Rafbækur
Útgáfa
Bókin „Stúlka“ eftir Júlíönu Jónsdóttur frá Akureyjum er fyrsta ljóðabókin sem gefin var út eftir konu á Íslandi og það eitt og sér væri nóg til að allir áhugamenn um íslenskar bókmenntir ættu að þekkja til hennar. En að því slepptu, þá er bókin líka ágæt sem slík og greinilegt að Júlíana kann vel til verka og býr yfir frumleika og næmni sem margir samtíðarmanna hennar áttu ekki í fórum sínum. Af ljóðum Júlíönu má sjá að hún er vel lesin og þekkir vel til eldri skálda og sækir t. a. m. kenningar aftur til Snorra Sturlusonar. Þó svo að hún semji inn í hefðina að nokkru leyti eru ljóð hennar persónuleg. Má þó finna greinilegan og skýran mun á ljóðum hennar og annarra ljóðskálda samtíða henni, ekki síst í umfjöllunarefni og má m. a. finna meiri gagnrýni á samtímann í ljóðum Júlíönu en flestra annarra. Hún var ekki sátt með stöðu sína og það skín skemmtilega í gegn í ljóðunum. Hér er bókin að öllu leyti eins og þegar hún kom út með stafsetningu síns tíma enda erfitt að breyta bók sem hefur jafn mikið sögulegt gildi. Framan við ljóðin höfum við bætt örstuttri umfjöllun um skáldið og bókina.
Ljóð Júlíönu byggja einkum á rímnahefðinni, en þó bregður fyrir annars konar bragarháttum svo sem í upphafi bókarinnar stúlku þar sem hún ávarpar lesandann með ljóði þar sem hún notar fornyrðislag.
Lítil mær heilsar
löndum sínum,
ung og ófróð
en ekki feimin,
leitar gestrisni
góðra manna
föðurlaust barn
frá fátækri móður.
Úr bókinni Stúlka eftir Júlíönu Jónsdóttur.