Fædd / fæddur:

1882 to 1906
Jóhann Gunnar Sigurðsson

Jóhanni Gunnari Sigurðssyni var ekki skammtaður langur tími hér á jörðu.  Hann lést úr tæringu einungis 24 ára gamall og að honum gengnum urðu íslenskar bókmenntir þeim mun fátækari, ekki síst ef litið er til þess hvað hann, þrátt fyrir ungan aldur, skildi eftir sig.

Valmynd

Bækur og verk
Æviágrip

Jóhann fæddist að Miklaholtsseli í Miklaholtshreppi 2. febrúar árið 1882.  Foreldar hans, Sigurður Sigurðsson og Guðríður Jónasdóttir stunduðu búskap þar en fluttust að Svarfhóli í sama hreppi þegar Jóhann var á þriðja ári.  Áður höfðu foreldrar Jóhanns eignast fimm börn sem öll voru látin.  „Áttu þau  aldrei nema eitt barn á lífi í einu.“[1]

Jóhann ólst upp á Svarfhóli og hlaut gott atlæti heima fyrir ef marka má ljóð hans og þeirri hugsun sem þar kemur fram.  Var hann eina barnið á bænum og „fór einförum og lifði í sínum eigin heimi“.  Hann var aldrei heilsuhraustur, „veill fyrir brjósti og veikbyggður.“[2] 

Hann bestu vinir voru foreldrar hans og þegar faðir hans lést árið 1897 tók hann það mjög nærri sér og syrgði hann alla tíð.  Um föður sinn orti hann þetta látlausa en samt innihaldsríka erindi:

 

Þú varst aldrei með þeim

sem mest kveður að,

en aldrei var þar autt,

sem þú áttir þér stað.

 

Um föður sinn og móður sína orti hann skömmu fyrir dauða sinn, sem sýnir glögglega hvaða hug hann bar til þeirra:

 

Ættgöfgi mín var aldrei stór,

og ekki er ég þar um fróður.

En getinn er ég af góðum dreng,

og guðhrædda átti ég móður.

 

Haustið 1896 hóf Jóhann að læra utanskóla og árið eftir (1897) hélt hann til Stykkishólms til að læra frekar undir skóla hjá Sigurði Gunnarssyni presti. 

Vorið 1898 hóf hann svo nám við Latínuskólann í Reykjavík.  Stundaði hann nám þar næstu sex árin, og útskrifaðist svo sem stúdent 30. júní 1904.  Þann skugga bar á líf hans skömmu áður en hann útskrifaðist að hann veiktist af tæringu og þurfti tvívegis að leggjast inn á spítala.  Fram að því hafði hann lengi haft áhyggjur af heilsuleysi sínu, en nú var eins og hann vissi að hverju hann gekk.

Hann setti stefnuna á að verða prestur og hóf nám við prestaskólann strax þá um haustið.  Honum tókst að halda út það ár og lauk prófi í heimspeki um vorið.  Í nóvember árið 1905 veiktist hann aftur og lagðist inn á spítala þaðan sem hann átti ekki afturkvæmt.  Hann lést úr tæringu 20. maí árið 1906.

Þó svo að Jóhann sjálfur mundi ekki hafa valið ljóðum sínum dvalarstað á hillum einhverra kenninga verða ljóð hans helst flokkuð undir nýrómantíkinni.  Rómantíkin gamla sem ruddi sér til rúms með Bjarna Thorarensen hafði vikið fyrir raunsæisstefnunni, en birtist aftur endurborin og breytt uppúr aldamótunum 1900.  Nýrómantíkin var ólík eldri rómantíkinni að því leiti að hún byggðist meira á persónulegu sjónarhorni og lífi skáldsins og hafði yfir sér þunglyndislegri blæ.  Skáldið og líf þess varð að inntaki ljóðanna í stað almennra tilfinningalegra gilda. 

Jóhann lagði sig snemma eftir ljóðum Kristjáns Jónssonar Fjallaskálds, og má jafnvel sjá áhrif frá honum í fyrri ljóðum Jóhanns, en fljótlega verða ljóð hans persónulegri og tóninn í þeim verður Jóhanns sjálfs.   Það er frekar að maður finni fyrir því að skáld sem koma á eftir honum leiti til hans.  Er ekki laust við að manni verði stundum hugsað til Jóhanns þegar maður les sum ljóða Davíðs Stefánssonar. 

 

Og þó svo að depurðin og angistin ómi frá ljóðum Jóhanns, kveður sjaldnast svo rammt að því að það verði væmið.  Jóhann leyfir sér ekki að gerast svo sjálflægur.  Það fer heldur ekki framhjá neinum sem les ljóð hans að þau eru sprottin af mikilli innir þörf til að tjá sig með þessum hætti.  Jóhann er skáld ekki vegna aðstæðnanna heldur býr ljóðrænan í honum og hefði fundið sér farveg þrátt fyrir að örlögin hefðu verið honum hliðhollari. 

Í ljóðum sínum leitar Jóhann oft til draumheima, enda fátt annað í boði þegar framtíð hans er annars vegar. 

Fögur eru löndin

fyrir austan sól.

Gaman væri að eiga þar

athvarf og skjól.

 

Landið var Jóhanni nákomið enda alinn upp í sveit og fór oft einförum.  Þá tengdist hann landinu betur og finnur sér huggun í því:

 

Ennþá sé ég þig aftur,

ástkæra sveitin.

Söm eru fjöllin og fellin

og fossar og dalir.

En svo er ég umbreyttur orðinn,

að áður ég gladdist,

nú geng ég um grundir og mela

með grátstaf í hálsi.

 

Og hjá ungum mönnum er ástin aldrei langt undan, en samt svo fjarlæg og sársaukafull:  

 

Þú veist ég átti gimstein,

sem glóði, er sólin skein.

Hugðist ég að hafa hann

sem hamingjustein,

en reyndar var hann glerbrot,

sem risti mig inn í bein.

 

Þegar Jóhann verður sér meðvitaður um að hann eigi ekki langt eftir er eins og ljóð hans öðlist meiri fyllingu.  Þó svo að hann sé ekki sáttur við þau örlög sem bíða hans er hann æðrulaus og tekur þeim með þeirri karlmennsku og þeim þroska sem er að finna í ljóðum hans.

 

Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.

Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.

 

Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,

sumar dánar, en sumar feigar.

 


[1] Hannes Pétursson – Formáli að bókinni Fjögur ljóðskáld í ritröðinni Íslensk úrvalsrit – útg. 1957 – bls. XXXI.

[2] Hannes Pétursson – Formáli að bókinni Fjögur ljóðskáld í ritröðinni Íslensk úrvalsrit – útg. 1957 – bls. XXXII.

 

Tímalína Jónasar Hallgrímssonar