Höfundur
Þorsteinn Erlingsson

Rafbækur

Útgáfa

2015
Ævintýri

Stundum hefur það verið sagt um okkur Íslendinga að við hlúum illa að okkar eldri skáldum og verkum þeirra og það á sannarlega við um þessi ævintýri Þorsteins Erlingssonar, sem alltof fáir þekkja. Birtust þau öll fyrst í tímaritinu Dýravininum, en var svo síðar safnað saman í eina bók undir heitinu Málleysingjar. Kannski hefur það haft áhrif á litla útbreiðslu þessara ævintýra að þau voru flokkuð þetta þröngt, sem er mikill skaði, því fá íslensk ævintýri hafa víðtækari vísanir, en einmitt þessi ævintýri Þorsteins. Sögurnar hafa t. a. m. á sér nokkuð austurlenskan blæ, sem sést á m. a. á nöfnum persónanna, en þar er Þorsteinn að kallast á við ævintýrin Þúsund og ein nótt, sem hann hafði mikið dálæti á sem barn.

Þeir sem hafa átt því láni að fagna að alast upp með ævintýrum Þorsteins Erlingssonar vita gjörla hve skemmtileg þau eru og mikið í þau spunnið. Það er trú undirritaðs að þau séu í hópi bestu ævintýra sem skrifuð hafa verið hér á landi og að þau ættu að skipa mun veglegri sess í bókmenntasögu okkar en þau gera. Það er í raun skammarlegt að við skulum ekki sjá sóma okkar í að halda slíkum menningarperlum á lofti.