• Af góðum hug koma góð ráð.

 • Allt fagurt er augum þekkt.

Setningafræði

1.Inngangur

Í setningafræði er fjallað um tengsl orða í samfelldu máli. Í slíkri umræðu er mikilvægt að hafa gömlu góðu orðflokkana á valdi sínu en jafnframt að átta sig sem best á sambandi milli orða í setningu. Þegar sagt er að eitt orð standi með öðru eða að eitt orð taki með sér annað orð er vísað til setningafræðilegra atriða. Í umræðu um setningar munu okkur birtast ýmis ný hugtök. En fyrst skulum við taka dæmi þar sem einungis orðflokkarnir koma til umræðu.

 

Dæmi:

Þetta er mjög góður mysingur

 

Kjarnaorðið er mysingur. Lýsingarorðið góður stendur með nafnorðinu mysingur. Lýsingarorð lýsa einmitt nafnorðum. Síðan stendur mjög með góður; með atviksorðinu mjög er lögð áhersla á að mysingur sé ekki aðeins góður heldur mjög góður. Atviksorð lýsa einmitt gjarnan lýsingarorðum.

 

 

 

Verkefni

1.  Hvert er kjarnaorðið í setningunum hér fyrir neðan?

 • Þetta er afleitur leikur.
 • Hann er mjög góður handboltamaður.

2.  Hvaða tilgangi þjóna orðin afleitur og góður í setningunum?

3.  Hvað er gott að hafa bak við eyrað þegar hugað er að setningafræði?

 

2. Málsgreinar og setningar

Málsgreinar og setningar eru stærstu einingar sem fengist er við í setningafræði. Ástæða er til að rifja það upp að orðin málsgrein og setning merkja ekki það sama.

 

Skilgreining á málsgrein:

Málsgrein hefst á stórum staf og endar á punkti.

 

Dæmi um einfalda málsgrein:

Konan sagði sögu.

 

Þessi málsgrein er reyndar jafnframt ein setning. Í því sambandi má minnast þess að í hverri setningu þarf að vera sögn í persónuhætti. Hér er sögnin sagði og hún er í persónuhætti, nánar tiltekið í framsöguhætti.

 

En málsgreinar geta verið langar og haft að geyma margar sagnir í persónuhætti (og þar af leiðandi margar setningar). Algengt er að tvær eða þrjár setningar séu í einni málsgrein.

 

Dæmi um lengri málsgrein:

Konan sagði sögu og börnin hlustuðu af athygli.

 

Ein málsgrein, tvær setningar sem samtengingin og tengir saman.

 

Málsgrein má skilgreina svo:

Málsgrein er sá hluti efnisgreinar sem er á milli hástafs og punkts.

 

Einnig má skilgreina málsgrein með því að beita fræðilegum hugtökum:

Stök aðalsetning (og aukasetningar) eða hliðskipaðar aðalsetningar.

 

Skoðum nokkur dæmi.

 

Jón fór til Ólafsvíkur en hann hafði nú ekki mikið upp úr því.

 

Þessari málgrein má skipta í tvær málsgreinar:

 

Jón fór til Ólafsvíkur. Hann hafði nú ekki mikið upp úr því.

 

Það bendir til þess að setningarnar tvær séu nokkuð sjálfstæðar eða óháðar hvor annarri. Til samanburðar má taka málsgrein af þessu tagi:

 

Jónas fer til Akureyrar þegar hann er búinn í vinnunni.

 

Hér gengur ekki að búa til tvær málsgreinar úr einni. Merkingin helst ekki óbreytt:

 

Jónas fer til Akureyrar.  Hann er búinn í vinnunni.

 

 Munurinn er fólginn í því að síðari setningarnar í málsgreinunum tveimur eru ekki alveg sambærilegar. Ástæðan er sú að í fyrri málsgreininni (Ólafsvíkurmálsgreininni) eru tvær aðalsetningar en í þeirri síðari (Akureyrarmálsgreininni) er fyrri setningin aðalsetning og sú síðari aukasetning. Þetta þarfnast aðeins nánari skoðunar.

 

3. Aðaltengingar og aukatengingar

Setningar í málsgrein eru oftast tengdar með samtengingum. Þær eru tvenns konar eins og fram kom í kaflanum um smáorðin: aðaltengingar og aukatengingar:

 

Aðaltengingar tengja aðalsetningar: og, en, heldur, enda, eða, ellegar

 

Þær geta reyndar gert ýmislegt fleira, til dæmis tengt saman aukasetningar (sjá nánar síðar) og ýmsa liði (Jón og Gunna).

 

Aukatengingar tengja aukasetningar við aðrar setningar:  að, eð, ef, (stærri) en, enda, sem, er, fyrst, hvort, meðan, nema, (eins) og, síðan, uns, þegar, þó, þótt

 

 

 

Verkefni

1.  Nefnið nokkrar aðaltengingar.

2.  Nefnið nokkrar aukatengingar.

3.  Jón og Gunna eru hjón. – Í þessari setningu tengir og nafnorðin Jón + Gunna. Hvað tengir og í eftirfarandi málsgreinum?:

a) Ég sá bæði stóra og litla hesta.

b) Gunna kemur þá og þegar.

c) Jón segir að Pétur sé gáfaður og að Guðrún og Palli séu viðvaningar.

4.  Hvað tengja samtengingar í þessum málsgreinum?

a) Hann er veikur eða latur.

b) Jón syngur alla daga en Sigga hlær alltaf.

c) Þetta er gott og fallegt.

 

4. Setningar

Traust skilgreining á setningu hefur lengi vafist fyrir fræðimönnum. Í kennslubókum hljóðar hún oft svona:

Setning er samband orða sem umsögn er í, eða einungis ein umsögn.

 

Verkefni

 

1.  Skilgreinið setningu.

2.  Semjið setningar með þremur, fjórum, fimm, sex og sjö orðum.

3.  a) Hve margar málsgreinar eru í efnisgreininni fyrir neðan?

     b) Hve margar setningar eru í málsgreinunum?

 

Stóð þá eigi lengur á samþykki stúlkunnar og giftist hún prestinum. Búnaðist þeim hjónum vel því að prestskonan reyndist dugleg og hagsýn og virtist hverjum manni vel.

 

4.  a) Hve margar málsgreinar eru í efnisgreininni fyrir neðan?

     b) Hve margar setningar eru í málsgreinunum?

 

Drengurinn sem kom hingað í gær fer þegar hann er búinn að ljúka erindinu. „Finnst þér ekki rétt að fylgja honum?“ sagði afi. „Þið getið þá hjálpast að ef eitthvað bjátar á.“

 

5.  Hve margar setningar eru í hverri málsgrein hér fyrir neðan?

 1. Maðurinn söng.
 2. Maðurinn hló og hundurinn gelti.
 3. Konan spurði hvort Sigga væri farin.
 4. Jón telur að Nonni borði skyr á morgnana.
 5. Hún sagði að Jón hefði komið í bæinn þegar veðrið gekk niður.
 6. Að maðurinn væri farinn fannst Stínu ólíklegt.

 

5. Aukasetningar

Setningar skiptast í aðalsetningar og aukasetningar. Byrjum á aukasetningum.

 

Aukasetningu má skilgreina á eftirfarandi hátt:

 

Aukasetning er liður í annarri setningu.

 

Aukasetningar geta því ekki staðið sjálfstæðar.

 

Dæmi:

Þetta er báturinn sem þótti fallegastur

sem þótti fallegastur er aukasetning (nánar tiltekið tilvísunarsetning). Hún er ekki sjálfstæð og samsvarar lýsingarorði:

Þetta er fallegasti báturinn

Því er hægt að segja að hún sé setningarliður sem stendur í aðalsetningunni (móðursetningunni): Þetta er báturinn og lýsir nánar orðinu báturinn.

 

Aukatengingar tengja aukasetningar við móðursetningar sínar.

 

Dæmi:

Konan sagði sögu þegar börnin voru háttuð

Þessum setningum má raða á annan hátt:

Þegar börnin voru háttuð sagði konan sögu

þegar er kölluð aukatenging.

 

Samtengingar merkja hið sama og tengingar.

 

Til minnis:

 

Aðaltengingar: og, en, eða, enda, nema, né

 

Aukatengingar: að, eð, ef, (minni) en, er, fyrst, hvort, meðan, nema, enda, (eins) og, sem, síðan, uns, þegar, þótt

 

(Innan sviga: Hér sést að tengingin enda getur bæði verið aðaltenging og aukatenging; það fer eftir merkingu hverju sinni. 

Dæmi um enda sem aðaltengingu (í merkingunni líka/ og einnig): Hann sagði mér það ekki enda stóð ég stutt við

Dæmi um enda sem aukatengingu (í merkingunni ef/ svo framarlega sem): Lögum má breyta á aðalfundi enda sé hann lögmætur)

 

Eins og víða kemur fram hér á eftir eru setningar gjarnan auðkenndar með hornklofum til glöggvunar, t.d.:

[Jón fór til Ólafsvíkur] en [hann græddi ekki mikið á því]

 

6. Flokkar aukasetninga

Aukasetningar eru alltaf liður í setningu, aðalsetningu eða annarri aukasetningu.

 

Dæmi:

Reynir kemur [þegar hann er búinn að læra]

Sigrún heldur [að teið sé orðið kalt]

Rúna rak manninn [sem kom alltaf of seint]

 

Í hverri málsgrein hér að ofan eru tvær setningar: Fyrst er aðalsetning og á eftir henni kemur aukasetning (sem er skv. skilgreiningu liður í aðalsetningunni). En eins og við sáum hér að ofan getur aukasetningin stundum staðið á undan aðalsetningunni:

[Þegar Reynir er búinn að læra] kemur hann.

 

Stundum er þessu þannig háttað að aukasetningu er beinlínis stungið inn í aðalsetningu (eða jafnvel aðra aukasetningu).

 

Dæmi:
Maðurinn [sem kom í gær] fór í morgun

Hér fleygar aukasetningin, sem er afmörkuð með hornklofum, aðalsetninguna Maðurinn fór í morgun.

 

Aukasetning getur einnig verið liður í annarri aukasetningu:

Dæmi:
Jón spurði Gunnu [hvort hún teldi [að Sigga ætti að fara]]

 

Aukasetningin hvort hún teldi er hluti aðalsetningarinnar Jón spurði Gunnu. Aukasetningin að Sigga mætti fara er aftur hluti aukasetningarinnar hvort hún teldi.

 

Aukasetningar skiptast í:

atvikssetningar

fallsetningar

tilvísunarsetningar

 

6.1 Atvikssetningar

Atvikssetningar eru hliðstæðar stöðu atviksorða eða forsetningarliða:

 

Guðmundur kemur [þegar hann verður búinn með bókina]

Guðmundur kemur [núna]

Guðmundur kemur [í dag]

 

Atvikssetningin þegar hann verður búinn með bókina er hluti aðalsetningarinnar á sama hátt og atviksorðið núna og forsetningarliðurinn í dag eru innan aðalsetningarinnar Guðmundur kemur. Setningar af þessu tagi kallast atvikssetningar. Þær tengjast aðalsetningunni með samtengingu. Í setningunni hér á undan er samtengingin þegar. Á undan samtengingum þessum getur farið atviksorð eða forsetningarliður, jafnvel hvorttveggja:

 

Gunna kemur af því að veðrið hefur batnað (Fl og samtenging)

Gunna hefur komið hingað alveg síðan hún var barn (ao og samtenging)

Gunna kemur þrátt fyrir það að hún sé eitthvað slöpp (ao, Fl, samtenging)

 

Í dæmunum hér á undan er aðeins seinna eða síðasta orðið talið eiginleg samtenging, en á undan þeim geta farið forsetningarliðir og atviksorð. (Í eldri málfræðibókum er þessu oft öðruvísi farið því þar er gjarnan gert ráð fyrir fleiryrtum samtengingum.)

 

Í eldri málfræðikennslubókum eru atvikssetningar flokkaðar í nokkra undirflokka. Ástæðan er sú að aukasetningar voru gjarnan flokkaðar eftir merkingu þeirra. Þannig var talað um eftirfarandi aukasetningu sem skilyrðissetningu:

 

Jón mun drekka kaffið [svo framarlega sem það verður vel heitt]

 

Hér ræður merkingin nafninu, Jón setur ákveðin skilyrði fyrir því að drekka kaffið. Samtengingin er fleiryrt: svo framarlega sem, og er hún kölluð skilyrðistenging.

 

Lítum á annað dæmi um undirflokk atvikssetninga:

 

Jón drekkur kaffið [vegna þess að það er vel heitt]

 

Aukasetningin kallast orsakarsetning – orsökin fyrir því að Jón drekkur kaffið er að það er vel heitt. Tengingin (sem hér er fleiryrt: vegna þess að) er kölluð orsakartenging.

 

Niðurstaða: Með því að tala aðeins um þrjá undirflokka aukasetninga (þ.e. atvikssetningar, fallsetningar og tilvísunarsetningar) einföldum við umræðuna í setningafræðinni og hættum m.a. að velta fyrir okkur merkingarlega þættinum (sleppum því t.d. að tala um skilyrðissetningar, orsakarsetningar, viðurkenningarsetningar og afleiðingarsetningar en tölum þess í stað um atvikssetningar). Jafnframt reynum við að líta á aukatengingarnar sem einyrtar en ekki fleiryrtar.

 

Drögum þá saman og segjum: Atvikssetningar eru þær aukasetningar sem hafa hliðstæða stöðu og atviksorð eða forsetningarliðir.  Lítum næst á þann flokk aukasetninga sem kallast fallsetningar.

 

6.2 Fallsetningar

Fallsetningar tengjast aðalsetningum á svipaðan hátt og atvikssetningar. Tenging er notuð í flestum tilvikum og eðlilegur staður fallsetningar er á eftir aðalsetningu:

 

Dæmi:

Sigrún heldur [að teið sé orðið kalt]

 

Hér stendur aukasetningin á sama stað og fallorð:

 

Sigrún heldur [þetta]

 

Fleiri dæmi:

Jón spurði [hvort veðrið væri gott]              (fallsetning)

Jón spurði [spurningar]                               (fallorð)

Amma sagði [að tröllið kæmi senn]            (fallsetning)

Amma sagði [söguna]                                (fallorð)

 

Sagnirnar spyrja og segja eru áhrifssagnir. Spyrja stjórnar eignarfalli og segja stjórnar þolfalli. Andlög þessara sagna eru því liðirnir sem á eftir koma, þ.e. fallsetningarnar eða fallorðin.

Fallsetningar eru tengdar með samtengingunni og hv-orðum (t.d. hvort (samtenging); hver, hvor hvaða (spurnarfornöfn); hvað, hvaðan, hve, hvar, hvernig (spurnaratviksorð)).

 

Niðurstaða: Fallsetningar eru þær aukasetningar sem standa í aukafalli og geta komið í stað fallorða. Algengt er að þær tengist aðalsetningunni með tengingunum að/hvort.

 

Lítum nú á þriðja og síðasta flokk aukasetninga, tilvísunarsetningar.

 

6.3 Tilvísunarsetningar

Tilvísunarsetningar standa alltaf á eftir því orði sem þær eiga sérstaklega við. Merkingarlega er hlutverk þeirra svipað lýsingarorðum. Þær afmarka merkingu höfuðorðsins.

 

Dæmi:

Rúna rak manninn [sem kom alltaf of seint] (tilvísunarsetning)

Rúna rak [óstundvísa] manninn (lýsingarorð kemur hér í stað fallsetningarinnar)           

Tilvísunarsetningar eru oftast tengdar með samtengingunni sem. Þær standa oftast með nafnorðum (nafnliðum) til nánari ákvörðunar.

 

Hérna er fjallið [sem mér þótti svo vænt um] (Nl, tilvísunarsetning) (Nl=nafnliður)

Hérna er [yndislega] fjallið (lýsingarorð kemur hér í stað tilvísunarsetningar)

 

7. Aðalsetningar

Einföld skýring á aðalsetningum hljóðar svona:

Allar setningar sem ekki eru aukasetningar.

 

Eða:

Aðalsetning er setning sem ekki er hluti annarrar setningar.

 

Verkefni 1

 

1. Greindu eftirfarandi málsgreinar í setningar. Taktu fram hvort um er að ræða aðalsetningar eða aukasetningar.

Hann varð hvínandi vondur út af engu þegar menn kusu. Ef enginn hreyfir mótmælum ætla ég ekki að setja fundinn fyrr en allir eru komnir. Aldrei hefur fengist meiri afli úr sjó umhverfis Ísland.

2. Semjið:

a) aðalsetningu sem hefst á nafnorði.

b) málsgrein sem er tvær aðalsetningar.

c) málsgrein sem er aðalsetning og aukasetning í þessari röð.

d) málsgrein sem er aðalsetning og tilvísunarsetning í þessari röð.

e) málsgrein sem hefst á aukasetningu, síðan kemur aðalsetning og loks aukasetning.

f) aðalsetningu sem er eitt orð.

g) málsgrein sem hefst á atviksorði.

 

Verkefni 2

 

1. Greinið aukasetningar.

Stóð þá eigi lengur á samþykki stúlkunnar og giftist hún prestinum. Búnaðist þeim hjónum vel því að prestskonan reyndist dugleg og hagsýn og virtist hverjum manni vel.

2. Greinið þessar málsgreinar í setningar með lóðréttum strikum. Takið fram hvort um er að ræða aðalsetningar eða aukasetningar.

Drengurinn sem kom hingað í gær fer þegar hann er búinn að ljúka erindinu. „Finnst þér ekki rétt að fylgja honum?“ sagði afi. „Þið getið þá hjálpast að ef eitthvað bjátar á.“

 

8. Flokkar aðalsetninga

Aðalsetningar geta verið verið með ýmsu móti. Hingað til hefur yfirleitt verið tekið dæmi af grundvallarsetningu þeirri sem kalla má fullyrðingarsetningu. Verður nú gerð nánari grein fyrir flokkum aðalsetninga. Allar setningar eru leiddar af fullyrðingarsetningum.

 

Fjallað verður um fjóra flokka aðalsetninga:

 • Fullyrðingarsetningar
 • Spurnarsetningar
 • Boðsetningar
 • Óskasetningar

 

8.1 Fullyrðingarsetningar

Í fullyrðingarsetningum er sögn í persónuhætti í öðru sæti. Í fyrsta sæti er oftast nafnliður (frumlag). Forsetningarliður eða atviksliður getur reyndar einnig staðið í fyrsta sæti, og er þá frumlagið strax á eftir sögninni. Sögnin getur verið í fyrsta sæti (frásagnarumröðun), og aukasetning getur farið á undan aðalsetningu, og er þá sögnin í fyrsta sæti í aðalsetningunni:

 

Hestar éta hey (grundavallarorðaröð)

Núna éta hestarnir heyið (Al í fyrsta sæti)

Í dag éta hestarnir hey (Fl í fyrsta sæti)

Leið nú til jóla og tók húsfreyja að þykkna undir belti (sögn í fyrsta sæti: frásagnarumröðun)

Þegar jörð er þakin snjó éta hestarnir hey (aukasetning í fyrsta sæti; og verður þá sögnin í fyrsta sæti í aðalsetningunni)

 

8.2 Spurnarsetningar

Spurnarsetningum má skipta í þrennt: Já/jú/nei-spurningar, hv-spurningar og valkostaspurningar.

 

Í já/jú/nei-spurningum er sögn í fyrsta sæti:

 

Finnst þér gaman í leikhúsi?

Málaðir þú myndina?

 

Hér gæti svarið verið eða nei. er notað sem svar við neikvæðum spurnarsetningum á borð við þessar:

 

Átt þú ekki bókina?                                    Svar: Jú.

Hefur þú aldrei farið í bíó?                        Svar: Jú.

Þykir þér enginn matur góður?            Svar: Jú.

 

Einkenni á hv-spurningum er að fremst í þeim eru spurnarorð (hv-orð):

 

            Hver á heima í Laugarnesi?

            Hvar hefur þú verið?

            Hvenær hlýnar?

 

Í þriðja lagi eru stundum gefnir valkostir í spurningunni:

 

            Notar þú seðla eða ávísanir?                        Svar: Seðla.

            Drekkur þú mjólk eða vatn?                        Svar: Vatn.

 

Unnt er að blanda saman hv-spurningum og valkostaspurningum:

 

Hvort finnst þér betra að hlæja eða gráta?            Svar: Hlæja.

 

8.3 Boðháttarsetningar

Boðháttarsetningar eru einungis til í beinni ræðu, þ.e. þegar einhver er að tala við annan eða tala til hóps. Þá er oftast notað 2. persónufornafn (þú eða þið) aftan við sögnina (sem er í fyrsta sæti):

 

            Skrifið þið nöfnin á blaðið!

            Borðaðu matinn strax!

            Finndu peysuna fyrir mig!

 

Boðháttarsetningar eru oft notaðar til þess að skipa fyrir, en þær eru einnig notaðar til þess að hvetja viðmælanda:

 

            Vertu nú dugleg að lesa fyrir prófið!

            Farðu nú ekki að kaupa fleiri peysur!

 

8.4 Óskháttarsetningar

Óskháttarsetningar eru af margvíslegum toga. Í þeim er sögnin yfirleitt í viðtengingarhætti (sem stundum má kalla óskhátt). Í mörgum tilvikum er um ræða föst orðasambönd:

            Guði sé lof!

            Fari þeir og veri!

 

Verkefni

 

Greinið allar setningar í textanum í aðalsetningar og aukasetningar og segið til um undirflokk aukasetninganna (atvikssetning/ fallsetning/ tilvísunarsetning):

Þegar fólk er ástfangið ímyndar það sér alltaf ranglega að það sé vegna þess að það hafi fyrirhitt alveg óvenjulega veru sem hafi blásið því þessari ástríðu í brjóst. Sannleikurinn er sá að ástin sem blundar þegar í djúpunum leitar hins rétta gagnaðila og ef hann finnst ekki býr hún sér hann til. Hvort þetta sé nákvæmlega það sem höfundur hélt fram veit auðvitað enginn. Allir vita að ástin hefur orðið mörgum skáldum yrkisefni þrátt fyrir það að menn deili um tilgang.

 

9. Setningarliðir

Lið má skilgreina svo:

Bútur úr setningu sem hangir saman þegar orðaröð er breytt

 

[Kofi einn með rauðu þaki] [stóð] [í skóginum] ->

[Í skóginum] [stóð] [kofi einn með rauðu þaki]

 

Hér eru liðir auðkenndir með hornklofum.

 

Tvíræðni er algeng í öllum málum en þegar grannt er skoðað á setningafræði alltaf að geta skorið úr um merkingu. Þessi setning er t.d. tvíræð:

 

            Jón sá afa á Laugaveginum

 

Var þetta afi sem býr á Laugaveginum eða var afi bara á gangi á Laugaveginum? Hvor merking um sig fær sína greiningu:

 

            Jón sá [afa á Laugaveginum]  - þ.e. afa sem á heima þar

            Jón sá [afa] [á Laugaveginum] - þ.e. afa sem var þar á gangi

 

Flutningur setningarliða sker hér úr:

 

            [Á Laugaveginum] [sá] [Jón] [afa]

 

 

Verkefni

Eftirfarandi setning er tvíræð. Sýnið hvora merkingu um sig með hornklofum:

Ég gaf Sigurði gamla pennann minn

 

Svar:

[Ég] [gaf] [Sigurði] [gamla pennann minn] (Sigurður er hugsanlega ungur!)

[Ég] [gaf] [Sigurði gamla] [pennann minn] (penninn er hugsanlega nýr!)

 

 

Liður í setningu myndar eina merkingarheild.

Svar við spurningu er yfirleitt einn setningarliður.

Eitt spurnarorð samsvarar yfirleitt einum setningarlið.

 

Skoðið aftur þessar setningar:

 

[Kofi einn með rauðu þaki] [stóð] [í skóginum] ->

[Í skóginum] [stóð] [kofi einn með rauðu þaki]

 

Hvað stóð í skóginum?

Svar: Kofi einn með rauðu þaki – sem er þá einn liður

 

Hvar stóð kofi einn með rauðu þaki?

Svar: Í skóginum –  sem er þá einn liður

 

Skoðið einnig þessa setningu betur:

Jón sá afa á Laugaveginum

Hvern hitti Jón?

Svar: Afa eða Afa á Laugaveginum – eftir atvikum

 

En þegar spurt er gerr verður svarið örugglega eitt:

Hvern hitti Jón á Laugaveginum?

Svar? Afa.

 

Eftirfarandi setning er aðalsetning:

Stína fer bráðlega til Reykjavíkur

 

Auðvelt er að ganga úr skugga um að í setningunni séu fjórir liðir:

[Stína] [fer] [bráðlega] [til Reykjavíkur]

 

Í fyrsta lið er nafnorð og liðurinn kallast nafnliður. Í öðrum lið er eitt orð, sagnorð, og liðurinn heitir sagnliður. Í sagnlið eru oft fleiri orð en sagnorð, t.d. nafnorð (andlög og sagnfyllingar, sjá hér á eftir). Þriðji liður heitir atviksliður enda er bráðlega atviksorð og síðast í setningunni er liður sem í eru tvö orð, forsetning og nafnorð. Þessi liður kallast forsetningarliður í höfuðið á aðalorði liðarins.

 

Helstu liðir sem þarf til að lýsa innri gerð setninga í íslensku eru þessir:

 

 • Nafnliður (Nl)
 • Sagnliður (Sl)
 • Forsetningarliður (Fl)
 • Atviksliður (Al)

 

Sérhver liður getur gegnt ýmsum hlutverkum.

 

10. Nafnliður

Aðalorð nafnliðar er nafnorð. Í nafnlið verður að vera nafnorð eða fornafn, en ef um er að ræða nafnorð geta fleiri orð fylgt því, svokölluð ákvæðisorð (t.d. töluorð og lýsingarorð). Skoðið þennan lið:

 

            Tvær sætar karamellur

 

Regla:

            Nl -> to lo no

 

Hér má sleppa tvær og sætar en ekki gengur að sleppa nafnorðinu karamellur. Endurskoðun leiðir í ljós að betra er að hafa regluna svona:

 

Regla': Nl -> (to) (lo) no

 

Svigi utan um orðflokk merkir að orð af þeim orðflokki getur verið á þessum stað í liðnum en það þarf ekki að vera þar. Nafnorð verður hins vegar örugglega að vera í nafnlið.

 

 

Fleiri dæmi:

 

            Allar ljótu sköturnar

 

            Regla'':

                        Nl -> (ófn) (lo) no

 

Þegar reglurnar tvær, regla' og regla'', eru teknar saman, lítur reglan svona út:

 

            Regla''':            Nl -> (ófn) (to) (lo) no

 

Dæmi um nafnlið þar sem allir básar eru fylltir:

 

            Allar fimm ljótu sköturnar

                                   

Við rannsókn kemur í ljós að ábendingarfornafn getur einnig verið í nafnlið:

 

            Allar þessar fimm ljótu skötur

 

Hér verður látið staðar numið og endanleg regla lítur því svona út:

           

Nl -> (óáfn) (áfn) (to) (lo) no

 

Nafnorð verður að vera í nafnlið en orð af öðrum flokkum eru valfrjáls. Þau eru kölluð ákvæðisorð.

 

11. Sagnliður, atviksliður og forsetningarliður

Sagnliður

 

Sagnorð er augljóslega aðalorð sagnliðar:

Sl -> so

Konan syngur (syngur er Sl)

 

En eins og minnst var á hér að ofan geta önnur orð verið hluti sagnliðarins, t.d. nafnorð:

Sl -> so (Nl)  

            Rúna barði hestinn (þf.) (sagnliðurinn er so Nl)

            Jón hratt hestinum (þgf.) (sagnliðurinn er so Nl)

            Hún saknaði hestsins (ef.) (sagnliðurinn er so Nl)

           

Sagnirnar  hér að ofan stjórna falli nafnliða eins og dæmin sýna. Þær sagnir sem stjórna föllum kallast áhrifssagnir. Nafnorðin (fallorðin) sem stjórnast af sögnunum kallast andlög.            

 

Lítum núna á sagnliði með nafnorðum í nefnifalli. Sögnin stýrir ekki falli; hún er áhrifslaus. Nafnorðið sem fylgir henni er í nefnifalli og kallast sagnfylling; nafnorðið fyllir upp í merkingu sagnarinnar:

 

Sl -> so Nl  

 

Guðrún er kennari (‚er kennari‘ = Sl, nánar tiltekið so + Nl í nefnifalli sem er sagnfylling).

 

 

Atviksliður 

 

Al -> ao                       

            Veturinn kemur bráðum

            Pétur fór strax í frí

 

Forsetningarliður

 

Fl -> fs Nl           

            Hann býr í bænum

            Mengunin er á litlu svæði

 

Forsetningarliðir svara spurningunum hvar?, hvenær? og hvernig? o.fl. eins og við höfum séð dæmi um. Hins vegar er rétt að vekja athygli á því að spurningarnar hvers vegna?, til hvers? og af hverju? eru forsetningarliðir vegna þess að vegna, til og af eru forsetningar.

 

Nafnliður í forsetningarlið er alltaf í aukafalli (þf., þgf., ef.) vegna þess að forsetning stýrir alltaf falli.

 

Forsetningar geta stundum stýrt tveimur föllum:

           

            Konan fór með manninum í leikhús (forsetningin með stýrir þgf.)

            Konan fór með manninn í leikhús (forsetningin með stýrir þf.)

 

Á þessum setningum er merkingarmunur. Hvernig getum við orðað þennan mun? Kannski svona: Þegar orðið maður stendur í þgf. er eins og maðurinn stjórni ferðinni. En þegar orðið maður stendur í þf. er eins og konan stjórni ferðinni! 

 

 

 

Verkefni

a. Setjið hornklofa um forsetningarliði og atviksliði í eftirfarandi málsgreinum:

Í vetur hefur gengið ágætlega að safna áskrifendum að bókinni. Nú eru flestir ef ekki allir sótraftar á sjó dregnir.

 

b. Setjið hornklofa um nafnlið í eftirfarandi málsgrein:

Reyndist gamli grái jálkurinn ekki vel?

 

Svör:

 1. [Í vetur (Fl)] hefur gengið [ágætlega (Al)] að safna áskrifendum [að bókinni (Fl)]. [Nú (Al)] eru flestir ef [ekki (Al)] allir sótraftar [á sjó (Fl)] dregnir.
 2. Reyndist [gamli grái jálkurinn] ekki vel?

 

12. Efnisgrein

Hugtakið efnisgrein er mikilvægt í allri umræðu um stíl og texta þótt það tengist ekki setningafræðinni beint. Lítum á þessa skilgreiningu:

 

Skilgreining: Efnisgrein er sá hluti texta sem er á milli greinaskila.

 

Greinaskil (oftast sýnd í prentuðum texta með inndrætti frá vinstri eða auðri línu) afmarka þannig efnisgreinar. Höfum í huga að efnisgrein þarf að fela í sér tiltekið samhengi, afmarkaða hugsun. Í henni geta verið margar málsgreinar sem tengjast efnislega. En efnisgrein getur einnig verið einungis ein málsgrein. Ein mjög stutt málsgrein sem myndar efnisgrein getur verið áhrifamikil, t.d. strax á eftir langri efnisgrein. Rithöfundar kunna að beita þessu stílbragði, þ.e. að koma lesandanum á óvart með kraftmikilli örstuttri efnisgrein. Veitið slíku eftirtekt þegar þið lesið góða sögu.

 

Veitið því einnig eftirtekt þegar þið lesið dagblöð að þar eru efnisgreinar yfirleitt fremur stuttar. Góðir blaðamenn gera sér nefnilega grein fyrir því að lesandinn missir gjarnan þráðinn ef honum er íþyngt með langri efnisgrein.

 

13. Hlutverk orða og liða

Hlutverk orða og liða í málinu er afar mismunandi. Tilteknir liðir eru t.d. látnir segja eitthvað um tímann, aðrir liðir halda sögunni áfram og enn aðrir eru í hlutverki gerandans. Lítum á þessa setningu:

 

Verðbréfasalinn keypti bréf í kauphöllinni í vikunni

 

Verðbréfasalinn er gerandi hérna, það er hann sem stendur í stórræðum. Orðið keypti er sögn í þátíð og hún greinir fá því hvað var gert, verðbréfasalinn keypti bréf en seldi þau ekki, brenndi þau, faldi þau eða gerði eitthvað annað við þau. Orðið bréf er hér þolandi, við getum hugsað okkur að bréfin hafi orðið fyrir barðinu á verðbréfasalanum. Loks koma tveir liðir, forsetningarliðir. Fyrri liðurinn, í kauphöllinni, segir frá því hvar bréfin voru keypt, sá síðari, í vikunni, segir hvenær verðbréfasalinn keypti bréfin. Í setningunni eru því ýmsar upplýsingar þegar grannt er skoðað:

 

Gerandi – gerði eitthvað – við eitthvað – þarna – þá

 

Hlutverkin eru augljós og til eru nöfn á fyrirbærin:

 

Frumlag – umsögn – andlag – forsetningarliður – forsetningarliður

 

Frumlag er gerandi, umsögn er sögn í persónuhætti, andlag er sá sem verður fyrir barðinu á gerandanum og forsetningarliðina má kalla staðarlið og tímalið.

 

14. Frumlag

Frumlag er fallorð, oftast í nefnifalli. Í hlutlausri orðaröð stendur það fremst í setningu.

 

Dæmi:

Bíllinn bilaði í gær.

Konurnar eru farnar heim.

Hann syngur í Óperunni.

Guðný vinnur í verslun.

 

Þegar aðalsögn í setningu er ópersónuleg er frumlagið í aukafalli, nánar tiltekið í þolfalli eða þágufalli.

 

Dæmi:

Guðmund langar í brauð.

Honum finnst þetta.

Marga vantar í skólann í dag.

 

Ef aðrir liðir eru fremst í setningu stendur frumlagið næst á eftir sögninni.

 

Dæmi:

Í dag er veðrið gott (Fl stendur fremst í setningunni)

Núna fer ég heim (Al stendur fremst)

Þetta finnst honum (Sagnfylling stendur fremst; frumlag í aukafalli kemur á eftir ópersónulegu sögninni)

 

Verkefni

 

Finnið frumlag setninganna:

Guðrún hefur áhuga á að fara í skóla. Hana langar mest til Danmerkur. Málið hefur aldrei verið rætt. Á morgun fer Jóhann til Bandaríkjanna. Hesturinn veiktist í vor. Strákarnir tefldu allan daginn. Bráðum koma blessuð jólin.

 

15. Umsögn

Umsögn er aðalsögn í setningu. Ef hjálparsagnir fylgja sögninni eru þær einnig taldar til umsagnar.

 

Dæmi:

Gunna stundar hnefaleika í frístundum.

Hún hefur farið til Bandaríkjanna. (Í þessu tilviki stendur aðalsögnin í lh.þt.; hjálparsögnin er í persónuhætti.)

Björgu finnst gaman að horfa á kvikmyndir.

 

Verkefni

Finnið umsagnir.

Bjartur hefur áhuga á knattspyrnu. Hann hefur farið til Englands. Þetta er ekki gott. Myndin vakti mikla athygli. Rósa ætlar til Bandaríkjanna í vor. Verkið gekk afar vel. Strákurinn heitir Guðjón. Hann mun koma eftir nokkur ár.

 

16. Andlag

Andlag er fallorð. Það er jafnan í aukafalli. Fallið stjórnast af áhrifssögn. Sumar áhrifssagnir stjórna tveimur andlögum sem geta verið í mismunandi föllum.

 

Dæmi:

Guðmundur henti brauðinu.

Ég sá manninn.

Sigrún veiddi fiskinn.

Valdi gaf Siggu hest. (Hér eru andlögin tvö, í þgf. og þf.)

 

Verkefni

 

Finnið andlag.

Sigrún söng lagið tvisvar. Mig vantar hest, sagði Pétur. Hann sér stjörnur ef hann lokar augunum. Ölduna kyssir sólin. Vorið tánum tyllir tindana á.

 

17. Sagnfylling

Sagnfylling er nafnliður í nefnifalli. Hún fylgir áhrifslausri sögn. Sagnfylling er á margan hátt svipuð andlagi, en fallið sker úr um hvort um er að ræða sagnfyllingu eða andlag.

 

Dæmi:

Hann heitir Guðmundur.

Hún þykir góð.

 

Verkefni

Finnið sagnfyllingar.

Jón er maður. Hann söng lagið vel. Konan heitir Sigríður. Guðjón telst skáld.

 

18. Einkunn

Einkunn stendur jafnan með nafnorði og lýsir því nánar. Einkunnir eru því oftast lýsingarorð, en geta einnig verið ýmis fornöfn og töluorð.

 

Dæmi:

Góði karlinn hitti snjallan fiðluleikara.

Einhver karl kom að spyrja um þig.

Allir þessir fimm fallegu hestar eru að norðan.

 

 

Verkefni

Finnið einkunnir.

Stóra systir gætir litlu systur í allan dag.

 

Svör:

Stóra systir gætir litlu systur í allan dag.

 

19. Áhrifslausar sagnir og áhrifssagnir

Skilgreining á áhrifssögn er að hún stýrir falli eins og fram hefur komið. Áhrifslaus sögn stýrir ekki falli. Um þetta má taka ýmis dæmi:

 

Jón mætti konu (þgf., so. mæta er áhrifssögn)

Hann heitir Guðmundur (nf.; so. heita er áhrifslaus)

 

20. Sjálfstæðar sagnir og ósjálfstæðar

Í kennslubókum er sögnum stundum skipt í tvo flokka eftir því hvort þær eru sjálfstæðar eða ósjálfstæðar. Skilgreining á sjálfstæðri sögn er á þá leið að hún segir fulla hugsun og krefst einskis á eftir sér. Ósjálfstæð sögn krefst hins vegar sagnfyllingar eða andlags.

 

Dæmi:

Maðurinn syngur. (so. syngja er sjálfstæð)

Maðurinn þótti... (so. þykja er ósjálfstæð)

 

Ekki er ástæða til að gera mikið úr þessari flokkun sagna vegna þess að hún er afar ófullkomin lýsing á hlutverki sagna. Sagnir má nefnilega flokka í mun fleiri flokka en þessa þegar mið er tekið af því sem á eftir þeim fer. Sumar sagnir krefjast einskis á eftir sér, aðrar taka með sér forsetningarlið (t.d. ég verð í liðinu).

 

Ósjálfstæðar sagnir eru mun færri en sjálfstæðar. Þær helstu eru þessar:

vera, verða, heita, finnast, lítast, reynast, sýnast, virðast, þykja, þykjast, standast

 

21. Að tala um texta

Nokkur þekking á hugtökum sem tengjast setningafræði er nauðsynleg til að geta talað um texta. Lítum á eina málsgrein og athugum hvernig okkur gengur að tala um gerð hennar með því að beita hugtökum. 

 

Gamli maðurinn með húfuna spurði konuna hvort hún héti Jórunn.

 

Í málsgreininni eru tvær setningar, ein aðalsetning (Gamli maðurinn með húfuna spurði konuna) og ein aukasetning (hvort hún héti Jórunn).

Frumlag aðalsetningarinnar er maðurinn, umsögnin er spurði, og andlagið er konuna.

Sögnin spyrja er áhrifssögn. Sögnin heita er áhrifslaus og Jórunn er sagnfylling.

Orðin Gamli maðurinn með húfuna eru einn nafnliður (Nl) og innan hans er einkunnin gamli og forsetningarliðurinn með húfuna.

Að lokum er spurði konuna sagnliður (Sl) og innan þess sagnliðar er umsögn og andlag.

 

Að auki má benda á að aukasetningin (hvort hún héti Jórunn) er liður í aðalsetningunni. Þessi aukasetning er fallsetning. Ef vel er að gáð sést að hún stýrist af sögninni spyrja og er því andlag hennar. Sögnin spyrja getur nefnilega stýrt tveimur föllum: spyrja konuna (þf.) spurningar (eignarfall). Fallsetningin stendur m.ö.o. í eignarfalli. Samkvæmt þessu má fullyrða að orðarunan spurði konuna hvort hún héti Jórunn er einn Sl., þ.e. áhrifssögn sem stýrir tveimur andlögum! Hér sést vel að aukasetning (í þessu tilviki fallsetningin) er ekkert annað en liður í annarri setningu (í þessu tilviki andlag).