. hjálpað okkur að skrifa rétt. Þar má meðal annars skoða stafsetningarregluna sem segir að karlkynsorð sem enda á -ann, -inn og -unn í nefnifalli eigi að rita með einu n-i í þolfalli. Venjulega heyrum við engan mun á framburði þessara orða í nefnifalli og þolfalli og því verðum við að treysta á regluna.

 

Dæmi:

hér er himinn

um himin

frá himni

til himins

hér er morgunn

um morgun

frá morgni

til morguns

hér er aftann

um aftan

frá aftni

til aftans

 

Höfum jafnframt í huga að þegar þessi orð taka greini gilda reglur greinisins:

Hér er himinn-inn (nf.) um himin-inn (þf.)

Hér er morgunn-inn um morgun-inn

Hér er aftann-inn um aftan-inn

 

Spurning: Hvað eru mörg n í orðinu himinn í þf.et. með greini?

Svar: þrjú: himin-inn.

 

 

Hvernig við finnum fall orðs

 

Eins og áður sagði beygjast orð í fjórum föllum:  nefnifalli (nf – hér er),  þolfalli (þf – um),  þágufalli (þgf – frá) og  eignarfalli (ef – til).

 

Oft getur verið erfitt að átta sig á í hvaða falli orð stendur, enda eru sum orðin eins í tveimur föllum eða jafnvel fleiri. Tökum sem dæmi orð eins og auga, eyra, dóttir.

 

Dæmi:

hér er auga

um auga

frá auga

til auga

hér er eyra

um eyra

frá eyra

til eyra

hér er dóttir

um dóttur

frá dóttur

til dóttur

 

Til að finna út í hvaða falli orðið er í setningunni setjum við annað orð sem breytist eftir því hvert fallið er. Sú orðmynd þess orðs sem fellur að setningunni sýnir þá fall orðsins. Hafa menn notað orð eins og: hestur, steinn og  Páll.

 

Dæmi:

hér er hestur

um hest

frá hesti

til hests

hér er steinn

um stein

frá steini

til steins

hér er Páll

um Pál

frá Páli

til Páls

 

Dæmi: Ég sá Davíð í leikhúsinu. Orðið Davíð stendur hér í þolfalli. Við sjáum það ef við setjum nafnið Páll í staðinn: Ég sá Pál (þf.) í leikhúsinu.

 

 

Óregluleg fallbeyging

 

Stundum er eina leiðin til að beygja orð rétt að læra beyginguna utanbókar.  Á þetta einkum við um orð sem eru lítið notuð.

 

Dæmi:

hér er kýr

um kú

frá kú

til kýr

 

 

 

 

Aukaföll

Þegar talað er um aukaföll, er átt við þolfall, þágufall og eignarfall.  Nafngiftin (aukaföll) er til marks um að nefnifallið nýtur mestrar virðingar, enda sýnir það uppflettimynd orðsins!

 

Spurning: Hvað mekir það þegar sagt er að orðið panna sé eins í öllum aukaföllum eintölu?

Svar: Þá er átt við að þf., þgf. og ef. eintölu séu eins, nánar tiltekið pönnu.

 

Æfðu þig í að beygja nokkur fallorð í eintölu og fleirtölu (ef um fleirtölu er að ræða), með eða án greinis. Ef þú ert í vafa getur þú farið á slóðina bin.arnastofnun.is

himinn, akur, læknir, Líbería, Haukur, Baldur, dalur, fjörður, faðir, matur, Þórarinn, vísir.

 

Spurning: Hvernig er orðið (í merkingunni friður) í ef.et.?

Svar: rór eða róar

 

Æfðu þig í að beygja þessi orð:

Njörður, sonur, dóttir, nál, valur, heiði, önn, móðgun, eik, ró.

 

 

Verkefni I:

  1. Hvernig er orðið dóttir í þf.et.?
  2. Hvernig er sérnafnið Njörður í þgf.?

 

Æfðu þig í beygingu þessara orða:

kýr, fé, tá, eyri, brúður, alur, hönd, hjörtur, Þráinn, safn, beiðni.

 

Verkefni II:

  1. Hvernig er orðið í ef.et. með greini?
  2. Hvernig er orðið brúður í þf.et. með greini?
  3. Hvernig er orðið beiðni í ef.et.?

 

3.3. Kyn nafnorða

Nafnorð hafa kyn.  Kynin eru þrjú:  karlkyn  (kk),  kvenkyn  (kvk)  og  hvorugkyn  (hk).  Til að finna kyn orðanna er gott að nota hjálparorðin minn (kk), mín (kvk) og mitt (hk) eða hann (kk), hún (kvk) og það (hk) í eintölu.

 

Dæmi:

 

(hann) hesturinn (minn)  =  karlkyn

(hún) kisan (mín)  =  kvenkyn

(það) lambið (mitt)  =  hvorugkyn

 

Ef orðið er í fleirtölu getur verið gott að nota hjálparorðin mínir (kk), mínar (kvk) og mín (hk), eða þeir (kk), þær (kvk) og þau (hk).

 

Dæmi:

 

(þeir) hestarnir (mínir)  =  karlkyn

(þær) kisurnar (mínar)  =  kvenkyn

(þau) lömbin (mín)  =  hvorugkyn

 

 

Verkefni:

Í hvaða kyni eru þessi orð: æður, steypireyður, skæri, fætur?

 

3.4. Tala nafnorða

Nafnorð hafa tvær tölur: eintölu og fleirtölu.

 

Dæmi:

bók – bækur

karl – karlar

folald – folöld

 

Sum nafnorð eru þó aðeins til í einni tölu. 

 

Dæmi:

fólk

Orðið er fleirtöluorð hvað merkingu varðar en notast einungis í eintölu. Það fólkið.

gleraugu

Hegðar sér eins og fleirtöluorð en getur bæði táknað ein gleraugu eða fleiri.

buxur Við segjum þær buxurnar, en verðum að tilgreina fjöldann: einar buxur, tvennar buxur.

 

Orðið fólk er samkvæmt þessu greint sem eintöluorð en gleraugu og buxur eru fleirtöluorð. 

 

Sérnöfn eru venjulega einungis notuð í eintölu, svo og mörg hugmynda- og safnheiti.

 

Dæmi:

Esja – Ingólfur – gleði – hveiti

 

 

 

Verkefni:

Í hvaða tölu eru þessi orð: hjólbörur, dyr, skæri, foreldrar, páskar, systkin, kaffi?

 

3.5. Veik/sterk beyging nafnorða

Gerður er greinarmunur á því hvort nafnorð hafi sterka eða veika beygingu.  Er meginreglan sú að ef orð endar á sérhljóða í öllum föllum í eintölu þá er um veika beygingu að ræða, annars ekki. 

 

Önnur leið til að finna hvort orðið beygist veikt eða sterkt er einfaldlega að skoða orðið í eignarfalli eintölu. Ef eignarfall orðsins í eintölu endar á sérhljóða hefur það veika beygingu, en ef það endar á samhljóða hefur það sterka beygingu. 

 

Dæmi:

Sterk beyging

Veik beyging

Sterk beyging

Veik beyging

hestur

hest

hesti

hests

auga

auga

auga

auga

mynd

mynd

mynd

myndar

spýta

spýtu

spýtu

spýtu

 

 

Verkefni:

  1. Sterk eða veik beyging? beiðni, kvæði, næði, kuldi, kona, tæki.
  2. Segðu til um beygingu eftirtalinna orða: epli, kvæði, penni, rammi, rakki, sími, stræti, gosi, skata, flaska.

 

3.6. Stofn nafnorða

Það getur komið sér vel að þekkja stofn nafnorða sem og annarra orða, m.a. til að glöggva sig á hvernig þau eru rituð í tilteknum beygingarmyndum. 

 

Til að finna stofn nafnorða þurfum við að þekkja muninn á sterkri og veikri beygingu (sjá 2.1.5).

 

  • Stofn sterkra nafnorða finnst í þf.et.
  • Stofn veikra nafnorða finnst í þf.et. mínus lokasérhljóð.

 

Skoðum orð með sterka beygingu eins og t.a.m. orðið hestur. Í þolfalli eintölu væri það (um) hest.  Þannig væri hest stofn orðsins hestur.

 

Skoðum nú orðið auga. Orðið auga hefur veika beygingu. Í þolfalli eintölu er það (um) auga. Ef við fylgjum reglunni, þá eigum við að taka -a aftan af orðinu og þar með er stofninn kominn:  auga ÷ a.  Stofninn væri því aug. Og stofn kvenkynsorðsins stytta er styttu ÷ u, þ.e. stytt.

 

 

Verkefni:

Finndu stofn þessara orða:

eyra,  garður, flaska, bók, sími  gólf, penni, tölva, prestur, hamar, hvalur, Baldur, veröld, króna, kerling, turn,  viti,  rammi, uggi, sporður, hamar,  járn.

 

3.7. Nafnorð í orðabókum (kenniföll)

Orðabækur eru til margs nýtilegar og því er nauðsynlegt fyrir okkur að kunna vel á þær, þ.e. hvernig á að leita í þeim og hvernig hlutirnir eru þar skráðir.

 

Nafnorð eru alltaf skráð í nefnifalli eintölu (hestur, mjólk, kona o.s.frv.), en auk þess er oftast einnig gefið upp eignarfall eintölu og nefnifall fleirtölu

Kallast þessar þrjár myndir orðsins kenniföll, því af þeim má í flestum tilvikum kenna eða þekkja hvernig orðið beygist.

 

Skoðum orðin hestur, kona og barn og það hvernig þau væru þá skráð í orðabækur, þ.e. kenniföll þeirra.

 

hestur (nefnifall eintölu)

hests (eignarfall eintölu)

hestar  (nefnifall fleirtölu)

 

Í orðabókum er þetta gjarnan sett upp svona: hest-ur -s, -ar KK

 

kona  (nefnifall eintölu)

konu (eignarfall eintölu)

konur  (nefnifall fleirtölu)

 

Í orðabókum er þetta gjarnan sett upp svona: kon-a -u, -ur KVK

 

barn (nefnifall eintölu)

barns (eignarfall eintölu)

börn  (nefnifall fleirtölu)

 

Í orðabókum er þetta gjarnan sett upp svona: barn -s, börn HK

 

 

Verkefni:

Settu eftirfarandi orð í kenniföll: steinn, hlutur, drottning, kenning, blað, tré

 

Ef orðið er ekki til í fleirtölu er kennifallinu nf.ft. einfaldlega sleppt í orðabókinni.

Dæmi: grát-ur -s KK það að gráta, tárfella.

 

Flettu til gamans upp á orðinu „grátur“ í merkingunni þrep eða tröppur upp að altari; altarisgrindur. Hvað er að segja um kenniföll í því tilviki?

 

Svar: Orðið grátur í merkingunni altarisþrep, altarisgrindur er fleirtöluorð í kvenkyni (þær gráturnar). Því er ekki um það að ræða að skrá nein kenniföll. Í orðabók stendur einfaldlega: grátur KVK fleirtala

 

4. Fornöfn

Fornöfn kallast einn flokkur fallorða. Eins og önnur fallorð beygjast þau í kyni, tölu og falli. Erfitt er að skýra nákvæmlega út hvað fornöfn eru, enda skiptast þau í sex flokka eftir eðli og einkennum. Oft vísa þau til nafnorða og eru þá stundum staðgenglar þeirra, til að forðast endurtekningar (Jón er kominn; hann er þreyttur [Það mundi ekki hljóma vel að segja: Jón er kominn; Jón er þreyttur]). Flokkar fornafna eru:

 

  • persónufornöfn
  • spurnarfornöfn
  • ábendingarfornöfn
  • afturbeygt fornafn
  • eignarfornöfn
  • óákveðin fornöfn

 

Áður fyrr var talað um einn flokk til viðbótar, tilvísunarfornöfn, en það er venjulega ekki gert lengur. Voru þá tilvísunarfornöfnin tvö, sem og er [þegar er merkir það sama og sem], en nú er talað um þau sem tilvísunartengingar sem falla þá undir orðflokkinn samtengingar (einn af flokkum smáorða).

 

4.1 Persónufornöfn

Persónufornöfn eru dæmi um staðgengla nafnorða. Þau eru í rauninni einungis 5 (ég, þú, hann, hún, það), en hafa ólíkar beygingarmyndir. 

 

Persónufornöfn eru flokkuð eftir persónum:

 

  • 1. persóna – ég
  • 2. persóna – þú
  • 3. persóna – hann, hún, það

 

Beygingar persónufornafnanna eru nokkuð óreglulegar og þurfum við að læra þær utanbókar til að kunna þær.

 

 

1. persónufornafnið – ég – beygist  svona

 

föll

eintala

fleirtala

 

nefnifall

 

ég

 

við

þolfall

mig

okkur

þágufall

mér

okkur

eignarfall

mín

okkar

 

Ath! -  1. persónufornafnið ég er eins í öllum kynjum [kona, karl eða barn geta öll sagt: ég!]

 

 

2. persónufornafnið – þú – beygist svona

 

föll

eintala

fleirtala

 

nefnifall

 

þú

 

þið

þolfall

þig

ykkur

þágufall

þér

ykkur

eignarfall

þín

ykkar

 

Ath! -  2. persónufornafnið þú er eins í öllum kynjum (ég get sagt þú við konu, karl og barn!).

 

 

3. persónufornöfnin – hann, hún, það – beygjast svona:

 

kk

 

föll

eintala

fleirtala

 

nefnifall

 

hann

 

þeir

þolfall

hann

þá

þágufall

honum

þeim

eignarfall

hans

þeirra

 

 

kvk

 

föll

eintala

fleirtala

 

nefnifall

 

hún

 

þær

þolfall

hana

þær

þágufall

henni

þeim

eignarfall

hennar

þeirra

 

 

hk

 

föll

eintala

fleirtala

 

nefnifall

 

það

 

þau

þolfall

það

þau

þágufall

því

þeim

eignarfall

þess

þeirra

 

Við tökum eftir því að þgf. og ef. ft. eru eins í fornöfnunum þremur (þeim, þeirra).

 

 

 

Verkefni

Finnið öll persónufornöfnin í þessum athyglisverða texta Matthíasar Johannessen:

Ég hef oft haft áhyggjur af tungu okkar og framtíð hennar. Og því meiri sem erlend áhrif hafa verið, einkum í sjónvarpi og öðrum ljósvökum. En ég ætla í bili að staldra við dálítið atvik sem Berlin tíundar í fyrrnefndu samtali og vona það megi ávallt eiga við okkar dýrmæta arf. Hann nefnir sögu sem Jacob Talmon segir í einni bóka sinna og lýsir vel þeirri seiglu sem gróin menning býr yfir. Tveir tékkneskir skólastjórar voru að tala saman snemma á 18. öld. Við erum líklega hinir síðustu í víðri veröld sem tala tékknesku, sögðu þeir hvor við annan. Við blasa endalok hennar. Við munum óhjákvæmilega öll tala þýzku hér í Miðevrópu og sennilega einnig á Balkanskaga. Við erum síðustu móhíkanarnir. Enn tala menn tékknesku og langur vegur frá endalokum hennar.  

Úr Samkenndarþjóðfélagið eftir Matthías Johannessen

 

Í verkefninu hér að ofan eru nokkrar gildrur. Við þurfum t.d. að gæta okkar á orðinu við því að það er ekki alltaf persónufornafn! Þá þurfum við að muna að eignarfall persónufornafna er gjarnan í hlutverki eignarfornafns (sbr. arfur okkar) en er greint sem persónufornafn eftir sem áður.

 

4.2 Spurnarfornöfn

Spurnarfornöfnin eru fjögur: 

 

  • hver
  • hvor
  • hvaða
  • hvílíkur

 

Hver er notað þegar við erum að vísa til eins af fleiri en tveimur, sbr. Hver vill koma með? Um hvern ertu að tala?  Hver beygist á eftirfarandi hátt:

 

Eintala

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

hver

 

hver

 

hvert

þolfall

hvern

hverja

hvert

þágufall

hverjum

hverri

hverju

eignarfall

hvers

hverrar

hvers

 

Fleirtala

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

hverjir

 

hverjar

 

hver

þolfall

hverja

hverjar

hver

þágufall

hverjum

hverjum

hverjum

eignarfall

hverra

hverra

hverra

 

 

Spurnarfornafnið hvor er hins vegar notað um annan af tveimur. Hvor þeirra (Gummi eða Siggi) fór með þér í ferðina? Um hvorn þeirra (Jón eða Þór) ertu að tala? 

 

Eintala

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

hvor

 

hvor

 

hvort

þolfall

hvorn

hvora

hvort

þágufall

hvorum

hvorri

hvoru

eignarfall

hvors

hvorrar

hvors

 

 

Fleirtala

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

hvorir

 

hvorar

 

hvor

þolfall

hvora

hvorar

hvor

þágufall

hvorum

hvorum

hvorum

eignarfall

hvorra

hvorra

hvorra

 

 

Lítum á þetta dæmi: Hvorir eru sterkari á vellinum, Bandaríkjamenn eða Rússar? Hér notum við spurnarfornafnið hvor í fleirtölu (hvorir) af því að um er að ræða tvo hópa (ekki tvo einstaklinga).

Spurnarfornafnið hvaða notum við í setningum eins og:  Með hvaða liði heldurðu?  Hvaða menn voru þetta með þér?  Hvaða dag áttu afmæli?

Hvaða er eins í öllum föllum og kynjum eintölu og fleirtölu, og þarf því ekki að hafa áhyggjur af beygingunni.

Fjórða spurnarfornafnið, hvílíkur, hefur eiginlega glatað öllum spurnareiginleikum en er einkum notað í upphrópunum:  Hvílíkt veður.  Hvílíkur leikmaður o.s.frv.

 

 

 

Verkefni

Finndu spurnarfornöfnin

Hvar eru þau núna?  Ég veit það ekki en hvaða máli skiptir það þig?  Mig langaði bara að vita hvor tvíburanna kæmi á morgun.  Hverjar eru líkurnar á að hann nái í hana?  Hvorum var þetta að kenna?  Hverjum var þetta að kenna?  Hvaða asi er þetta?  Hverjum er ekki sama?  Hvorri treystirðu betur?  Hverjum er treystandi þessa dagana?  Hvern vildirðu hitta?  Það má vera hver sem er, ef út í það er farið. Hverjum þykir sinn fugl fagur. Hvoru ykkar datt þetta í hug og hvar fenguð þið upplýsingarnar?  

 

Hér eru nokkrar gildrur. Orðið hvar í upphafi og lok texta er t.d. atviksorð. Og orðið hver í sambandinu hver sem er og hverjum þykir sinn fugl fagur þarf að greina sem óákveðið fornafn (merkingin er sérhver).

 

4.3 Eignarfornöfn

Eignarfornöfnin minna stundum á persónufornöfn, enda vísa þau til persóna og segja til um hver á það sem verið er að fjalla um. Eignarfornöfnin eru:

 

  • minn
  • þinn
  • sinn
  • vor

 

Þau fallbeygjast og taka kyn og tölu. Orðin minn, þinn og sinn beygjast öll á sama hátt, og því er nóg að fara yfir beygingu eins þeirra. Orðið vor er einkum notað í hátíðlegu máli (Faðir vor; Ó, fögur er vor fósturjörð). Lítum á eignarfornafnið minn. Við notum það til að tilgreina að við eigum eitthvað: Þetta er bíllinn minn.  Hefurðu séð myndina mína?   

 

Minn (þinn, sinn) beygist svona:

 

Eintala

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

minn

 

mín

 

mitt

þolfall

minn

mína

mitt

þágufall

mínum

minni

mínu

eignarfall

míns

minnar

míns

 

 

Fleirtala

 

 

KARLKYN

 

KVENKYN

 

HVORUGKYN

 

nefnifall

 

mínir

 

mínar

 

mín

þolfall

mína

mínar

mín

þágufall

mínum

mínum

mínum

eignarfall

minna

minna

minna

 

 

 

Verkefni

Finndu eignarfornöfnin.

Þetta er kökusneiðin mín ekki þín. Bíllinn minn er blár. Bíllinn okkar er grænn. Hún hugsar vel um dóttur sína. Ég treysti mínum útreikningum betur. Þetta er óður til barnanna minna. Hverjum þykir sinn fugl fagur. Mínar eru sorgirnar þungar sem blý. Mín regnhlíf er týnd. Regnhlífin hans er í skápnum. Hann var að segja mér frá dóttur sinni. Er þetta barnið þitt? Nei, þetta er barnið hennar. Dýrin mín stór og smá. Eru þetta bækurnar þínar? Barnið mitt gerir ekki svona lagað. 

 

Í æfingunni eru gildrur. Það þarf að hafa í huga að eignarföll persónufornafna eru hér á þremur stöðum í hlutverki eignarfornafna (bíllinn okkar/ regnhlífin hans/ barnið hennar) en þau greinast sem persónufornöfn eftir sem áður.

 

4.4. Ábendingarfornöfn

Ábendingarfornöfnin er auðvelt að læra enda eru þau bara þrjú,  sá, þessi og hinn.  Þau beygjast öll í falli, kyni og tölu (hugsum okkur að við séum að benda á einhvern/eitthvað). 

 

Þessi æfing var erfið en hin sem ég glímdi við áðan var frekar létt. Þessi kona er sem hjálpaði mér áðan. Ég fer ekki að kaupa bíl af þessum manni, enda líst mér miklu betur á hinn sölumanninn.

 

Svona beygist :

 

Eintala

 

KARLKYN

KVENKYN

HVORUGKYN

nefnifall

það

þolfall

þann

þá

það

þágufall

þeim

þeirri

því

eignarfall

þess

þeirrar

þess

 

Fleirtala

 

KARLKYN

KVENKYN

HVORUGKYN

nefnifall

þeir

þær

þau

þolfall

þá

þær

þau

þágufall

þeim

þeim

þeim

eignarfall

þeirra

þeirra

þeirra

 

Við sjáum hér að fleirtala ábendingarfornafnanna (sá, sú, það) er alveg eins og fleirtala persónufornafnanna (hann, hún, það). Auk þess samsvarar hvorugkyn eintölu af ábendingarfornafninu persónufornafninu það: Það (ábfn.) barn sem þetta gerir mun ekki komast upp með það (pfn.) til lengdar.

 

Svona beygist þessi:

 

Eintala

 

KARLKYN

KVENKYN

HVORUGKYN

nefnifall

þessi

þessi

þetta

þolfall

þennan

þessa

þetta

þágufall

þessum

þessari

þessu

eignarfall

þessa

þessarar

þessa

 

Fleirtala

 

KARLKYN

KVENKYN

HVORUGKYN

nefnifall

þessir

þessar

þessi

þolfall

þessa

þessar

þessi

þágufall

þessum

þessum

þessum

eignarfall

þessara

þessara

þessara

 

 

 

Verkefni

 

Finndu ábendingarfornöfnin.

Er þetta sá sem kom síðast? Nei, þetta er hinn eigandinn. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Mér verður stundum hugsað til þessara kvenna þegar ég sé hinar vera að reyna þetta. Hann saurgaði hin helgu vé. Hvað er þetta barn að gera hér? 

Hættu þessu strax! Við verðum að hjálpa þessum náungum. Hinir voru ágætir en þessir virðast ekki geta þetta. Hvað er þetta?  Er þetta hin konan hans? Hin ljóshærða kona skildi við manninn sinn. Þetta barn kom hingað ásamt öðru, en hitt fór snemma. Hvar er sú sem kom í gær með fræið og fór að sá?

 

Í verkefninu hér að ofan þarf m.a. að gæta að orðinu hin á tveimur stöðum þar sem það er laus greinir (hin helgu vé/hin ljóshærða kona) en ekki ábendingarfornafn!

           

Aukaverkefni

Myndaðu málsgrein þar sem orðmyndin kemur fyrir í fjórum mismunandi merkingum og þremur mismunandi orðflokkum!

 

Svar:

Sá (ábfn.) maður sem sá (so.) þetta var að sá (so.) korni og hélt á sá (no [nf.: sár: kerald]).

 

4.5 Afturbeygt fornafn

Afturbeygt fornafn er aðeins eitt og það er ekki til í nefnifalli. Er það sig í þf., sér í þgf. og sín í ef. Það er eins í öllum kynjum og báðum tölum. Rétt er að átta sig á því að þegar fornafnið vísar í 1. og 2. persónu eru notaðar samsvarandi myndir persónufornafna (ég meiddi mig; við meiddum okkur; þú meiddir þig; þið meidduð ykkur. En í 3. persónu birtist hið eiginlega afturbeygða fornafn: hún/hann/það/þeir/þær/þau meiddu sig). 

 

Afturbeygða fornafnið beygist þannig:

 

kk. – kvk. – hk.

nf – et – ft.

---

þf – et – ft.

sig

þgf – et – ft.

sér

ef – et – ft.

sín

 

Dæmi:
Þeir meiddu sig; hún skemmti sér; þær fóru heim til sín.

 

Verkefni 

 

Finndu afturbeygðu fornöfnin.

Þeir þóttust góðir og fundu til sín. Hann hugsar fyrst og fremst um sjálfan sig. Enginn er bóndi nema hann barmi sér. Hann signir sig ávallt áður en hann fer að sofa. Sér grefur gröf. Púlið undanfarna daga sagði fljótt til sín og hann var farinn að kveinka sér fyrr en varði. Hann sagði mér að sig langaði til að læra bókmenntir þó hann treysti sér varla til þess. Hann ætlar að koma í heimsókn til mín þegar hann sér færi á. Ég er ekki með peningana á mér núna en hafðu engar áhyggjur. Ég er ekki eins og þú. Ég hugsa ekki bara um sjálfan mig.  

 

Aukaverkefni :

 

Ef vísað er í 1. eða 2. persónu í þágufalli eintölu, hvaða orð mundum við þá nota í stað afturbeygða fornafnsins sér?

 

Svar: Persónufornöfnin mér/þér (ég tyllti mér/ þú skemmtir þér

 

4.6 Óákveðin fornöfn

Óákveðin fornöfn er stór flokkur fornafna sem ekki falla að hinum flokkunum. Erfitt getur verið að henda reiður á óákveðnu fornöfnunum og er kannski auðveldast að læra þau utanbókar. Til er kunn vísa sem tilgreinir mörg þeirra og allir ættu að læra.

 

Annar, fáeinir, enginn, neinn,

ýmis, báðir, sérhver.

Hvorugur, sumur, hver (og) einn,

hvor [og] nokkur, einhver. 

 

Óákveðin fornöfn sem vantar í þessa vísu eru:  allur, annar hvor, annar hver, annar tveggja, hvor tveggja, sjálfur, slíkur, samur, þvílíkur

 

Eins og sést þegar þessi listi er skoðaður finnum við hér orð sem einnig falla undir aðra flokka.  Þegar svo er ákvarðast það af notkuninni (samhenginu) hvar við flokkum þau hverju sinni, þ.e. hvort um sé að ræða óákveðið fornafn eða eitthvað annað.

 

Orðið einn sem venjulega flokkast sem töluorð telst vera óákveðið fornafn þegar það merkir nokkur. Það var einn dag í desember… (dag nokkurn).

 

Orðið hver er venjulega spurnarfornafn en þegar hægt er að setja orðið sérhver í stað þess er það óákveðið fornafn. Það sama gildir um orðið hvor þegar hægt er að setja hvor um sig í staðinn.

 

Æfing: Hvaða orðflokki tilheyrir hvor í eftirfarandi setningu?

Við Sigga fengum tvær kúlur hvor.

 

Svar: Orðið hvor er hér óákveðið fornafn.

 

 

 

Verkefni

Finndu óákveðnu fornöfnin í textanum.

Enginn verður óbarinn biskup. Einn dag stóð hann upp ásamt einum öðrum og þeir gengu burt. Hvorugur þeirra virtist hafa hugmynd um hvað þeir væru að gera.  Stúlkurnar fengur 2000 kr. hvor fyrir dagsvinnu. Annar hvor okkar verður að segja honum fréttirnar. Hann vildi ekki að neinn sæi sig. Hún er ýmsu vön en enginn hafði búið hana undir þetta. 

Slíkir menn finna alltaf leið út úr vandanum og báðir eru þeir hugmyndaríkir. Það koma fáeinir til viðbótar, bræðurnir báðir á Bakka, en hvorugar systranna á Felli láta sjá sig. Er einhver hér inni sem enginn þekkir? Hann var annar tveggja sem buðu sig fram til fararinnar. Ég á von á að hver geri það sem fyrir hann var lagt. Hann er á leið til annarrar borgar en hann ætlaði sér að fara.  

 

5. Lýsingarorð

Lýsingarorð standa gjarnan með nafnorðum sem ákvæðisorð til að útskýra nafnorðin betur.  Að einu leyti eru lýsingarorð frábrugðin öðrum fallorðum og það er auk þess eitt megineinkenni þeirra, en það er að þau stigbreytast.  En það er fleira sem tengir lýsingarorð við önnur fallorð en aðgreinir þau, eins og það að þau:

 

  • beygjast í föllum.
  • taka kyn.
  • geta staðið í eintölu og fleirtölu.

 

Dæmi um lýsingarorð:

gamall, ungur, bláir, stórar, hokinn, hávær, falleg

 

 

 

Verkefni

Finndu lýsingarorðin:

Einn geisli frá sólinni, sem er að setjast, skín inn í tómlegan fangaklefann. Sólin skín jafnt yfir vonda og góða. Fanginn horfir svipdimmur og hörkulegur á kaldan geislann og augnaráðið er ljótt. Dálítill fugl kemur fljúgandi að gluggagrindinni. Fuglinn syngur jafnt fyrir réttláta og rangláta, hann kvakar: ví, ví, situr kyrr um stund við grindina, reytir af sér eina fjöður og ýfir á sér fiðrið um háls og bringu – og vondi maðurinn hlekkjaði horfir á það, og mýkist þá svipurinn nokkuð, þó harður sé og ófrýnn.

 

5.1 Stigbreyting lýsingarorða

Eins og áður segir er stigbreytingin eitt aðaleinkenni lýsingarorða. Þetta á þó ekki við um öll lýsingarorð, því að lýsingarorð sem enda á -a (andvaka, ráðþrota) og -andi (sofandi, niðrandi) stigbreytast ekki; sama er að segja um lýsingarorðin hugsi og þurfi (maðurinn er hugsi; hann er hjálpar þurfi).

 

Með stigbreytingu er átt við það þegar orð færist upp á annað stig til að sýna eitthvað meira eða mest. Er talað um þrjú stig:  frumstig, miðstig og efstastig.

 

Dæmi:

frumstig

stór

gömul

þreytt

miðstig

stærri

eldri

þreyttara

efstastig

stærstur

elst

þreyttast

 

Stigbreytingin getur verið tvenns konar og er stundum talað um reglulega og óreglulega stigbreytingu í því sambandi.

 

 

Regluleg stigbreyting

 

Flest lo. stigbreytast reglulega eða með því að bæta við -ari eða -ri í miðstigi og -astur eða -stur í efstastigi. 

Dæmi: sætur – sæt-ari –  sæt-astur; langur  leng-ri – leng-stur.

 

 

Óregluleg stigbreyting

 

Mörg orð stigbreytast óreglulega, en þá er átt við það þegar miðstig og efstastig myndast af öðrum stofni en frumstigið. 

Dæmi:  góður – betri – bestur.

 

Ungir málnotendur eiga stundum erfitt með að tileinka sér óreglulega stigbreytingu (þeir segja kannski: „Ég er stórastur“).

 

Dæmi um algeng orð sem hafa óreglulega stigbreytingu:

 

frumstig

gamall

illur

vondur

mikill

margur

lítill

miðstig

eldri

verri

verri

meiri

fleiri

minni

efstastig

elstur

verstur

verstur

mestur

flestur

minnstur

 

 

Enn um stigbreytingu

 

Eins og við gátum um stigbreytast ekki öll lýsingarorð, sbr. þau sem enda á -a: agndofa, gjaldþrota.

Og merkingar sinnar vegna eru sum lýsingarorð aðeins til í frumstigi: dauður og hálfur (það er erfitt að ímynda sér að einhver sé dauðari eða hálfari en annar).

Nokkur lo. eru aðeins til í miðstigi og efstastigi, sbr.

 

frumstig

-

-

-

-

-

miðstig

aftari

efri

fremri

neðri

syðri

efstastig

aftastur

efstur

fremstur

neðstur

syðstur

 

Orðin hægri og vinstri líta út eins og miðstigsorð (sbr. ri-endinguna í í betri, efri o.s.frv.), og eru (líkt og miðstigsorð) aðeins til í veikri beygingu. En þessi orð (þ.e. hægri, vinstri)  eru frumstigsmerkingar: hægri hönd, vinstri vængur.

 

 

 

Verkefni

 

Stigbreytið lýsingarorðin.

ríkur,  kær,  hlý,

nýr, gegnsær

gömul,  margur,  vond

 

5.2 Kyn lýsingarorða

Rétt er að athuga að ólíkt t.a.m. nafnorðum sem hvert um sig er einungis til í einu kyni er hvert lýsingarorð til í þremur kynjum, þ.e. karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni.  Fer það eftir því til hvers lýsingarorðið vísar hvaða kyn það tekur:

 

Dæmi:

maðurinn er ríkur

karlkyn

 

konan er rík

kvenkyn

 

barnið er ríkt

hvorugkyn

 

Annað dæmi:

maðurinn er iðinn

karlkyn

 

konan er iðin

kvenkyn

 

barnið er iðið

hvorugkyn

 

Niðurstaða: sama lýsingarorð getur staðið í öllum kynjum; sama nafnorðið á sér aðeins eitt kyn!

 

 

 

Verkefni

Greindu kyn lýsingarorðanna.

langt,  fyndin,  hál,  frjór,  brýnt,  gömul,  knár,  löt,  fagur,  léttfætt.

 

Hér er miðað við að lýsingarorðið standi í eintölu. En höfum í huga að hvorugkyn fleirtölu nf. er eins og kvenkyn eintölu nf. Þannig að ef t.d. orðið fyndin eða löt er í fleirtölu er um hvorugkyn að ræða: fyndin börn/löt börn.

 

5.3 Tölur lýsingarorða

Lýsingarorð eru bæði til í eintölu og fleirtölu og gildir það um hvert kyn fyrir sig. 

 

Dæmi:

kk

maðurinn er ríkur

mennirnir eru ríkir

kvk

konan er rík

konurnar eru ríkar

hk

barnið er ríkt

börnin eru rík

 

 

Tala lýsingarorðs fylgir venjulega tölu nafnorðsins sem það stendur með.

 

Dæmi:

kk

góður maður

góðir menn

kvk

góð kona

góðar konur

hk

gott barn

góð börn

 

 

Verkefni

 

Greindu tölu og kyn lýsingarorðanna. Hafðu í huga að í sumum tilvikum getur verið bæði um eintölu og fleirtölu að ræða eftir því hvert kynið er!

fagurt,  magrar, mögur,  þunnar,  hvít,  góð, þykkust, smárra

 

5.4 Fallbeyging lýsingarorða

Lýsingarorð beygjast í föllum eins og önnur fallorð og fallbeygist lýsingarorðið þá venjulega í samræmi við nafnorðið sem það stendur með.

 

Hér sjáum við dæmi um fallbeygingu orðsins góður:

 

Eintala:

 

nefnifall

góður (maður)

góð (kona)

gott (barn)

þolfall

góðan (mann)

góða (konu)

gott (barn)

þágufall

góðum (manni)

góðri (konu)

góðu (barni)

eignarfall

góðs (manns)

góðrar (konu)

góðs (barns)

 

Fleirtala:

 

nefnifall

góðir (menn)

góðar (konur)

góð (börn)

þolfall

góða (menn)

góðar (konur)

góð (börn)

þágufall

góðum (mönnum)

góðum (konum)

góðum (börnum)

eignarfall

góðra (manna)

góðra (kvenna)

góðra (barna)

 

 

 

Verkefni 1

Fallbeygðu lýsingarorðin í eintölu í því kyni sem þau standa í:

þykkur,  fagurt,  há, mögur

 

Verkefni 2

Fallbeygðu lýsingarorðin í fleirtölu í því kyni sem þau standa í:

þykkir, montnir, miklir, gömul (hk), frjóar, rýr (hk)

 

5.5 Sterk og veik beyging lýsingarorða

Oft er talað um tvenns konar beygingu lýsingarorða.  Annars vegar sterka beygingu og hins vegar veika beygingu. Hafa langflest lýsingarorð bæði sterka og veika beygingu.

 

Í sterku beygingunni vísar lýsingarorðið til einhvers óákveðins atriðis (persónu, hlutar o.s.frv.: góður maður; mikil rigning).

 

Í veiku beygingunni vísar lýsingarorðið til einhvers ákveðins: góði maðurinn, mikla rigningin.   

 

 

Það kann að vekja athygli að miðstig er alltaf í veikri beygingu (breiðari bíllinn/breiðara rúmið) en efstastig getur bæði haft sterka og veika beygingu (hann er bestur (s.b.); besti maðurinn (v.b.))

 

Í sterku beygingunni endar lýsingarorðið á samhljóða í ef.et.

 

Í veiku beygingunni endar lýsingarorðið á sérhljóða í öllum föllum.

 

 

Dæmi um sterka beygingu orðs:

 

nf. et.

gamall (maður)

gömul (kona)

gamalt (hús)

þf. et.

gamlan (mann)

gamla (konu)

gamalt (hús)

þgf. et.

gömlum (manni)

gamalli (konu)

gömlu (húsi)

ef. et.

gamals (manns)*

gamallar (konu)

gamals (húss)

nf. ft.

góðir (menn)

góðar (konur)

góð (börn)

þf. ft

góða (menn)

góðar (konur)

góð (börn)

þgf. ft.

góðum (mönnum)

góðum (konum)

góðum (börnum)

ef. ft.

góðra (manna)

góðra (kvenna)

góðra (barna)

 

* Orðið endar á samhljóða í ef. et.

 

 

Dæmi um veika beygingu orðs:

 

nf. et.

gamli (maðurinn)

gamla (konan)

gamla (húsið)

þf. et.

gamla (manninn)

gömlu (konuna)

gamla (húsið)

þgf. et.

gamla (manninum)

gömlu (konunni)

gamla (húsinu)

ef. et.

gamla (mannsins)

gömlu (konunnar)

gamla (hússins)

nf. ft.

gömlu (mennirnir)

gömlu (konurnar)

gömlu (húsin)

þf. ft

gömlu (mennina)

gömlu (konurnar)

gömlu (húsin)

þgf. ft.

gömlu (mönnunum)

gömlu (konunum)

gömlu (húsunum)

ef. ft.

gömlu (mannanna)

gömlu (kvennanna)

gömlu (húsanna)

 

Hér endar lýsingarorðið gamall á sérhljóða í öllum föllum et. og ft.

 

5.6 Staða lýsingarorða

Oft er talað um að lýsingarorð geti verið hliðstæð eða sérstæð

 

Með hliðstæðu lýsingarorði er átt við það þegar lýsingarorð stendur í sambandi við annað fallorð og þá oftast nafnorð. Þá lagar það sig að kyni, falli og tölu þess orðs. Lýsingarorðið getur þá ýmist staðið á undan eða eftir fallorðinu sem það er í sambandi við. 

 

Dæmi
Ung stúlka.  Stúlkan er ung.

 

Sérstæð lýsingarorð standa hins vegar eins og nafnorð og jafngilda þá nafnorði eða lýsingarorði og nafnorði.  Dæmi:  Haltur ríður hrossi.  Hann á ekki von á góðu.  (Hér er nafnorð undanskilið, sbr. haltur maður.)

 

Stöku sinnum gerist það að lýsingarorð, sem ekki er sérstætt, lagar sig ekki að öllu leyti eftir fallorðinu og er það þá kallað hálfhliðstætt. Dæmi: Foreldrarnir (kk.ft.) eru góð (hk.ft) við börnin sín. (Hér hefði lýsingarorðið átt að vera góðir (kk.ft.) til samræmis við nafnorðið foreldrar sem er karlkynsorð í fleirtölu; en þess í stað miðast lýsingarorðið við það að sagt sé t.d.: pabbi og mamma eru góð við börnin sín.). Annað dæmi um hálfhliðstætt lýsingarorð: Skáldið sem ég sá er góður við börnin sín (málfræðilega hefði verið rétt að segja: Skáldið (hk.) sem ég sá er gott (hk.) við börnin sín).

 

Hliðstætt kallast það lýsingarorð sem stendur í sambandi við annað nafnorð og lagar sig þá oftast að kyni þess, tölu og falli.

 

Sérstæð lýsingarorð standa ein og sér og jafngilda nafnorði eða lýsingarorði og nafnorði. 

 

Verkefni

 

Finndu hvort lýsingarorðin eru hliðstæð (h) eða sérstæð (s).

Oft veldur lítill (   ) þungu (   ) hlassi.   Oft veltir lítil (   ) þúfa þungu (   ) hlassi. Sigríður var ung (   ) kona þegar þessi skrýtna (   ) saga gerðist.  Flestir (   ) kusu að halda áfram.   Nefið hans Jóns var stórt (   ) og tígulegt (   ).  Jarpi (   ) hesturinn er frárri (   ) en sá skjótti (   ).  Inni í herberginu fann hann margar (   ) bækur.  Úldin (   ) skata lá á hrufóttu (   ) gólfinu og beittur (   ) hnífur þar við hliðina.  Herbergið var mollulegt (   ) og óhreint (   ) í alla staði.  Haltur (   ) leiðir blindan (   )

 

6. Töluorð

Töluorð tákna tiltekinn fjölda eða ákveðna upphæð. Þau er hægt að skrifa bæði sem tölur og orð.  Töluorð greinast í frumtölur og raðtölur

 

Athugið að sum orð sem tilheyra öðrum orðflokkum geta óneitanlega minnt á töluorð. Dæmi um slík orð eru:

 

  • einfaldur, tvöfaldur, þrefaldur ...  (flokkuð sem lýsingarorð)
  • tvisvar, þrisvar  ...  (flokkuð sem atviksorð)
  • níund, tíund, fjórðungur, tugur, tylft ... (flokkuð sem nafnorð, enda taka þau með sér greini!)

 

Gaman er að velta fyrir sér orðunum þúsund og milljón. Þegar þessi orð taka með sér greini verðum við sennilega að líta á þau sem nafnorð: „Hann geymir allar milljónirnar sínar undir koddanum.“

 

6.1 Frumtölur

Þegar við teljum á einfaldan hátt notum við frumtölur.  Þær eru til dæmis:

 

  • einn (1),  tveir (2),  þrír (3) 
  • fimmtán (15),  sextán (16), sautján  (17)
  • tuttugu og einn (21) ... þrjátíu og tveir (32)
  • hundrað (100),  tvö hundruð (200)
  • milljón (1000000)

 

Athugið orðmyndirnar: einir, tvennir, þrennir ...: einir sokkar, þ.e. eitt par.

 

Verkefni:

 

  1. Er eitthvað athugavert við setninguna: „Ég keypti tvenna skó og tvennar peysur“?
  2. Hvers vegna á að segja: „Ég keypti tvennar buxur“?

 

6.2 Raðtölur

Þegar fólki er raðað í sæti eða röð, eða þegar talin er upp röð atvika, notum við raðtölur. Þegar við skrifum raðtölur með tölustöfum setjum við punkt á eftir tölunni til að sýna að um raðtölu sé að ræða. 

 

  • fyrsti, annar, þriðji (1., 2., 3.)
  • fimmtándi, sextándi, sautjándi (17.).
  • tuttugasti og fyrsti (21.), þrítugasti og annar (32.)
  • hundraðasti (100.), tvö hundraðasti (200.)
  • milljónasti (1000000.)

 

Þegar talan er orðin mjög há og inniheldur mörg orð eru það venjulega einungis tveir síðustu liðirnir sem eru skráðir/bornir fram sem raðtölur.  Dæmi: Sjö þúsund tvö hundruð þrítugasti og níundi  (7239.); nítján hundruð nítugasti og fyrsti (1991.).

 

Verkefni

 

Skrifið töluorð í stað talnanna.

Ég fékk 1 stig í 1. umferð en 5 stig í 2. umferð. 

Í 3. umferð fékk ég svo 20 stig. 

Ágúst var í 1. sæti, en Páll bróðir hans náði einungis 3. sæti í sama riðli. 

Það er 1 á undan okkur svo við ættum ekki að þurfa að bíða lengi.  

Áslaug reyndist vera 1001. viðskiptavinurinn í verslun Baldurs og fékk fyrir það úttekt upp á 156000 krónur. 

Sú sem var 1000. viðskiptavinurinn fékk hins vegar úttekt fyrir 500000 krónur auk þess sem hún fékk ferð fyrir 2 til Færeyja.

 

7. Greinir

Greinirinn í íslensku er aðeins eitt orð sem beygist í föllum, kynjum og tölu.  Er annars vegar talað um lausan greini og hins vegar viðskeyttan greini.  Laus stendur  greinirinn sér en viðskeyttur greinir bætist aftan við nafnorð.  Hér má sjá lausa greininn í öllum kynjum:

 

  • hinn (í karlkyni)
  • hin (í kvenkyni)
  • hið (í hvorugkyni)

 

Sú breyting verður á greininum þegar honum er bætt aftan við nafnorð að þá fellur h-ið niður og stundum einnig i.  Eftir stendur þá (i)nn, (i)n, (i)ð. 

 

Hér má sjá dæmi um nafnorð með greini:

 

Eintala

     Fleirtala

  • karl – inn
  • kona – n
  • barn – ið
  • karlar – nir
  • konur – nar
  • börn – in

 

Höfum sífellt í huga notagildi málfræðinnar, t.d. þegar kemur að stafsetningunni. Hér að ofan var minnst á að lýsingarorð sem enda á in/inn hafa jafnmörg n og greinirinn. Með það í huga eigum við ekki í vandræðum með fjölda n-a í orðum eins og flókinni reglu, hygginni konu, fyndinnar stúlku o.s.frv. (hinni flóknu reglu, hinni hyggnu konu, hinnar fyndnu stúlku).

 

Spurning:  Hvernig er fyndinn maður í þf.et.?

Svar: fyndinn mann (hinn fyndna mann).

 

Verkefni 1

 

Beygðu lausa greininn í hvorugkyni í eintölu og fleirtölu.

 

Verkefni 2

 

Finndu orðin sem eru með greini í textanum hér fyrir neðan.

Síðari rannsóknir sýna að þéttikjarnar í loftlögunum yfir hafinu eru sannanlega fleiri á sumrin og jafnframt því nær sem dregur miðbaug og að DMS-innihaldið í hafskorpunni sýnir sama munstur. Þetta er, að dómi vísindamannanna, áhrifamikil sönnun þeirrar kenningar þeirra að þörungarnir séu eins konar hitastillir sem stjórnar og jafnar hitann á jörðinni. James Lovelock telur að þessi lífshringur, sem hingað til hefur verið horft fram hjá, geti haft jafnmikla þýðingu fyrir loftslag jarðarinnar og gróðurhúsaáhrif koltvísýringsins, ef ekki meiri.