Höfundur
Einar Benediktsson

Útgáfa

2015
Smásögur á íslensku
Hugleiðingar

Í þessa bók höfum við tekið saman texta eftir Einar Benediktsson sem birtust í tímaritinu Dagskrá sem Einar hélt úti á árunum 1896 – 1898. Gefa þeir góða mynd af skáldinu á þessum tíma, bæði hvað varðar helstu hugðarefni og stíl. Þó svo að Einar hafi skrifað mikið af ýmiss konar textum er hans sjaldnast minnst fyrir það. Fólk tengir hann oftast við ljóðin og athafnasemi hans. En sumar sögur hans eins og Valshreiðrið eru stórkostleg skrif og einnig margir af textum hans sem hér er að finna. Er erfitt að flokka þessa texta, þeir liggja einhvers staðar á mörkum þess að vera sögur, minningabrot, hugleiðingar og einhvers konar innblástur. Verður hver og einn að skoða þá með þeim gleraugum þeir kjósa. Okkur fannst best eiga við að kalla bókina Hugleiðingar.

Valmynd

Tilvitnun

Seinasti klárinn var að taka sundið, og ferjumaðurinn henti með hrópi og hotti smágrýti úr mölinni niður fyrir hestana til þess að ógna þeim upp í strauminn. Blanda var ekki mikil þennan dag, og þeir fremstu höfðu eftir nokkrar hestlengdir krakað og fótað sig hinum megin við álinn, svo óðu þeir seint og gætilega upp að bakkanum, hnutu á flúðunum og stóðu kyrrir við og við, ráku snoppuna niður í jökulvatnið og hnusuðu. En sólin, sem var að renna upp yfir ásinn í dagmálastað, gljáði heit og morgunrjóð á blautar síðurnar.

Þetta var guðdómlega bjartur og fagur sumardagur, sá glaðasti, sem við höfðum fengið alla leiðina, og við vorum í góðu skapi. Allir hestar óþreyttir, dagurinn tekinn snemma frá Stóradal og hlemmivegir, svo langt sem átti að ríða þann áfanga.

Úr Kaupamaðurinn - Ferðaminning eftir Einar Benediktsson