Fergus Hume

Rafbækur

Útgáfa

2015
Bækur á ensku

The Mystery of a Hansom Cab var um margt tímamótaverk þegar hún kom út, en mun hafa verið fyrsta sakamálasagan sem seldist í risaupplagi. Hume skrifaði hana er hann starfaði sem lögfræðingur í Melbourne, Ástralíu og var tilgangurinn fyrst og fremst að vekja athygli á sér meðal leikhúsfólks, því hann hugðist verða leikritahöfundur. Bóksali sem hann þekkti í Melbourne ráðlagði honum að skrifa í anda Emile Gaboriau sem þá naut töluverðrar hylli. Þegar Hume hafði lokið við að skrifa bókina hélt hann á fund allra helstu útgefenda í Melbourne, en þeir höfnuðu honum strax og flestir án þess einu sinni að lesa handritið. Þeir töldu það algjörlega útilokað að einhver Englendingur sem alist hefði upp á Nýja Sjálandi gæti skrifað eitthvað sem þeir hefðu einhvern áhuga á. Hume lét þessi viðbrögð ekki buga sig og ákvað að gefa bókina út sjálfur. Lét hann prenta 5000 eintök af henni og seldust þau upp á þremur vikum. Nokkrum mánuðum síðar seldi hann fjárfestum réttinn af bókinni fyrir 50 pund. Átti hann eftir að iðrast þess, því þeir gáfu bókina út á Englandi þar sem hún seldist í bílförmum. Er jafnvel talið að sagan hafi verið mest selda sakamálasagan sem gefin var út á öllum Viktoríutímanum.