Gunnlaugs saga ormstungu tilheyrir flokki Íslendingasagna sem eru um 40 talsins, skrifaðar á 13. og 14. öld en greina frá atburðum sem eiga að hafa gerst löngu fyrr. Í sumum þeirra er í upphafi jafnvel sagt frá landnámi seint á 9. öld, en yfirleitt er sögutíminn seinni hluti 10. aldar og allt fram á fyrri hluta þeirrar 11. Í Gunnlaugs sögu gerast atburðir nálægt árinu 1000 og tengjast þá m.a. kristnitökunni.
Sagan er talin rituð á seinni hluta 13. aldar. Ekkert er vitað um höfundinn en hann hefur verið lærður maður sem þekkt hefur til margra rita; hugsanlega var hann prestlærður. Riddarasögur hefur hann þekkt því að greina má áhrif evrópskra riddarasagna í sögu hans, t.d. Flóres sögu og Blankiflúr, ævintýralegri ástarsögu ungmenna sem skrifuð var á frönsku á 12. öld en þýdd á íslensku á þeirri 13. Einnig má geta þess að draumur Þorsteins á Borg um fuglana á sér merkilega hliðstæðu í Niflungaljóðinu þýska frá því um 1200.
Gunnlaugs saga er ekki varðveitt í frumriti fremur en aðrar Íslendingasögur en tvö skinnhandrit eru til af henni, annað frá 14. en hitt frá 15. öld. Yngri pappírshandrit eru frá þessum skinnhandritum runnin.
Í fyrirsögn annars skinnhandrits sögunnar segir að sagan sé skráð „eftir því sem sagt hefir Ari prestur hinn fróði Þorgilsson, er mestur fræðimaður hefir verið á Íslandi á landnámssögur og forna fræði“. Þessi staðhæfing stenst reyndar illa því að Ari fróði lést löngu áður en Gunnlaugs saga var skrifuð. En skrásetjari handritsins hefur hugsanlega viljað ljá sögunni sannfærandi svip með því að tengja hana nafni sjálfs Ara fróða.
Löngum hafa menn deilt um það hvort Íslendingasögurnar séu hreinar og klárar skáldsögur eða hvort líta megi á þær sem nokkurs konar arfsagnir sem byggðar séu á sönnum atburðum, en hafi svo nærst á hugmyndaflugi og frásagnargleði kynslóðanna þann tíma sem leið frá því að atburðirnir gerðust fram til þess að sögurnar voru færðar í letur. Víst er að margar af persónum Gunnlaugs sögu eru nefndar í eldri ritum. En þar með er auðvitað ekki sagt að þeim sé lýst í sögunni eins og þær raunverulega voru. Hvað t.d. um skáldskap Gunnlaugs í sögunni? Hæpið mun talið að hann sé í raun og veru hægt að rekja alla leið til persónunnar Gunnlaugs.
En hvað sem öllum sannleika líður, þá hefur Gunnlaugs saga ormstungu lengi verið með vinsælustu Íslendingasögunum. Hún fjallar um heitar ástir ungmenna og mikil örlög en er jafnframt blandin gamansemi og húmor. Hún er sterk í byggingu og er römmuð inn af draumum sem feður aðalpersónanna dreymir. Draumur Þorsteins á Borg, við upphaf sögu gefur tóninn og grípur lesandann traustataki. Draumar þeirra Illuga og Önundar í lok sögu kallast á við draum Þorsteins.
Helstu persónur eiga hver sín einkenni, mikla kosti og augljósa galla, sem gera dramatísk átök óumflýjanleg. Sagan er tilvalin til umræðu um mannlegan breyskleika og mannleg samskipti, og mætti nýta til siðferðislegrar og heimspekilegrar rökræðu.
Gunnlaugs saga er á margan hátt góður gluggi að lengri og flóknari Íslendingasögum. Hér kynnumst við afkomendum Egils á Borg, en leiða má að því rök að Gunnlaugs saga sé skrifuð sem nokkurs konar framhald sögu Egils: fólkið hefur viljað fá meira að heyra af Mýramönnum. En vel má nú fara hina leiðina og kynna sér Egils sögu að loknum lestri sögunnar um sonardóttur skáldsins á Borg.
Á Gunnlaugs sögu má líta sem dæmisögu um það hvernig farið getur ef haldið er dauðahaldi í gömul hetju- og sæmdargildi í friðsömu bændasamfélagi. Eða öllu heldur, hvernig farið getur ef ekki er hugað að dygðum á borð við sanngirni og tillitssemi í samskiptum manna. En jafnframt er þetta saga um mannlega reisn og mannlegan harm í viðsjárverðum heimi.