Höfundur
Örn Arnarson (Magnús Stefánsson)

Útgáfa

2015
Ljóð
Bók sem vert er að lesa

Fyrstu ljóð Magnúsar (Örn Arnarson) birtust í Eimreiðinni árið 1920. Hlutu þau afar jákvæðar viðtökur og fjórum árum síðar kom út ljóðabókin Illgresi. Hefur hún oft verið endurútgefin og þá breytt og bætt eins og gengur. Útgáfan sem hér birtist er frá árinu 1927 (þriðja útgáfa). Illgresi fékk strax ágæta dóma og seldist upp á skömmum tíma. Eins og í Eimreiðinni kvittaði Magnús ekki fyrir ljóðin með eigin nafni heldur dulnefninu Örn Arnarson. Ekki er vitað af hverju hann kaus að gera það, en eflaust hefur honum þótt erfitt að leggja Magnús Stefánsson í dóm allra; að bera sál sína milliliðalaust fyrir hverjum sem var.

Ljóðasafn Magnúsar er ekki stórt að vöxtum, en magn hefur heldur ekkert með gæði að gera. Ljóð hans eru mjög persónuleg; stundum opnar sig alveg inn að kviku og má vera að það skýri að hluta af hverju hann notaði dulnefni. Ljóð Magnúsar eru líka mjög fjölbreytt og engin leið að ætla að fella hann undir einhverja ákveðna stefnu. Í gegnum ljóðin skynjar maður flókinn persónuleika en þó heilsteyptan mann sem er ekki í neinum skáldaleik eins og margir kollegar hans, heldur yrkir af innri þörf og af því að ljóðið býr í honum. Þekktustu ljóð Magnúsar eru eflaust Stjáni blái og Íslands Hrafnistumenn, en síðara ljóðið varð innblásturinn að Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna. Annars er ljóðasafn Magnúsar mjög heilsteypt og má einu gilda hvar gripið er niður í það.

Valmynd

Ljóð

Mér leiðist, ég nenni ei að híma hér.

Ég held, að ætlið að drekkja mér

í andlausri setninga iðu.

En sett var það fyrir, segið þið

og sitjið með kófsveittan skallann við

og lesið í belg og biðu. 

 

Þið sjáið ei menntanna sönnu lind

og svelgið því í ykkur tóman vind

og flautir í hug ykkur hrærið.

En menntunin verður ei heil né hálf,

ef hugsið þið eigi og skapið sjálf,

hve margt sem þið lesið og lærið.

 

Sitjið því, lesið þið, sama er mér, 

en sjálfur ég héðan í burtu fer,

því hér á ég ekki heima.

Af frelsinu hefi ég hungurskammt,

en hitt læt ég engan banna mér samt,

um ljósið og lífið að dreyma. 

Í skóla eftir Örn Arnarson