Eftirfarandi verkefni eru ætluð nemendum sem kynna tilteknar frásagnir úr Skáldskaparmálum frammi fyrir bekkjarfélögum. Hugmyndin er að því fleiri sem kynningarnar verða, þeim mun fleiri goðsögum kynnist nemendur. Lögð skal áhersla á eftirfarandi þætti:
- Nemendur vinni saman tveir eða þrír. Allir nemendur fái tækifæri til að taka þátt í a.m.k. einni kynningu.
- Nemendur lesi viðkomandi kafla vel og fletti upp orðum sem þeir skilja ekki.
- Nemendur æfi flutninginn vel og sjái til þess að hver og einn fái hæfilegt hlutverk.
- Nemendur velti fyrir sér hvernig tengja megi textann nútímanum. Með öðrum orðum: Hvaða erindi á textinn við nútímann?
- Til greina kemur að beita leikrænum brellum en þó skal það gert í hófi.
- Hvert verkefni taki ekki meira en 10 mínútur.
Verkefni 1: Kaflar 1–3 í Skáldskaparmálum
Epli Iðunnar
a) Greinið frá aðdraganda þess að eplin hurfu úr vörslu ása og segið síðan frá rás atburða allt þar til Þjasi er drepinn og dóttir hans reynir að hefna hans.
b) Hvaða dýpri merkingu mætti lesa út úr sögunni af Iðunnareplunum? (Dæmi: draumur mannanna um eilífa æsku/ æskudýrkunin o.s.frv.)
Verkefni 2: Kaflar 5–6 í Skáldskaparmálum
Skáldamjöðurinn
a) Hér verði greint frá upphafi mjaðarins (griðin milli ása og vana), Kvasir og blóð hans, hlut dverganna, jötnanna, Gunnlaðar og Óðins. Hvers vegna heitir skáldskapur „Kvasis blóð“/ „Suttung mjöður“/ „fengur Óðins“/? Hvað er skáldfífla hlutur?
b) Skáldskapur er hér tengdur vísindum, fæðum og viti og hinum voldugasta meðal ása. Hlutverk skáldskaparins er því geysimikilvægt. Ræðið þetta og tengið nútímanum (t.d. samkeppni í vísindum milli þjóða og fyrirtækja). Einnig má ræða meðferð Óðins á Gunnlöðu og svikum hans og klæjum. Hvað má ganga langt í slíkum efnum?
Verkefni 3: Kafli 24 í Skáldskaparmálum
Frá Hrugni jötni
a) Endursegið kaflann í stuttu og einföldu máli. Dragið fram hlutverk Þórs meðal ása, styrkleika og hugsanlegan vanmátt. Hvet er hlutverk Þjálfa?
b) Leggið út af kaflanum. Hvaða öfl takast hér á? Þekkjum við eitthvað svipað úr samtíma okkar? Bendið á hlutverk Óðins í textanum. Má greina e.k. afbrýðisemi Óðins í kaflalok? (Spenna í eigin fylkingu.)
Verkefni 4: Kafli 26 í Skáldskaparmálum
För Þórs til Geirröðargarða
Endursegið kaflann og verið viss um að skilja hvert atriði, t.d. orð Þórs: „Að ósi skal á stemma“; einnig hlutverk stafsins Gríðarvalar. Leggið áherlsu á svik Loka og hjálp Gríðar, sbr. málsháttinn „þegar neyðin er stærst þá er hjálpin næst“.
Verkefni 5: Kafli 43 í Skáldskaparmálum
Af smíðum Ívaldasona ok Sindra dvergs
Endursegið kaflann. Hér er sögð sagan af hári Sifjar og helstu töfragripum ása. Leggið mat á vægi þessara gripa. Hvað finnst konum skipta máli? Hvað finnst körlum skipta máli? Er gull mikilvægara en hamar Þórs? Hvað skiptir mestu máli þá/ nú? Semsagt: Í kjölfar frásagnarinnar ræðið þið um gildi hluta í þátíð og nútíð.
Verkefni 6: Kaflar 46–49 í Skáldskaparmálum
Sagan um gullið og ógæfuna sem því fylgir
Hér þarf a.m.k. fjögurra manna hóp.Tveir endursegi kafla 46 (um oturgjöldin). Tveir endursegi kafla 47, 48 og 49 (um Fáfni, Sigurð, Brynhildi og Gjúkunga).
Verkefni 7: Kafli 50 í Skáldskaparmálum
Dráp Gjúkunga og hefndir Guðrúnar
Endursegið kafla 49 og 50 (um Sigurð, Guðrúnu, Gunnar, Högna, Hamdi og Sörla).
Sagan um gullið og Niflunga er ein frægasta mýtan (goðsagan/ hetjusagan) úr germönskum sagnaheimi. Sagan er til í ótal gerðum en þessi er sú stysta og ein sú kraftmesta.
Verkefni 8: Kafli 52 í Skáldskaparmálum
Frá Fróða konungi og kvörninni Grótta
Hér segja nemendur frá „mjöli Fróða“. Endursegið söguna og rýnið í þau gildi og þá lesti sem hér koma við sögu (friðarhugsun, græðgi o.s.frv.).
Verkefni 9: Kaflar 53 og 54 í Skáldskaparmálum
Frá Hrólfi kraka Danakonungi og Aðils Svíakonungi
Hér endursegi nemendur sögur af Hrólfi kraka og átökum hans við Aðils, eiginmann móður sinnar. Hér mætti ræða um stolt, græðgi og orðstír. Er stundum í lagi að leggja á flótta? Leggjast menn stundum lágt í græðgi sinni?