Fædd / fæddur:

1864 to 1940
Einar Benediktsson

Það hafa orðið örlög Einars Benediktssonar að fólk minnist hans einkum fyrir lífið sem hann lifði; líf ævintýramannsins og heimsborgarans.  Virðist það leita meira á fólk heldur en skáldverkin, sem eru þó í grunninn sá kjarni sem færir sögusögnunum sem umlykja manninn líf og munu gera í framtíðinni.

Í viðskiptum hugsaði Einar stórt og sá mörg tækifæri, sem fæst urðu þó að veruleika.  Hann stofnaði t.a.m. Fossafélagið Títan árið 1914 ásamt öðrum, en það sóttist m.a. eftir því að virkja Þjórsá.  Frá 1921 bjó hann lengst af í Reykjavík, en síðust átta árin, frá 1932 bjó hann í Herdísarvík. 

Samhliða lífsstritinu var hugur Einars stöðugt við skáldskap, einkum ljóðagerð.  Kom skáldskapur hans út í fimm bókum:  Sögur og kvæði (1897), Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930).  Þá þýddi hann Pétur Gaut eftir Henrik Ibsen (1901).  Auk þess skrifaði Einar mikið af blaðagreinum, ritgerðir og fleira sem birtust víða.   

 

Valmynd

Bækur og verk
Um Einar Benediktsson

Einar Benediktsson (1864—1940) fæddist á Elliðavatni við Reykjavik. Faðir hans var Benedikt Sveinsson, frægur stjórnmálaskörungur. Þegar Einar var tíu ára varð Benedikt sýslumaður í Þingeyjarsýslu og átti hann heima þar öll skólaár sín og lengur. Að stúdentsprófi loknu nam hann lög í Kaupmannahöfn en að loknu lagaprófi var hann enn um skeið með föður sínum, fulltrúi. Að því búnu gerðist hann málafærslumaður í Reykjavík og gaf út blaðið Dagskrá en síðan sýslumaður í Rangárvallasýslu. Draumur Einars var að koma á fót stóriðju á Íslandi, fyrst og fremst með virkjun fossanna, og hafði hann þar fyrir sér dæmi norðmanna. Enginn kostur var þó á því nema afla fyrst fjármagns frá öðrum löndum og vann Einar lengi að því að fá erlenda auðmenn og auðfélög til að leggja fram fé í því skyni. Þess vegna hvarf hann frá sýslumannsembætti og sinnti þessum hugðarefnum sínum næstu áratugina, lengst af með búsetu erlendis. Gáfust honum þá tækifæri til að ferðast víða um lönd. Síðustu æviárin dvaldist Einar í Herdísarvík þar sem hann hafði látið reisa lítið íbúðarhús. Voru það næsta gagnger umskipti að hverfa úr hringiðu stórborga í einangrun við hraun og úthaf. Einar lést í Herdísarvík en var jarðsettur í þjóðargrafreit Íslendinga á Þingvöllum.

Einar Benediktsson var höfuðskáld Íslendinga á sinni tíð. Honum var svo lýst að hann „skorti tvo þumlunga á þrjár álnir, þreklega vaxinn, limaburður virðulegur og framgangan öll fyrirmannleg. Hann var gæddur fágætlegum höfðingsbrag og persónutöfrum“ (StJÞ).

Einar kynntist raunsæisstefnunni á námsárunum og varð um tíma fyrir talsverðum áhrifum af henni. Síðar varð hann henni fráhverfur og deildi á forsvarsmenn stefnunnar, meðal annars fyrir skort á þjóðrækni. Sjálfur hafði hann hvort tveggja: tiltrú á landi sínu og ærinn metnað fyrir hönd þjóðarinnar.

Fyrstu bók sína, Sögur og kvæði, sendi Einar frá sér 1897. Kom hann þá þegar fram sem fullþroskað skáld og eru þar sum bestu kvæði hans. En sagnagerð sinnti hann lítt upp frá því. Síðar komu frá honum kvæðasöfnin Hafblik (1906), Hrannir (1913), Vogar (1921) og Hvammar (1930). Hann þýddi einnig leikritið Pétur Gaut eftir norska skáldið Henrik Ibsen.

Yrkisefni háði Einar sér víða. Efst á blaði var land og saga. Náttúrufegurð æskustöðvanna varð honum drjúgt kvæðaefni. Þannig orti hann kvæðin Sumarmorgunn í Ásbyrgi, Bláskógavegur, Dettifoss, Hljóðaklettar og Í Slútnesi um samnefnda staði í Þingeyjarsýslu. í kvæðinu um Dettifoss lýsti Einar þeirri hugmynd sinni að fossinn yrði virkjaður, áburður framleiddur með orkunni og auðnirnar í kring græddar upp. Varð það til að Þorsteinn Erlingsson andmælti með kvæði sínu, Við fossinn, þar sem hann taldi virkjun fallvatna mundu spilla fegurð þeirra. Hagnaðarsjónarmið Einars var Þorsteini líka þyrnir í augum. Stephan G. Stephansson blandaði sér í umræðurnar með kvæðinu Fossaföll og fór bil beggja. í kvæðinu um Slútnes setti Einar fram heimspekileg viðhorf sín til lífsins og alheimsins:

 

Ég veit að allt er af einu fætt,

að alheimsins líf er ein voldug ætt,

dauðleg, eilíf og ótalþætt

um afgrunns og himins slóðir.

 

Eins og ráða má af nöfnunum á kvæðabókum Einars og stað þeim sem hann kaus sér til búsetu síðustu æviárin unni hann hafinu enda lýsir hann því í mörgum kvæðum. Viðamest þeirra er Útsær. Þar lýsir hann hvernig sjórinn er heimur hverfulla mynda, getur verið bæði ofsafenginn og mildur en er þó ávallt stórkostlegur. Og skáldið sér í hafinu samlíking mannlífsins: „upplit og viðmót fólksins tekur þitt gervi.“ í kvæðinu Hafís er einnig að finna áhrifamiklar náttúrulýsingar.

Sum yrkisefni sín sótti Einar til Íslendingasagna eða þjóðsagna. Hvarf séra Odds frá Miklabæ lýsir lamandi sektarkennd í skugga hjátrúar. Form og efni er svo kænlega samtvinnað að jódynur og veðrahvinur frá helreið séra Odds endurómar í orðum og hrynjandi. í kvæðinu Grettisbæli hugleiðir skáldið ævikjör útlagans sem „ætíð var gæfunnar olbogabarn.“ Á Njálsbúð geymir stutta en gagnorða lýsing á Njáli á Bergþórshvoli sem var „í huga háll / en hjartað þó sem gull ef á var reynt.“ Kvæðið felur í sér hvatning til samtíðar og framtíðar með skírskotun til íslensks þjóðaranda og mannlundar. Svipaðs eðlis er Haugaeldur. Tilefni þess kvæðis var sigling inn Borgarfjörð og upp Hvítá. Franskættaður aðalsmaður hafði flust til Íslands og reist bú á Hvítárvöllum. Var Einar að þiggja heimboð hans þegar hann fór þá ferð — á litlum gufubáti. í kvæðinu finnur skáldið til smæðar þjóðarinnar samanborið við glæsta fortíð og stórbrotna náttúru landsins og spyr: „Því sést hér ei stórbær með ljómandi torg?“ Kvæðið Egill Skallagrímsson lýsir ekki aðeins þeim mikla skáldjöfri heldur einnig mörgum eðlisþáttum Einars sjálfs enda má finna margt sameiginlegt með þessum tveim mönnum þó aldir skildu þá að.

Einar hafði mætur á íslenskum alþýðukveðskap en hann hafði legið í nokkurri lægð síðan á dögum Fjölnismanna. Eins og áður er getið fór Jónas Hallgrímsson háðulegum orðum um rímnakveðskapinn í Fjölni. Einar var á annarri skoðun. Og því til áréttingar gerðist hann sjálfur rímnaskáld, orti Ólafs rímu Grænlendings og er efni hennar sótt í grænlensk munnmæli. „Ég vildi setja það sem skýrast fram,“ sagði hann, „að ég, fyrir mitt leyti, tel rímnakveðskapinn fullkomlega samboðinn skáldmennt vorri. Ég hef lengi furðað mig á því hve ranglega þessi ljóðlist þjóðarinnar íslensku hefur verið óvirt.“ Getur Einar þess síðan að Fjölnisdómur Jónasar Hallgrímssonar hafi valdið mestu um það. Bragfræðilega séð er Ólafs rima grænlendings þrekvirki — öll ort undir sléttubandahætti.

Eftir að Einar tók að ferðast um fjarlæg lönd orti hann nokkur kvæði um stórborgir þær sem hann gisti og felldi þá oft inn í þau hugleiðingar um lif og sögu íbúanna svo sem í kvæðinu Kvöld í Róm þar sem hann ber Ítali nútímans saman við Rómverja hina fornu. Meðal annarra slíkra kvæða má nefna Fimmtutröð (þýðing á „Fifth Avenue“ í New York), Spánarvín og Tempsá.

Nokkuð liggur eftir Einar í lausu máli, smásögur, blaðagreinar og ritgerðir. En eðlilega stendur það allt í skugga kvæðanna. Besta smásaga Einars er Valshreiðrið enda var henni skipað fremst í Sögum og kvæðum. Þar segir frá sjálfsþótta og ofdirfsku ungs manns sem ofbýður ást unnustu sinnar með því að leggja sig í tilgangslausa lífshættu fyrir augum hennar.

Greinar og ritgerðir Einars fjalla aðallega um þrenns konar efni: 1) skáldskap, 2) þjóðmál og 3) heimspeki. Um fyrst talda efnið, skáldskap, skrifaði Einar aðallega á ritstjórnarárum sinum í Reykjavik, meðal annars um ritverk helstu samtímahöfunda. Stjórnmál lét hann einnig til sin taka og var stefna hans sú að gera hlut Íslands sem mestan. Honum sveið mannfæð, fátækt og ósjálfstæði þjóðarinnar. Hann lýsti sig mótfallinn því að sveitarfélög losuðu sig við efnalítið fólk með því að kaupa far undir það til Vesturheims en á því bryddi talsvert fyrir aldamótin. Það er „hin mesta villa,“ sagði hann, „að halda að landið auðgist þó fátæklingarnir fari. Mesti og besti auður hvers lands er fólkið sjálft sem lifir þar, hugsar og starfar og hver, sem stuðlar til þess að fólk flytji sig burt úr jafn litt byggðu landi sem Ísland er, vinnur þjóðinni tjón, því meira sem honum verður betur ágengt.“ Einar vissi að stóriðjudraumar sínir rættust ekki nema fólki fjölgaði.

Siðast talda efnið, heimspekin, varð Einari hugstæðast þegar árin færðust yfir. Hann var að eðlisfari trúhneigður. Að áliti hans skyldi vísindunum ekki aðeins beitt til að efla efnahagslegar framfarir heldur einnig til að víkka hugsæilegt sjónarsvið mannsins, nálgast skapara lífsins og alheimsins.

Steingrímur J. Þorsteinsson skrifaði ævisögu Einars Benediktssonar og gaf út með úrvali lausamálsverka hans. Heitir það rit Laust mál I-II (1952).

Tímalína Jónasar Hallgrímssonar