-
Af góðum hug koma góð ráð.
-
Allt fagurt er augum þekkt.
Smáorð
Til smáorða eru oftast taldir fimm orðflokkar.
Hugtakið smáorð gæti valdið misskilningi. Þetta eru alls ekki allt saman stutt og smávægileg orð, sbr. smáorðin umhverfis og andspænis.
Þá eru þessir orðflokkar, þ.e. smáorðin, stundum skilgreindir sem óbeygjanleg orð. Það er ekki gott heldur því sum smáorð beygjast (hér er átt við þau atviksorð sem stigbreytast).
Smáorð eru:
- Atviksorð
- Forsetningar
- Samtengingar
- Nafnháttarmerki
- Upphrópanir
Verkefni:
- Hvaða fimm orðflokkar teljast til smáorða?
- Hvers vegna er nafnið smáorð kannski ekki nægilega vel lýsandi fyrir þessa orðflokka?
- Hvers vegna er líka erfitt að flokka þau sem óbeygjanleg orð?
Atviksorð eru fjölskrúðugur flokkur orða og vandgreindur í sumum tilvikum. Einkum er tilhneiging til þess að rugla saman atviksorðum og lýsingarorðum. Atviksorð standa með lýsingarorðum, sagnorðum og öðrum atviksorðum.
Atviksorð má oft finna með því að spyrja með hvernig, hvar eða hvenær.
Merking atviksorða skiptir þeim í nokkra flokka:
Háttaratviksorð
Atviksorð sem svara spurningunni hvernig eru háttaratviksorð (á hvern hátt?).
Hvernig líður þér? Svar: Vel.
Hann syngur hátt. Hvernig syngur hann? Svar: Hátt (atviksorð).
Staðaratviksorð
Atviksorð sem svara spurningunni hvar eru staðaratviksorð.
Hvar er bíllinn? Svar: Þarna.
Guðrún býr þarna. En hvar býr Sigrún? Svar: Hérna (atviksorð).
Tíðaratviksorð
Atviksorð sem svara spurningunni hvenær eru tíðaratviksorð.
Hvenær ferðu norður? Svar: Bráðum.
Jón kemur fljótlega. En hvenær kemur Siggi? Svar: Seint (atviksorð).
Spurnaratviksorð
Svo eru það sjálf spurnarorðin: hvernig, hvar og hvenær. Þau heita spurnaratviksorð.
Verkefni
Skiptið atviksorðunum í flokka eftir merkingu:
Víða er fagurt, einkum núna, þegar vorið heldur innreið sína. Börn hneigja sig djúpt fyrir máttarverki skaparans. Þau hafa mjög gaman af að vera úti að leika. Er þá oft erfitt að slíta sig frá leik sem nærri má geta. Heima bíður þeirra yfirleitt ekki annað en að fara strax í rúmið.
Mörg atviksorð stigbreytast og líkjast að því leyti lýsingarorðum. Atviksorð beygjast ekki að öðru leyti, ólíkt lýsingarorðum sem beygjast mest allra orða. Flest atviksorð stigbreytast reglulega, fáein óreglulega.
Dæmi um stigbreytingu atviksorða:
oft sjaldan langt |
oftar sjaldnar lengra |
oftast sjaldnast lengst |
Staða atviksorða í setningu er margvísleg. Þau standa oft með sögnum og lýsa merkingu þeirra. Af því er hið alþjóðlega nafn þeirra runnið: adverb = með sögn.
Dæmi:
Mér líður vel. Henni líður illa. Hann kemur seint. Hún kemur snemma.
Sum atviksorð standa með öðrum atviksorðum.
Dæmi:
Mér líður hryllilega illa (hér er hryllilega atviksorð, rétt eins og orðið illa).
Enn önnur atviksorð standa með lýsingarorðum.
Dæmi:
Þessi ís er mjög góður. Liturinn á húsinu er sérstaklega fallegur.
Atviksorðið ekki stendur með allri setningunni – á við alla setninguna.
ekki
Ekki er atviksorð. Það er mjög sérstakt og á við heila setningu. Hefur svipað gildi og mínus í stærðfræði.
Dæmi:
Jón kemur – Jón kemur ekki.
Verkefni 1
Hugsið ykkur sögnina að borða. Finnið 10 atviksorð sem standa með henni og þrengja merkinguna.
Verkefni 2
Hver af atviksorðunum hér að neðan geta staðið með sögnum, lýsingarorðum eða öðrum atviksorðum? Nefndu dæmi eins og sýnt er í töflunni hér fyrir neðan.
Dæmi:
Atviksorð |
Sagnorð |
Lýsingarorð |
Atviksorð |
núna |
kemur núna |
|
|
ofsalega |
|
ofsalega fallegur |
|
afar |
|
|
afar vel |
Atviksorð |
Sagnorð |
Lýsingarorð |
Atviksorð |
frekar |
|
|
|
illa |
|
|
|
inni |
|
|
|
mjög |
|
|
|
snemma |
|
|
|
oft |
|
|
|
vel |
|
|
|
sæmilega |
|
|
|
Verkefni 3
Ýmis önnur orð en spurnaratviksorð byrja á hv-. Athugaðu listann hér á eftir og finndu þau orð sem ótvírætt eru atviksorð. Semdu setningar þar sem fram kemur hver orðflokkurinn er í hverju tilviki:
hvaða, hvaðan, hvaðanæva, hvar, hve, hvenær, hver, hvergi, hvernig, hvert, hví, hvílíkur, hvor, hvorugur.
Forsetningar eru orð sem stýra falli á fallorðum, til dæmis nafnorðum og fornöfnum. Að því leyti eru þau svipuð og áhrifssögn. Forsetningar standa yfirleitt á undan fallorðinu. Forsetning og fallorðið sem hún stýrir kallast forsetningarliður.
Dæmi:
í dag
á dag
Margar forsetningar eru stutt orð, stundum aðeins einn bókstafur (t.d. í, á), oft tveir bókstafir (t.d. að, af, úr), en nokkrar forsetningar eru löng orð:
umhverfis húsið
andspænis mér
Forsetningarnar um/umhverfis fara á undan fallorði í þolfalli: um þig. Þær stýra því þolfalli.
Forsetningin hjá fer á undan fallorði í þágufalli: hjá henni. Hún stýrir þágufalli.
Forsetningin vegna fer á undan fallorði í eignarfalli: vegna hennar.
Forsetningar stýra ýmist þolfalli, þágufalli eða eignarfalli. Líka má orða þetta svona: forsetningar valda því að fallorðið sem þær stýra stendur í aukafalli.
Hér er – um – frá – til eru hjálparorð við fallbeygingu og þau sem sýna aukaföllin. Smáorðin um, frá, til, eru forsetningar.
um hest - þolfall
frá hesti - þágufall
til hests - eignarfall
Dæmi:
Sagan er um konu (um stýrir þolfalli á nafnorðinu konu).
Guðmundur fór frá konunni (frá stýrir þágufalli á nafnorðinu konunni).
Sigga fór til konunnar (til stýrir eignarfalli á nafnorðinu konunnar).
Stundum fellur brott orð sem fylgir forsetningu. Það breytir því ekki að forsetningin heldur áfram að vera forsetning.
Dæmi:
Gunnar klæddi sig í fötin og fór út.
í er forsetning og fötin er nafnorð sem forsetning stjórnar.
Gunnar klæddi sig í og fór út.
í er forsetning en orðið sem hún stjórnar hefur fallið brott; það er undanskilið.
Brottfall orða kallast það þegar við vitum nákvæmlega hvaða orð gæti verið á tilteknum stað í setningu en er þar ekki. Eyðan er stundum táknuð með láréttu stiki:
Gunnar klæddi sig í _____ og fór út.
Í þessari málsgrein er önnur eyða. Málsgreinin er nefnilega tvær setningar og Gunnar er frumlag beggja setninganna:
Gunnar klæddi sig í fötin og Gunnar fór út.
Gunnar klæddi sig í _____ og _____ fór út.
Engin ástæða er til að kalla sögnina fór einhverju öðru nafni en sögn þótt frumlagið sé ekki sýnilegt. Á sama hátt er ástæðulaust að kalla forsetninguna í öðru nafni þótt fallorðið sem hún stýrir (fötin) sé ekki sýnilegt.
Allir sem kunna íslensku vita hvaða föllum forsetningar stýra.
Sumar stýra þolfalli: um, kringum
Aðrar stýra þágufalli: frá, hjá, að, af, úr
Nokkrar stýra eignarfalli: til, vegna, sökum (þess)
Sumar forsetningar geta stýrt þolfalli eða þágufalli, t.d. forsetningin með:
Mamma fór með mig til tannlæknis.
Mamma fór með mér til tannlæknis.
Er munur á merkingu þessara setninga?
Svar:
Já, það er blæbrigðamunur á setningunum. Í þeirri fyrri er það móðirin sem stjórnar alveg ferðinni. Í þeirri seinni er meira jafnræði ríkjandi!
Verkefni 1
Hvaða falli eða föllum stýra þessar forsetningar? Athugaðu að sumar forsetninganna stýra tveimur föllum.
að, af, auk, án, eftir, frá, fyrir, gegn, handa, handan, hjá, innan, kringum, meðal, milli, mót, nær, sakir, sökum, til, um, undir, utan, úr, út, vegna, vestan, við.
Verkefni 2
Hér fylgir listi yfir forsetningar. Hvaða föllum stjórna forsetningarnar?
að, af, andspænis, auk, austan, á, án, ásamt, eftir, frá, fyrir, gagnvart, gegn, gegnt, gegnum, handa, handan, hjá, innan, í, kringum, með, meðal, meðfram, milli, millum, mót, móti, neðan, norðan, ofan, sakir, sunnan, sökum, til, um, umfram, umhverfis, undan, undir, utan, úr, vegna, vestan, við, yfir.
Vert er að veita því eftirtekt að þegar forsetningarnar í, á, undir, yfir tengjast hreyfingu stýra þær þolfalli. En þegar þær tengjast dvöl á stað stýra þær þágufalli.
Dæmi:
Ég fer í skólann (þf.)/ Ég er í skólanum (þgf.)
Ég fer yfir vatnið (þf.)/ Ég er yfir landinu (þgf.)
Forsetning og fallorð kallast forsetningarliður.
Dæmi:
í dag, við bæinn, vegna mannsins, hjá konunni
Staða forsetningarliða skiptir máli fyrir merkingu. Setningar eru oft tvíræðar. Ræðið þessa fullyrðingu og hafið eftirfarandi setningu í huga:
Við hittum afa á Akureyri.
Svar:
Við skulum breyta stöðu setningarliðarins og segja: Á Akureyri hittum við afa. Þegar þetta er svona er merkingin sú að afi hafi verið staddur á Akureyri en ekki t.d. í Reykjavík. En ef við segjum: Við hittum afa á Akureyri – gæti merkingin verið sú að afi búi á Akureyri og að við köllum hann afa á Akureyri; en hann þarf ekki að hafa verið staddur á Akureyri þegar við hittum hann: Við hittum afa á Akureyri í Reykjavík.
Þessi setning er tvíræð: Pétur talaði við Gunnar á Hlíðarenda.
Í hverju tvíræðnin er fólgin?
Svar:
Pétur talaði við Gunnar kunningja sinn þar sem þeir voru báðir staddir, nefnilega á Hlíðarenda. Eða: Pétur talaði við mann sem gengur undir nafninu Gunnar á Hlíðarenda. En þeir hittust reyndar í IKEA og töluðu saman þar.
Hér á undan hefur verið gerður greinarmunur á forsetningum og atviksorðum eins og venja er í kennslubókum í íslensku. Tengsl eru þó augljós á milli þessara tveggja orðflokka. Í sumum kennslubókum er því t.d. haldið fram að forsetningar verði að atviksorðum þegar fallorð þeirra fellur brott.
Dæmi:
|
Báturinn er kominn að landi (forsetning) Báturinn er kominn að (atviksorð) |
Í öðrum bókum er því haldið fram að í dæmunum hér á undan sé að alltaf forsetning þótt ekkert fallorðið fylgi, það vilji bara svo til að stundum sé unnt að fella brott fallorðið; samt sé engin ástæða til að telja forsetninguna til atviksorða. Þeirri skoðun er fylgt í þessum texta, sbr. það sem sagt var hér að ofan.
Um atviksorð gildir að þau verða aldrei að forsetningum þótt þau stýri falli.
Dæmi:
|
Hann kom snemma (atviksorð, snemma getur ekki stýrt neinu orði) Hann kom snemma dags (atviksorð, snemma stýrir eignarfalli á dags) |
Allar algengustu forsetningar málsins geta líka verið atviksorð þegar miðað er við hefðina. Í framhaldi af þessu er eðlilegt að spyrja hvort ástæðulaust sé að greina hér á milli, þ.e. hvort ástæðulaust sé að gera ráð fyrir tveimur orðflokkum. Með öðrum orðum, hvort halda megi því fram að forsetningar séu enginn sérstakur orðflokkur heldur hluti atviksorða. Lítum til gamans aðeins nánar á þetta.
Hafa ber í huga að afar rík hefð er fyrir því að telja atviksorð og forsetningar til tveggja orðflokka. Í öllum helstu kennslubókum er því þann veg farið. Og sama er að segja um kennslubækur í nágrannatungumálunum (adverb = atviksorð; preposition = forsetning).
Fram hefur komið að spurningum á borð við hvar?, hvenær? og hvernig? er oft svarað með atviksorðum. Þau segja nánari deili á verknaði þeim sem felst í sögninni. Hvernig er þessu farið með forsetningar?
Lítum fyrst á forsetningarliði því að forsetningarliðir og atviksorð hafa svipaða stöðu í setningu, þ.e. oft er unnt að skipta á forsetningarlið og atvikslið:
Dæmi:
|
Hún kemur bráðum (atviksorð/atviksliður) Hún kemur að bragði (forsetningarliður)
Ég sé þig illa (atviksorð/atviksliður) Ég sé þig í sjónaukanum (forsetningarliður) |
Því má auðvitað segja sem svo að forsetningarliðir svari sömu spurningum og atviksorð.
Auðvelt er að skýra merkingu atviksorða og nægir að vísa til orðabóka því til áréttingar (atviksorðið snemma hefur t.d. merkinguna árla). En erfiðara er að eiga við merkingu sumra forsetninga. Í Íslenskri orðabók segir t.d. um forsetninguna í: um stað, tíma o.fl. Sú „merking“ er harla rýr.
En síðan eru tekin dæmi um mismunandi föll sem þessi forsetning stýrir (þolfall og þágufall). Þannig er vísað til notkunar fremur en merkingar. Forsetningarliðurinn í heild hefur aftur á móti merkingu, og ræðst hún að nokkru af fallstjórn. Þannig vísar þolfall til hreyfingar eða stefnu en þágufall til dvalar. (Í fyrra tilvikinu má spyrja með orðinu hvert; í seinna tilvikinu má spyrja með hvar.)
Dæmi:
|
Jólasveinarnir komu í bæinn (hreyfing, þolfall) Jólasveinarnir eru í bænum (dvöl, þágufall) |
Á hinn bóginn eru til forsetningar sem bera augljósa merkingu. Dæmi: meðfram, andspænis, vestan, umhverfis.
Við getum því dregið saman og sagt: Sumir vilja setja forsetningar og atviksorð saman í flokk atviksorða af því að ýmislegt tengir þessa tvo orðflokka. En ýmislegt greinir þá að, t.d. það að hlutverk fallstjórnar forsetninga er augljósara en atviksorða, og einnig er oft erfitt að tala um merkingu forsetninga (betra að ræða um hlutverk þeirra). Aftur á móti eiga forsetningarliðir margt sameiginlegt með atviksorðum (t.d. er mjög oft hægt að nota spurnarorðin hvar/ hvert/ hvenær o.s.frv. um bæði fyrirbærin; þau svara sömu spurningunum) og staða þeirra í setningu er svipuð.
Verkefni 1
Finndu atviksorðin og forsetningarliðina í eftirfarandi setningum:
Hún kemur seint.
Hann kemur í nótt.
Hún fer þangað.
Hann fer í vinnuna.
Verkefni 2
Finndu forsetningarliðina:
Í dag kom ég ásamt mömmu til Reykjavíkur með flugvél frá Akureyri við Eyjafjörð. Það var gaman og við mamma ætlum að fara í bæinn á kaffihús og í búðir. Gegnt kaffihúsinu er stór verslun þar sem við ætlum að kaupa afmælisgjöf handa afa. Á morgun förum við aftur heim í bílnum hans Stjána frá Brekku.
Verkefni 3
Hve margir forsetningarliðir eru í setningunni hér á eftir?
Í kæliskápnum var mikið af hollum og góðum mat.
Samtengingar tengja einstök orð eða setningar.
Dæmi:
Maður og kona (og tengir tvö nafnorð)
Hann sagði að Jón væri kominn (að tengir tvær setningar)
Gunna spurði hvort einkunnin væri góð (að tengir tvær setningar)
Strákar eða stelpur (eða tengir tvö nafnorð)
Stelpan er stór og sterk (og tengir tvö lýsingarorð)
Drengurinn fer af því að hann er búinn (að tengir tvær setningar)
Jón fór að borða en Pétur skrapp í sund (en tengir tvær setningar)
Verkefni
Finnið allar samtengingar í þessum texta:
Sámur gengur heim til búðar sinnar, og var þeim frændum þungt í skapi og uggðu, að þeirra mál mundu svo niður falla, að þeir mundu ekki fyrir hafa nema skömm og svívirðing; og svo mikla áhyggju hafa þeir frændur, að þeir njóta hvorki svefns né matar, því að allir höfðingjarnir skárust undan liðsinni við þá frændur, jafnvel þeir, sem þeir væntu, að þeim mundi lið veita.
(Hrafnkels saga, 8. kafli)
Samtengingar skiptast í aðaltengingar og aukatengingar.
Aðaltengingar eru notaðar til að tengja einstök orð en einnig til að tengja setningar og setningaliði.
Dæmi:
Maður og kona (og tengir tvö nafnorð)
Jón fór að borða en Pétur skrapp í sund (en tengir tvær aðalsetningar)
Fleiri dæmi um aðaltengingar:
Hann gerði þetta hratt og vel (tengir tvö atviksorð)
Hár og grannur maður gekk inn ganginn (tengir tvö lýsingarorð)
Hún gengur í grænum buxum og í bláum skóm (tengir tvo forsetningarliði)
Aukatengingar tengja aukasetningu við aðrar setningar eða einstök orð:
Dæmi:
Sigríður sagði að veðrið væri gott (tvær setningar, að tengir aukasetninguna ‘veðrið væri gott’ við aðalsetninguna ‘Sigríður sagði’).
Stundum er talað um tvíyrtar (eða fleiryrtar) tengingar. Þá er átt við samtengingar sem eru tvö orð eða fleiri.
Dæmi:
að þeir njóta hvorki svefns né matar,
því að allir höfðingjarnir skárust undan liðsinni við þá frændur.
Hæpið er þó að telja hvorki – né eina samtengingu og sama gildir um því að. Þá verður nefnilega að gera ráð fyrir að í sumum tilvikum eigi að greina orðasamband til eins orðflokks, en þar með er meginreglan brotin. Hér er eðlilegra að greina orðið né samtengingu og hvorki atviksorð. Samtengingar af þessu tagi kallast fleygaðar tengingar og eru oft taldar þessar:
hvorki – né, bæði – og, annaðhvort – eða, ýmist – eða
Einhver breyting virðist hafa orðið á notkun fleygaðra tenginga. Til þess bendir nokkuð algeng notkun ýmissa tengingasambanda, t.d. hvorki – eða og jafnvel ekki – né.
Veitið athygli hvort fleygaðar tengingar eru fleiri í íslensku en taldar voru hér á undan. Hvað má t.d. segja um þessi dæmi?:
Húsið var málað bæði að utan sem innan
Hann er hvorki ráðherra eða þingmaður
Ég kem ekki á morgun né hinn
Kannist þið við fleiri hliðstæð dæmi?
Lítum nánar á því að. Lítum nánar á hana með aðrar aukatengingar í huga sem oft eru kallaðar fleiryrtar í kennslubókum: vegna þess að, til þess að, af því að, svo framarlega sem. Í dæmum af þessu tagi er seinna eða síðasta orðið jafnan tenging, og á undan henni getur farið atviksorð eða forsetningarliður:
svo að (atviksorð + tenging)
af því að (forsetningarliður (forsetning og fornafn) + tenging)
Dæmi eru um að bæði atviksorð og forsetningarliður geti farið á undan tengingunni:
þrátt fyrir það að (atviksorð + forsetningarliður + tenging)
Dregið saman: Mælt er með því að miða við að samtengingar séu einyrtar (þ.e. aðeins eitt orð). En þeir sem vilja halda í fleiryrtar samtengingar (t.d. af því að) eða fleygaðar samtengingar (t.d. bæði – og) mega gera það í nafni hefðarinnar.
Aðaltengingar: og, en, eða, enda, nema, né
Aukatengingar: að, eð, ef, en (t.d. í sambandinu stærri en), sem, er (í merkingunni sem, t.d.: ‘Sá er þetta segir…’), fyrst, hvort, meðan, nema, og (t.d. í sambandinu eins og), síðan, uns, þegar, þótt
Algengt er, einkum í töluðu máli, að málnotendur skjóti inn að á eftir aukatengingum.
Dæmi:
Þarna er húsið sem að brann í nótt.
Ég kem þegar að ég er búinn að læra.
Ekki er mælt með þessari málnotkun.
Verkefni
Finndu allar samtengingar í þessum texta og flokkaðu þær í aðaltengingar og aukatengingar.
Jón og Gunna fóru í bíó og sáu skemmtilega kvikmynd. Hún var um mann sem fór til Ítalíu af því að hann langaði að sjá Róm og fleiri borgir. En margt fór á annan veg vegna þess að lestar gengu ekki eins og áætlanir sögðu. Myndin endaði vel eða það fannst Jóni en Gunna var ekki ánægð.
Nafnháttarmerki er aðeins eitt orð ‘að’ og notað með sögn í nafnhætti.
Dæmi:
Haraldur fór að sofa
Sigrún er að skrifa
Nafnháttarmerki er ekki alltaf notað þótt sögn sé í nafnhætti.
Dæmi:
Guðrún vill fara í bæinn (fara er sögn í nafnhætti)
Jón hyggst syngja á tónleikum (syngja er sögn í nafnhætti)
Sögn getur því verið í nafnhætti þótt nafnháttarmerki sé hvergi sjáanlegt. Þetta á einkum við þegar sögnin er í sambandi með annarri sögn (t.d. vill fara, hyggst syngja).
Stundum eru orð eins og ‘æ’, ‘uss’, ‘dísus’ og ‘hó’ talin upphrópanir. Mjög algengt er að slettur séu notaðar sem upphrópanir.
Dæmi:
Hó, hó, hvað þetta er fallegt!
Dísus, hvað mér brá!
Æ, hvað ég meiddi mig!