• Af góðum hug koma góð ráð.

 • Allt fagurt er augum þekkt.

Sagnorð

1. Sagnorð

Sagnorð eða sagnir gegna lykilhlutverki í máli fólks, bæði í ræðu og riti. Sagnir eru í langflestum setningum sem við myndum. Sagnorð eru um fjórða hvert orð í venjulegum texta. Orðabókarmynd sagnar kallast nafnháttur. Þessa mynd má finna með því að setja nafnháttarmerkið fyrir framan sögnina.

 

Dæmi: að sofa, að yrkja, að kalla, að koma

 

 

 

Verkefni 1

Hversu algengar eru sagnir í venjulegum texta?

 

 

Verkefni 2

Hvaða sagnmynd finnum við í orðabókum?

 

 

Verkefni 3

Líttu á málsgreinina hér að neðan og tilgreindu síðan orðabókarmynd (uppflettimynd) sagnorðanna í henni:

Ég syngi lagið ef ég kynni það (Svar: syngja, kunna)

 

Líttu nú á þessa setningu og skráðu orðabókarmynd sagnarinnar:

Ég kynni lagið á hátíðinni í kvöld (Svar: kynna)

 

Atriði sem þessi gætu reynst útlendingum erfið!

 

2. Beygingarformdeildir sagna

Beygingarformdeildir sagna eru þessar:  Tíð, persóna, tala, háttur og mynd.

 

Hér fyrir neðan sjáum við hvernig sögnin að fara beygist:

 

Tíð

nútíð

fer

 

þátíð

 

fór

 

Persóna

1. persóna

fer

 

2. persóna

ferð

 

3. persóna

 

fer

 

Tala

eintala

fer

 

fleirtala

 

förum

 

Háttur

framsöguháttur

fer

 

viðtengingarháttur

færi

 

boðháttur

farðu

 

nafnháttur

fara

 

lýsingarháttur nútíðar

farandi

 

lýsingarháttur þátíðar

 

farinn

 

Mynd

germynd

fer

 

miðmynd

ferst

 

þolmynd

farinn

 

 

 

Verkefni

Búðu til samskonar yfirlit yfir sagnirnar: að sjá, að færa, að taka.

 

3. Tíðir

Sagnorð greinast frá öllum öðrum orðum að því leyti að þau beygjast í tíðum. Í íslensku eru tvær tíðir: nútíð og þátíð.  Þátíð er notuð um það sem er liðið en nútíð er notuð um það sem gerist núna, það sem gerist í framtíðinni og er meira að segja stundum notuð um liðna atburði, einkum í frásögnum (líður nú til jóla). 

 

Dæmi:

Nútíð

Þátíð

Ég fer.

Ég skrifa.

Ég skrepp heim á morgun.

Ég fór.

Ég skrifaði.

Ég skrapp heim í gær.

 

Skilgreining:

 

Öll orð, sem unnt er að beygja þannig að þau taka bæði merkingarbreytingu og formbreytingu eftir því hvenær það gerist sem talað er um, kallast sagnorð.

 

Dæmi:

Ég fer í bæinn með Palla.

Ég fór í bæinn með Palla.

 

Merkingarmunur þessara tveggja setninga er augljós hverjum þeim sem kann íslensku. Annars vegar er rætt um atburð sem er að gerast núna eða hefur ekki gerst, hins vegar atburð sem hefur átt sér stað.

 

Munur á formum sagnanna tveggja er greinilegur, fer – fór.

 

Þátíð greinir yfirleitt frá því sem liðið er:

 

Í gamla daga gengu Íslendingar á sauðskinnsskóm

Þangað reru allir því veður var fagurt og blítt þennan dag

 

En eins og minnst var á hér að ofan er unnt að nota nútíð sem tilvísun til hvaða tíma sem er:

 

Núna

            Stúlkan gengur í skóla.

 

Síðar

            Stúlkan gengur örugglega í skóla næstu árin.

 

Áður (frásagnarnútíð, söguleg nútíð)

            Gengur hann yfir ána og finnur strax hrossin.

 

Sífelldur tími

            Vorið kemur (á hverju ári) með hækkandi sól.

3.1 Sterkar sagnir og veikar

Sagnir skiptast í tvo flokka eftir beygingu í tíð: Sterkar sagnir og veikar sagnir.

 

Sterkar sagnir eru fáar, um 100, veikar sagnir eru nokkur þúsund.

 

Allar nýjar sagnir í íslensku eru veikar (gúgla – gúglaði/ deita – deitaði).

 

Dæmi um sterkar sagnir:

nútíð

þátíð

fer

syng

hlæ

fór

söng

hló

 

Dæmi um veikar sagnir:

nútíð

þátíð

skrifa

horfa

snerta

ræða

skrifaði

horfði

snerti

ræddi

 

Börn sem eru að læra móðurmálið beygja oft sterkar sagnir eins og þær væru veikar. Þau segja Nonni sjáði mig og bítti mig.

 

Skýringin á þessari beygingu í máli barna er sú að sterkar sagnir beygjast óreglulega enda oft kallaðar óreglulegar sagnir en veikar sagnir beygjast flestar reglulega og eru því auðveldari í meðförum. Sterkar sagnir skipta um sérhljóð eins og auðvelt er að sjá í þessu dæmi:

 

bíta – beit – bitum : í – ei – i.

 

En veikar sagnir bæta við sig endingu; endingarnar geta verið þessar: -aði, -ði, -di og -ti. Yfirleitt lærast reglurnar um hvenær þarf að nota hvaða endingu miklu fyrr og auðveldlegar en beyging sterku sagnanna.

 

Verkefni 1

 

Finndu tíu dæmi þess að barn beygir sterkar sagnir eins og veikar sagnir (sbr. t.d.: Hann hlaupti heim).

 

Verkefni 2

 

Ímyndaðu þér að þessar sagnir séu til í íslensku og hafi alltaf verið til. Hvernig myndir þú beygja þær ef þú vissir að þær beygðust veikt? Hvers vegna?

krifa, fraka, metja, rilja, paupa, krekkja.

 

Svar:

krifa – krifaði (minnir á skrifa – skrifaði)

metja – metti (minnir á setja – setti)

rilja – rildi (minnir á skilja – skildi)

paupa – peypti (minnir á kaupa – keypti; hér hljóðverpist sérhljóðið í þátíðinni)

krekkja – krekkti (minnir á hrekkja – hrekkti)

 

3.2 Núþálegar sagnir

Núþálegar sagnir eru tíu: eiga, kunna, mega, muna, munu, skulu, unna, vilja, vita og þurfa (við tökum eftir að tvær sagnanna enda á u í nafnhætti!)

 

Núþálegar sagnir eru afar sérstæður flokkur sagna. Með nafninu núþálegar er bent á að nútíð þeirra er mynduð á sama hátt og þátíð sterkra sagna, þátíð þeirra er mynduð á sama hátt og veikar sagnir mynda þátíð.

 

Dæmi:

 • muna: nútíð er man, mynduð með hljóðskiptum á sama hátt og sterkar sagnir, u ~ a
 • muna: þátíð er mundi, mynduð með beygingarendingunni -di á sama hátt og senda ~ sendi.

 

Verkefni

1.  Hvað eru núþálegu sagnirnar margar? 

2.  Hverjar eru núþálegu sagnirnar?

3. Hvernig er sögnin unna (elska) í 1.p.et.nt.? Hvernig er hún í 1.p.et.þt.? (Svar: Ég ann þér; ég unni þér.)

3.3 Ri-sagnir

Ri-sagnir eru fjórar: gróa, róa, núa og snúa

 

Þær enda á -ri í þátíð.

 

Athugið að þó að þátíðin hljómi með (é) hljóði, þá er hún yfirleitt rituð með e í þessum sögnum:  gróa / greri,  róa / reri,  núa / neri,  snúa / sneri.

 

Verkefni 1

 

Myndaðu fjórar setningar þar sem núþáleg sögn kemur fyrir í þátíð.

 

Verkefni 2

 

Hvað merkir orðasambandið að núa einhverjum einhverju um nasir? Myndaðu málsgrein þar sem þetta orðasamband kemur fyrir í þátíð.

(Svar: saka einhvern um e-ð; minna einhvern á einhverja yfirsjón eða afbrot. Hann neri mér því um nasir að ég hefði svindlað á prófinu.)

 

3.4 Sagnasambönd

Oft eru margar sagnir hafðir hver á eftir annarri í einni og sömu setningunni. Yfirleitt er þá verið að afmarka tíma betur en unnt er að gera einungis með nútíð og þátíð en einnig er oft einhvers konar skilyrði eða fyrirvari gefinn í skyn með því að nota fleiri sagnir.

 

Dæmi:

a:

Stúlkan kom oft til Ísafjarðar

Stúlkan hafði oft komið til Ísafjarðar

 

b:

Maðurinn syngur á samkomunni á morgun

Maðurinn mun syngja á samkomunni á morgun

 

Ath! Við sjáum að það er merkingarmunur á þessum sagnapörum. Í lið a er í seinni setningunni gefið í skyn að stúlkan hafi oft komið til Ísafjarðar áður en eitthvert tiltekið atvik í fortíðinni átti sér stað. Í lið b er í seinni setningunni sagt að maðurinn muni syngja á samkomunni en þetta er ekki afgerandi fullyrðing, sjá nánar hér á eftir.

 

3.5 Núliðin tíð

Núliðin tíð er mynduð með hjálparsögninni hafa í nútíð (en aðalsögnin stendur þá í lýsingarhætti þátíðar).

 

Dæmi: 

Hænan hefur sofið

Ég hef sofið

Við höfum sofið

 

3.6 Þáliðin tíð

Eini munurinn á núliðinni tíð og þáliðinni er að í þáliðinni tíð er hjálparsögnin í þátíð (sbr. nafnið). Aðalsögnin er eftir sem áður í lýsingarhætti þátíðar.

 

Dæmi:

Hundurinn hefur bitið manninn (núliðin tíð, sögnin hefur í nútíð)

Hundurinn hafði bitið manninn (þáliðin tíð, sögnin hafði í þátíð)

 

Í þáliðinni tíð er miðað við einhvern tíma í fortíðinni, þ.e. unnt er að ímynda sér framhald setningarinnar með þessum hætti:

 

Hesturinn hafði bitið hundinn þegar að var komið/þá/áður en...

 

Verkefni:

 

Útbúið setningar bæði í núliðinni og þáliðinni tíð með sögnunum: fara, koma,  sjá, gera,  hlaupa,  draga

(Dæmi: ég hef farið…/ég hafði farið…)

 

3.7 Framtíð

Framtíð er táknuð á ýmsa vegu eins og þegar hefur verið sýnt (t.d. með sögn í nútíð ásamt forsetningarliðum (kem í kvöld) og atviksliðum (kem bráðum). Stundum er framtíðin einnig táknuð með hjálparsögninni munu (ásamt nafnhætti aðalsagnarinnar).

 

Dæmi:

Hann mun fara

Konurnar munu bráðum koma hingað aftur

 

Sögnin munu er þó notuð miklu víðar en í eiginlegri framtíðarmerk­ingu. Oft tjáir sagnasambandið óvissu (einkum með vera sem aðalsögn):

 

Í stóðinu munu vera fimmtíu hross

 

Óvissan getur einnig átt við þegar munu er notuð með öðrum sögnum en sögninni að vera, eins og sjá má þegar þessar setningar eru bornar saman:

 

Jón syngur í Vín í vor

Jón mun syngja í Vín í vor (hér er einhver óvissa innifalin)

 

Munurinn er aftur á móti alveg augljós þegar við berum saman eftirfarandi setningar (með sögninni vera sem aðalsögn): 

 

Í stóðinu eru fimmtíu hross (hrein og klár fullyrðing)

Í stóðinu munu vera fimmtíu hross (hér er fyrirvarinn bersýnilegur)

 

Eðlilegasta og algengasta aðferðin til þess að tákna framtíð er að nota nútíð (ásamt t.d. forsetningarlið (á morgun) eða atvikslið (seinna).

 

Dæmi:
Ég kem í kvöld

 

Verkefni

 

Útbúið setningar með hjálparsögninni munu til að mynda framtíð og notið sagnirnar hér fyrir fyrir aftan:  lesa,  múra,  ferðast,  vinna,  kíkja

 

(Dæmi: Ég mun lesa þessa bók á næsta ári)

 

 

3.8 Þáframtíð

Þáframtíð er mynduð með því að nota tvær hjálparsagnir og eina aðalsögn:

 

Dæmi

Þeir munu hafa étið gulrætur

 

Sögnin munu er í persónuhætti, hafa er í nafnhætti og étið í lýsingarhætti þátíðar. Miðað er við einhvern ákveðinn tíma í framtíð eða fortíð. Einnig getur merkingin vísað til tímabils, og óvissan er með í för:

 

Þeir munu hafa étið gulrætur í allan vetur

Þeir munu hafa étið gulrætur þangað til kartöflur komu á markað

Þegar þú hittir þá í næsta mánuði munu þeir hafa étið gulræturnar

 

3.9 Skildagatíð

Skildagatíðirnar tvær eru eingöngu til í viðtengingarhætti og þær hafa einungis skilyrðismerkingu (sbr. orðið ‚skildagi‘ = skilyrði).

 

Skildagatíð er hliðstæð framtíð nema hvað hjálparsögnin munu er í viðtengingarhætti þátíðar:

 

Jóka mun éta gulrætur (framtíð)

Jóka mundi éta gulrætur (skildagatíð)

 

Í skildagatíð er miðað við eitthvert skilyrði í framtíðinni með tilliti til einhvers í fortíðinni eða nútíma:

 

Jóka mundi éta gulrætur væru þær ekki svona trénaðar

 

 

Verkefni:

 1. Hvernig mundir þú útskýra muninn á skildagatíð og framtíð?
 2. Hvenær notum við skildagatíð?

 

Svör:

 1. Skildagatíð hefur sömu hjálparsögn og framtíð (munu) en munurinn er sá að í skildagatíð er hjálparsögnin í viðtengingarhætti þátíðar.
 2. Í skildagatíð er settur fyrirvari: að eitthvað verði því aðeins gert að tiltekin skilyrði séu uppfyllt.

 

3.10 Þáskildagatíð

Þáskildagatíð svipar til þáframtíðar að því leyti að til þess að mynda hana eru sömu hjálparsagnir notaðar, munu og hafa, en munu er alltaf í viðtengingarhætti þátíðar:

 

Jói mun hafa étið gulrætur    (þáframtíð)

Jói mundi hafa étið gulrætur    (þáskildagatíð)

 

Í þáskildagatíð er greinilega miðað við að tiltekin skilyrði hefðu þurft að vera uppfyllt (í fortíð) til þess að þetta eða hitt hefði getað gerst.

 

3.11 Lokaorð um tíðir

Ýmislegt fleira sem tengist tíð og tíma er fróðlegt að kanna. Þar má til dæmis nefna sagnasambönd þar sem eiginlegar hjálparsagnir eru ekki notaðar. Dæmi:

 

Kennarinn fer að fara

Mamma þín fer að koma

 

Ég skal sækja brauðið

Ég skal ná prófinu!

 

Í eftirfarandi dæmum sést hvernig vth.þt. er notaður í sömu merkingu og skildagatíðin:

 

„Ef væri ég söngvari syngi ég ljóð“ (=mundi ég syngja)

Væri ég þú safnaði ég hári (=mundi ég safna)

 

Að lokum er eitt athyglisvert dæmi um hvernig hægt er að raða saman mörgum sögnum. Er einhver leið að hafa sagnirnar fleiri?

 

Jón er sagður hafa verið talinn hafa sagt þetta.

4. Tala

Sagnir (þ.e. sagnir í persónuhætti, sjá hér á eftir) beygjast í tölu. Tölurnar eru tvær, eintala og fleirtala. Tala sagnar ræðst af frumlagi setningar.

 

Dæmi:

 

eintala

 

fleirtala

 

Konan syngur.

Konan söng.

Konurnar syngja.

Konurnar sungu.

 

5. Persóna

Flestar sagnir beygjast í persónum. Þær eru nefndar persónulegar sagnir.

Persónurnar eru þrjár:

1. persóna,  2. persóna og  3. persóna

 

Ég hleyp

Þú hleypur

Hún hleypur

Maðurinn hleypur

Við hlaupum

Þið hlaupið

Þær hlaupa

1. persóna

2. persóna

3. persóna

3. persóna

1. persóna

2. persóna

3. persóna

 

 

 

Verkefni

Skrifaðu sagnirnar hlaupa og hleypa í 1.p.et. og 1.p.ft.

 

6. Ópersónulegar sagnir

Ópersónulegar sagnir eru alltaf í 3. persónu eintölu. Mundu að ópersónulegar sagnir taka alltaf með sér frumlag í aukafalli.

 

Mennina (frumlag í þolfalli)

langar (ópersónuleg sögn, í 3. persónu eintölu)

heim.

 

Dæmi:

Mig vantar hest (frumlag í þf.)

Hann langar í mat (frumlag í þf.)

Guðmundi sýnist þetta harla gott (frumlag í þgf.)

 

Sumar sagnir eru ýmist persónulegar eða ópersónulegar. Þegar þær eru ópersónulegar breytast þær ekkert þótt frumlag breytist

 

Dæmi:
Sögnin reka.

 

Gunnar rak kýrnar í haga – Gunnar og Pétur ráku kýrnar í haga / Strákarnir ráku kýrnar í haga (sögnin er persónuleg)

Skipið rak frá landi – Skipið og bátinn rak frá landi / Skipin rak frá landi

(sögnin er ópersónuleg; frumlagið stendur í þolfalli, sbr. t.d.: Bátana (þf.) rak frá landi).

 

 

Ópersónulegar sagnir hafa frumlag ýmist í þolfalli eða þágufalli.

 

Dæmi um frumlag í þolfalli:

Mig vantar bók

Konuna langar heim

 

Dæmi um frumlag í þágufalli:

Mér sýnist þetta gott

Konunni þykir gaman

 

Ákveðin tilhneiging er í þá átt að frumlag ópersónulegra sagna sé alltaf haft í þágufalli. Þá er sagt: Mér vantar meira/konunni vantar sokka (í stað mig vantar/konuna vantar). Þetta er málbreyting, að vísu nokkuð gömul, en þykir ekki eftirsóknarverð.

 

Einnig eru nokkur dæmi þess að persónulegar sagnir séu gerðar ópersónulegar í tali fólks. Þær helstu eru hlakka og kvíða. Þá segja menn: mig/mér kvíðir fyrir, en þeir ættu að segja: Ég kvíði fyrir. Einnig heyrist: mig/mér hlakkar til; en viðurkennt mál telst vera: Ég hlakka til (sbr. jólakvæðið: Bráðum koma blessuð jólin/börnin fara að hlakka til).

 

Verkefni 1

 

Finndu allar sagnir (þ.e. sagnir í persónuhætti) í textanum og taktu fram hvort þær séu persónulegar (p) eða ópersónulegar (ó).

Guðmundur hitti Jón í bænum. Þá langaði á kaffihús því að þeir voru svangir. Þeim virtist gott að fara á Skálann. Þegar þeir komu þangað pöntuðu þeir kaffi og köku. Til var góð kaka. Jón vantar rjóma með kökunni, sagði Guðmundur við afgreiðslumanninn. Þeim fækkar sífellt sem vilja rjóma, sagði afgreiðslumaðurinn. Þá fjölgar þeim sem vilja ekki rjóma, sagði Guðmundur og kímdi. Afgreiðslumanninn setti hljóðan.

 

Verkefni 2

 

Finndu þrjár ópersónulegar sagnir og myndaðu setningar með þeim þar sem frumlagið er nafnorð.

 

7. Hættir sagna

Sagnorð beygjast í háttum. Hættirnir skiptast í tvo flokka:

persónuhætti og fallhætti.

 

Persónuhættirnir eru þrír:

 • Framsöguháttur (fsh.)
 • Viðtengingarháttur (vth.)
 • Boðháttur (bh.)

 

Fallhættirnir eru einnig þrír:

 •  Nafnháttur (nh.)
 • lýsingarháttur nútíðar (lh.nt.)
 • lýsingarháttur þátíðar (lh.þt.)

 

 

Verkefni:

1. Hverjir eru persónuhættirnir?

2. Hverjir eru fallhættirnir?

 

 

Til glöggvunar:

Sögn í persónuhætti er alltaf í einhverri persónu og tölu: Ég kem (1.p.et.fsh.)/ þótt við komum (1.p.ft.vth.)/ komdu (2.p.et.bh.)/ vík (2.p.et.bh.) brott, Satan.)

 

En sögn í fallhætti tengist ekki persónu eða tölu: Ég er að koma/ þeir eru að koma/ ég hef talað/ þeir hafa talað (sögnin í fallhættinum, hvort sem um era ð ræða nafnhátt eða lýsingarhátt, breytist ekki þó breytt sé um persónu eða tölu).

 

7.1 Persónuhættir

Persónuhættirnir eru eins og áður sagði:

 • framsöguháttur
 • viðtengingarháttur
 • boðháttur

 

Sagnorð sem standa með frumlagi eru í persónuhætti.

 

 

Framsöguháttur

 

Framsöguháttur er algengastur og er notaður til að lýsa beinum staðreyndum.

Dæmi:  Ég fer – Þú syngur – Guðmundur hlær (þú tekur eftir að sagnirnar standa allar með frumlagi!)

 

 

Viðtengingarháttur

 

Sagnorð sem fela í sér merkingu um óvissu eða efa eru oftast í viðtengingarhætti. Viðtengingarhátt má finna með því að setja þó að eða þótt á undan sagnorðinu.

 

Dæmi:

Guðrún færi ef hún gæti.

Þú skrifaðir betur ef þú æfðir þig meira.

 

Gott er minnast þess að viðtengingarháttur er bæði til í nútíð og þátíð. Lítum á sögnina fara. Vth.nt. er fari; vth.þt. er færi.

Lítum einnig á sögnina finna. Vth.nt. er finni; vth.þt. er fyndi.

 

Dæmi:

Hann segir að hann finni (vth.nt.) til.

Hann sagði að hann fyndi (vth.þt.) til.

 

Minnumst þess að vth.nt. er leiddur af fyrstu kennimynd sagna (sbr. finna – finni); en vth.þt er leiddur af 3. kennimyndinni (sbr. fundum – fyndi [hér hefur u>y með i-hljóðvarpi]. Þetta atriði getur hjálpað okkur í stafsetningu.

 

 

Boðháttur

 

Boðháttur er skipun (boð) eða ósk. Hann er aðeins til í 2. persónu (et. og ft.) enda er skipun aðeins notuð þegar einum eða fleiri er skipað að gera eitthvað. Persónufornafnið er þá oftast sett aftan við sagnorðið svo úr verður eitt orð.

 

Dæmi:

Syngið lagið (=Syngið þið)

Farðu heim (komið úr far þú, -ðu er því eiginlega persónufornafnið þú).

Komdu hingað (= kom þú)

Hentu þessu drasli (= hend þú)

 

Við könnumst við að í hátíðlegu máli er fornafnið haft laust frá sögn eða því er jafnvel sleppt.

Dæmi:

Far þú heim.  Tak sæng þína og gakk.  Vík brott, Satan.

 

 

 

Verkefni

Greindu hætti sagna í textanum. Greindu jafnframt tíð sagnanna sem standa í persónuhætti.

Einu sinni var ungur maður sem átti fallegan hund. Dag nokkurn sagðist hann ætla að fara í útilegu. Hann sagði að hann færi norður á Strandir ef veður leyfði. Móðir hans sagði: Farðu ekki þangað nema hundurinn fari með. Hvers vegna ætti ég að fara? sagði maðurinn.

 

7.2 Fallhættir

Eins og áður kom fram eru fallhættirnir þessir:

 

 • nafnháttur
 • lýsingarháttur nútíðar
 • lýsingarháttur þátíðar

 

Nafnháttur

 

Þegar við leitum að sögn í orðabók leitum við jafnan að sagnmyndinni í nafnhætti, til dæmis að horfa eða að bíta. Nafnháttur sagnarinnar kallast því einnig orðabókarmynd (uppflettimynd). Ef við þyrftum að fletta upp sagnmyndinni beit breytum við henni ósjálfrátt í huganum í bíta.

 

Nafnháttur er stundum kallaður nafnorðsmynd sagnar. Það er vegna þess að sagnorð í nafnhætti stendur oft á sama stað í setningu og nafnorð.

 

Dæmi:

Gunnar er að tala ~ Gunnar er ræðumaður

Kennarinn sagði Gunnari að hlusta ~ Kennarinn sagði Gunnari sögu

 

Verkefni:

 

Greindu hátt sagnanna í eftirfarandi setningu:

Þeir heyra mig koma.

[Hér þarf að hafa í huga að 3.p.ft.fsh.nt. lítur út eins og nafnháttur.]

 

Lýsingarháttur nútíðar

 

Lýsingarháttur nútíðar endar alltaf á -andi.

 

Dæmi:

sofa – sofandi

vaka – vakandi

hlaupa - hlaupandi

 

Ég sá sofandi barn

 

Við sjáum að sofandi hefur sömu stöðu í setningunni og hvert annað lýsingarorð (Ég sá fallegt barn). Það stendur með nafnorðinu barn og lýsir því. Þess vegna er sofandi í þessari setningu lýsingarorð. Lýsingarorð sem mynduð eru með viðskeytinu  -andi beygjast ekki.

 

Það sem við köllum jafnan lýsingarhátt nútíðar er afar sjaldan sögn. Því getum við sagt að  -andi  sé viðskeyti sem myndar eitt orð af öðru orði, oftast lýsingarorð af sögn.

 

En stundum er myndað nafnorð af sögn með viðskeytinu -andi.

 

Dæmi:
Þarna er nemandi.

 

Auðvelt er að ganga úr skugga um að nemandi sé nafnorð. Orðið bætir við sig greini (nemandinn), það beygist í föllum (hér er nemandi, um nemanda) og það getur staðið í fleirtölu (nemendur).

 

Enn má nefna að viðskeytið -andi er stundum notað til að mynda atviksorð.

 

Dæmi:
Hér er ærandi mikill hávaði.

 

Orðið hávaði er nafnorð. Lýsingarorðið mikill lýsir þessu nafnorði. En hlutverk atviksorða er meðal annars að lýsa lýsingarorðum og sú er einmitt raunin með ærandi í þessu dæmi: Hávaðinn er ekki bara mikill, hann er ærandi mikill.

 

Niðurstaðan er því sú að lýsingarháttur nútíðar af sögn er afar sjaldan beyging sagnarinnar. Oftast er -andi viðskeyti sem myndar nýtt orð af sögninni og þetta nýja orð er lýsingarorð, nafnorð eða atviksorð.

 

 

Verkefni

 

Hvaða orðflokkur er orðið grenjandi í þessum dæmum?  Rökstyddu svarið.

Það var grenjandi rigning allan daginn.

Atli kom grenjandi illur heim

 

Lýsingarháttur þátíðar

 

Lýsingarháttur þátíðar beygist eins og lýsingarorð og getur jafnvel stigbeygst. Staða hans í setningu er oft svipuð og lýsingarorðs. Hann er notaður í ýmsum sagnasamböndum á eftir sögnunum geta, hafa, vera og verða.

 

Dæmi:

Helgi getur farið

Sigrún hefur sungið

Þið eruð farnir

Þú verður kallaður heim

 

Verkefni 1

 

Finndu hátt sérhvers sagnorðs í textanum. Greindu einnig persónu, tölu og tíð sagnanna sem standa í persónuhætti.

Jón stóð úti á túni og leit til veðurs. Ég hélt að þér tækist þetta betur. Hættu núna. Strákurinn kom hlaupandi til mín. Ég hef reynt að hjálpa honum. Þú værir kjáni ef þú færir ekki með krökkunum. Fórstu gangandi í skólann? Farið nú að hátta, krakkar. Hann hafði sofið lengi og hefði sofið lengur ef hann hefði mátt það. Látum sem ekkert sé. Hvað ertu að gera? Komdu til mín. Hafið þið týnt boltanum? Gangi þér vel.

 

Verkefni 2

 

Viðtengingarhættur nútíðar af vera og koma er og komi. Hvernig er vth.þt. af þessum sögnum?

 

 

8. Mynd

Oft er talað um þrjár myndir sagna í íslensku. Þær eru germynd, miðmynd og þolmynd.

 

Germynd: Ég fer í sund á eftir.

Miðmynd: Þau kysstust vel og lengi

Þolmynd: Guðmundi var refsað fyrir afbrotið

 

Í germynd er gerandinn áberandi:
Guðmundur tók barnið.

 

Í þolmynd er þolandinn í aðalhlutverki:
Barnið var tekið. En gerandinn er horfinn í skuggann [við gætum þó gert gerandann sýnilegan með því að segja: Guðmundi var refsað af lögreglunni/Barnið var tekið af Guðmundi (seinni setningin gæti reyndar misskilist illilega!)].

 

Miðmynd endar á -st í nafnhætti og þannig er auðvelt að greina miðmyndina. Stundum er merkingin gagnvirk í miðmynd: þau kysstust (þ.e. kysstu hvort annað); þau hjálpuðust að (þ.e. þau hjálpuðu hvert/hvort öðru).

 

En oft er ekki um neina slíka gagnvirka merkingu að ræða í miðmyndinni: Maðurinn lést á sjúkrahúsinu.

 

Í sambandi við miðmynd má hafa í huga að oft er þar enginn gerandi á dagskrá.

 

Dæmi:
Það veiddist vel í maí/Bókin seldist vel.

 

Sumir halda því fram að óþarft sé að gera ráð fyrir myndum sem beygingu en tala einfaldlega um að til séu tvær gerðir sagna: Annars vegar þær sem enda á -a (borða, sofa, hlaupa), hins vegar þær sem enda á -st (farast, hlaupast (á brott), seljast, kyssast). Sömu menn segja um þolmyndina að hún sé ekkert annað en sagnasamband sagnanna vera eða verða og aðalsagnar, til dæmis: Hann er farinn, hún var stungin. Í slíkum tilvikum sé óþarfi að gera þann greinarmun að sum samböndin séu þolmynd (sbr. var stungin [af tilteknum geranda]) en önnur ekki (sbr. er farinn). Vangaveltur sem þessar geta verið skemmtilegar og jafnframt sýna þær að ekki má taka allar kennisetningar málfræðinga sem heilagan og óumbreytilegan sannleik. Málfræðingarnir bjuggu ekki til tungumálið; þeir vilja einungis reyna að lýsa því sem best og þeim lögmálum sem þar kunna að gilda.

 

Verkefni 1

 

Hvernig má misskilja setninguna: ‘Barnið var tekið af Guðmundi’?

 

Verkefni 2

 

Gerðu gerandann sýnilegan um leið og þú breytir þessum þolmyndarsetningum í germyndarsetningar.

1. Þjófurinn var handtekinn

2. Hárið var strokið.

 

Verkefni 3

 

Breyttu eftirfarandi setningum úr germynd í þolmynd:

Unnustinn kyssti stúlkuna

Presturinn fermdi stúlkuna í vor

 

9. Kennimyndir sagna

Til þess að átta sig á landslagi og leið frá einum stað til annars er talað um kennileiti. Á sama hátt er talað um kenniföll nafnorða þegar við þurfum að lýsa beygingu nafnorða. Í sagnbeygingu er talað um kennimyndir. Við könnumst við þetta þegar við erum að læra erlend mál.

 

Í íslensku eru kennimyndir veikra sagna þessar:

 

nafnháttur

1. persóna í þátíð, et.

lýsingarháttur þátíðar

 

horfa

skrifa

velta

 

 

ég horfði

ég skrifaði

ég velti

 

ég hef horft

ég hef skrifað

ég hef velt

 

 

Kennimyndir sterkra sagna eru fjórar, þær sömu og í veiku beygingunni og til viðbótar fleirtala í þátíð.

 

Í íslensku eru kennimyndir sterkra sagna þessar:

 

nafnháttur

1. persóna í þátíð, et.

1. persóna í þátíð, ft.

lýsingarháttur þátíðar

 

bíta

syngja

bresta

að vera

 

ég beit

ég söng

ég brast

ég var

 

við bitum

við sungum

við brustum

við vorum

 

ég hef  bitið

ég hef  sungið

ég hef  brostið

ég hef  verið

 

 

 

Verkefni

Skráðu kennimyndir þessara sagna:

skrifa, rita, horfa, sigla, hlaupa, hleypa, rigna, reka, rekja, líta, gróa, ala, vefa, vefja, höggva

 

10. Hjálparsagnir

Hjálparsagnir kallast þær sagnir sem standa í samsettri beygingu með aðalsögn.

 

Dæmi:

Brúin var smíðuð (hér er var hjálparsögn en smíðuð aðalsögn).

Ég hef lesið bókina (hér er hef hjálparsögn en lesið aðalsögn).

Hann verður fermdur í vor (hér er verða hjálparsögn en fermdur aðalsögn).

Hann mun fara (hér er mun hjálparsögn en fara aðalsögn).

 

Verkefni

 

Í hverri setningu hér fyrir neðan eru fleiri en ein sögn. Hvað eiga fyrstu sagnir í hverri setningu sameiginlegt?

 

Árni hefur boðið þeim safnið. Þeir hafa ætlast til að hann skyldi sjá um útgáfuna, því að Pétur hafði tekið að sér ritunina. Bókmenntafélagið hefur gefið út gátur sem hafa tekið miklum breytingum.

Guðrún mun hafa farið í bæinn en áður hafði hún keypt sér miða til útlanda. Hún fer að fara. Pétur getur farið með henni. Hann má sofa á því um stund.

 

Með verkefnið hér að ofan í huga má fullvissa sig um að ef um samsetta beygingu er að ræða þá er það hjálparsögnin sem stendur í persónuhætti en aðalsögnin lendir í fallhætti (nafnhætti eða lýsingarhætti). Ef um tvær hjálparsagnir er að ræða lendir sú fyrri í persónuhætti.

 

Dæmi
Ég mun (fsh.) hafa (nh.) komið (lh.þt.).

 

Fyrri hjálparsögnin (munu) er í persónuhætti, nánar tiltekið framsöguhætti; seinni hjálparsögnin (hafa) lendir í fallhætti, nánar tiltekið nafnhætti; og aðalsögnin (koma) lendir í fallhætti, nánar tiltekið í lh.þt.).

 

 

11. Setningafræði sagna

Sagnir gegna veigamiklu hlutverki í málinu.

Þær bera oftast mikla merkingu og fleyta frásögninni áfram.

 

Hvernig væri þessi stutta saga ef sagnir væru teknar í burtu?

Innst á afréttum komu þeir á fjárslóð mikla; hafði féð verið rekið austur sanda með Arnarfellsjökli, og röktu þeir slóðirnar allt að hreysi Eyvindar. Urðu þjófarnir þá naumt fyrir, því þeir vorulesa húslestur, þegar byggðamenn komu að þeim. Eyvindur varð þá skjótur til bragðs, greip pott þeirra og ýmis áhöld önnur og sökkti niður í fen eitt, svo hinir fundu ekki, og öll sluppu þau hjúin úr höndum byggðamanna upp á jökulinn.

Sveitamenn létu greipar sópa um hýbýli Eyvindar, og fannst þeim mikið um, hversu haglega ýmis búsáhöld voru tilbúin; þar tóku þeir körfur, sem Eyvindur hafði riðið af tágum með svo mikilli list, að þær voru vatnsheldar. Þeir fundu þar og viðarköst stóran og áttatíu sauðarföll í og eins vel frá gengið eins og fyrr er sagt um köstinn á Hveravöllum. Það, sem eftirleitarmenn gátu ekki flutt með sér til byggða, lögðu þeir eld í og brenndu upp til kaldra kola.

 

Sagnir hafa mikil áhrif á önnur orð. Þær stjórna falli frumlags (sbr. mig langar) og þær stjórna falli andlags (sbr. hjálpa þér). Þær stjórna því einnig hvar atviksorð og forsetningarliðir geta verið í setningunni (sbr. gekk vel/kom í morgun).

 

12. Áhrifslausar og áhrifssagnir

Skilgreining á áhrifssögn er að hún stýrir falli. Áhrifslaus sögn stýrir ekki falli.

 

Dæmi:

 • Jón mætti konu   (þgf., so. mæta er áhrifssögn)
 • Hann heitir Guðmundur   (nf., so. heita er áhrifslaus)
 • Ólafur er smiður   (nf., so. vera er áhrifslaus)
 • Konan gaf Pétri hest  (þgf. og þf., sögnin gefa er áhrifssögn
  og stýrir falli á tveimur orðum, Pétri og hest)

 

Verkefni

 

Finndu áhrifssagnir í þessum texta og taktu fram hvaða falli þær stjórna:

Þeir komu þangað og smöluðu fénu í réttina. Mennirnir röktu slóðina heim. Eyvindur las húslestur en greip pottinn og sökkti honum í fenið. Sveitamenn létu greipar sópa. Fylgdarmaðurinn heitir Arnes. Þeir fundu líka viðarköst. Sveitamenn brenndu hluti. Ég sakna þín en nýt matarins. Þú gafst mér rauðar rósir. Ég vil ekki núa þér þessu um nasir. Þú getur ekki unnt honum þess að hafa náð markmiðinu. 

 

13. Sagnir og breytingar

Nokkrar breytingar hafa orðið í tímans rás á beygingu sagna.

Til dæmis beygjast ýmsar sagnir nú veikt sem áður voru sterkar. Sögnin rita beygðist áður svona: rita – reit – ritum – ritið. En nú beygist hún veikt: rita – ritaði – ritað. Sögnin þiggja var sterk að fornu: þiggja – þá – þágum – þegið. Nú segja menn yfirleitt þáði í þátíðinni (ég þáði boðið). En í lh.þt. er enn sagt: ég hef þegið boðið (fremur en: ég hef þáð boðið).

 

Nú á tímum er algengt að heyra dæmi á borð við þetta:

 

Ég vill ekki fara þangað, í staðinn fyrir það sem eldra er: Ég vil ekki fara þangað. Þetta kallast málbreyting (undir áhrifum frá 3.p.et.: hann/hún vill), en ennþá vilja menn halda í eldra formið í þessu tilviki. Hugsanlega verða allir farnir að segja ég vill eftir 50 ár!

 

14. Staða sagna í setningum

Í íslensku gildir sú meginregla að sögn í persónuhætti sé í öðru sæti í setningu, næst á eftir hinu svokallaða frumlagi.

 

Í dæmunum kallast sagnirnar umsagnir.

 

Dæmi:

Landsliðið vann alla leiki sína.

Sigrún spilaði vel.

Dómarinn var góður.

 

Sagnirnar í dæmunum hér á eftir eru einnig í öðru sæti. Hvernig má það vera?

 

Dæmi:

Stóru stelpurnar skoruðu mörkin.

Allir áhorfendur fóru glaðir heim.

Markmaðurinn og þjálfarinn eru hjón.

 

Svarið er einfalt. Það er vegna þess að þegar sagt er að sögn sé í öðru sæti er miðað við setningarliði en ekki orð. Í hverjum lið geta verið fleiri en eitt orð. Liðirnir á undan sögn í dæmunum hér að ofan eru nafnliðir. Í þeim er annaðhvort fornafn (t.d. hann, ég, þú) eða nafnorð og orð sem standa með nafnorðinu (t.d. lýsingarorð, sbr. stóru stelpurnar). Um þetta og fleira í sambandi við setningarliði verður fjallað nánar í setningafræðikaflanum.