Höfundur
Einar Benediktsson

Útgáfa

2015
Ljóð
Kvæði

Þessi bók hefur að geyma ljóðahlutann úr fyrstu bók Einars, Sögur og kvæði, sem kom út árið 1897. Einar fór ekki troðnar slóðir í skáldskap sínum og skóp sér sinn eigin persónulega stíl. Mörg ljóða hans voru mikil að vöxtum og oftast bjó að baki þeim mikil hugsun. Hann reyndi á þanþol tungunnar og smíðaði ný orð ef þess þurfti með til koma hugsun sinni rétt til skila. Myndmál hans er óvenju kröftugt og hann notaði gjarnan óvenjulegar táknmyndir sem fólk átti ekki að venjast. Stundum hefur verið sagt að ljóð Einars séu torskilin og það kannski leitt til þess að þau hafi ekki orðið sú almenningseign sem skáld af hans stærðargráðu ætti að vera. Þá hafa ljóð Einars að stærstum hluta fallið utan vega í skólakerfinu sem er mikil synd. Hið sanna er að ljóð Einars eru hreint ekki torskilin, sem allir finna sem lesa þau.

Valmynd

Tilvitnun

Ég stari út yfir storð og mar;

á steini ég sit, þar sem byrgið var,

og hallast að hrundum þústum.

Ég lít í kring yfir kot og sel,

yfir kroppaðar þúfur, blásinn mel,

og feðra frægðina’ í rústum.

 

Og hálfgleymdar sagnir í huga mér

hvarfla um það, sem liðið er,

og manninn, sem hlóð þetta hreysi.

Mér er sem ég sjái hið breiða bak

bogna og reisa heljartak

í útlegð og auðnuleysi.

 

En einkum er mér sem ég heyri hljóm

af hreinum og djúpum karlmannsróm

í dýrri og dulri bögu.

Þau orð og þau svör, — þeim ann ég mest,

öflug og köld — þau virði ég best

í Grettis göfugu sögu.

 

Hann ætíð var gæfunnar olnbogabarn,

úthýstur, flæmdur um skóg og hjarn,

en mótlæti mannvitið skapar.

Það kennir, að réttur er ranglæti, er vann, —

og reyndi það nokkur glöggvar en hann,

að sekur er sá einn, — sem tapar?

 

Hans lund var blendin og bitur hans hjör,

og beisk voru líka öll hans kjör,

því er hann nú góður genginn.

En áður en skráð var hans æviskeið,

áður en fjörbaugsmanninn leið,

þá unni’ honum fár — eða enginn.

 

Ljóðið Grettir eftir Einar Benediktsson

Hljóðbók
Kvæði, Einar Benediktsson

Lengd : 00:00

Sækja fyrir almennar tölvur

Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir almennar tölvur.

Sækja fyrir spjaldtölvur og snjallsíma

Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.

Lengd : 00:00