Fædd / fæddur:

1852 to 1891
Gestur Pálsson

Gestur Pálsson var got ljóðskáld en þó eru það first og fremst sögurnar og það að vera einn af Verðandi mönnunum sem hafa haldið nafni hans á lofti. Fyrstu sögurnar samdi hann strax er hann var við nám í Lærða skólanum og voru þær skrifaðar undir merkjum rómantíkur, en í Kaupmannahöfn kemst Gestur í kynni við raunsæisstefnuna og eftir það eru öll verk hans þeirri stefnu trú. 

Fyrsta sagan sem Gestur skrifaði í raunsæisstíl er Kærleiksheimilið og hana semur hann úti í Kaupmannahöfn og birtir í tímaritinu Verðandi.  Þegar hann svo kemur aftur heim birtir hann söguna Hans Vöggur, sem margir telja með hans bestu sögum.  Síðan koma sögur eins og Uppreistin á Brekku, Skjóni, Sagan af Sigurði formanni, Grímur kaupmaður deyr og Tilhugalíf, sem allar eru einkennandi fyrir stíl hans.  

 

Sögum Gests verður kannski best lýst með hans eigin orðum, en í fyrirlestri um íslensk skáld og skáldskap á þessari öld, sagði hann á einum stað hann: ,,...hreinar og beinar ,,fótógrafíur” af hversdagsatriðum í lífi hversdagsmanna eru enginn skáldskapur.  Til þess að slíkt verði skáldskapur, verður listin að leggja yfir það sína blæju, skerpa suma drættina í fyrirmyndinni og draga aðra út, og á bak við allt saman verður skáldsins eigin skoðun, eigin hugmynd, að skína eins og ljós, sem gefur listaverkinu persónulegan lit og persónulegan blæ; auga skáldsins verður alltaf að sjást gegnum listaverkið, því það er einmitt það, sem gefur því afl og mátt, en það má ekki ekki koma fram á leiksviðið sjálft, því þá verður skáldskapurinn prédikun, en ekki listaverk.”[1]


[1] Gestur Pálsson Ritsafn1927 bls. 377.

Valmynd

Bækur og verk
Æviágrip

Gestur Pálsson fæddist að Miðhúsum í Reykhólasveit 25. september árið 1852.  Foreldrar hans voru Páll Ingimundarson bóndi og smiður á Miðhúsum og kona hans Ragnheiður Gestsdóttir.  Gestur var fjórða barn þeirra hjóna, en alls eignuðust þau sex börn, þrjá drengi og þrjár stúlkur.  Dæturnar dóu allar í barnæsku úr barnaveiki, en drengirnir þrír komust á legg.  Elstur þeirra var Jón, síðar bóndi og oddviti á Miðhúsum, en yngstur var Sigurður, síðar verslunarstjóri   á Hesteyri.

 

Heimilið á Miðhúsum þótti mikið myndarheimili þar sem ekki skorti nein efni.  ,,Efnahagur föður hans var góður.  Var jafnan margt hjúa á heimili þeirra Páls og Ragnheiðar, og það hefur haft á sér menningarsnið meira en títt var.”[1]  Faðir Gests,  Páll, og afi hans Ingimundur Grímsson voru orðlagðir fyrir að vera bæði bókhneigðir og fróðleiksfúsir, en ,,Páll var einn þeirra fjölmörgu Íslendinga, er útveguðu Jóni Sigurðssyni forseta íslensk handrit.”[2]

 

Gestur mun hafa verið mjög náinn foreldrum sínum og þó sérstaklega móður sinni, og því hefur það verið mikið áfall fyrir hann þegar móðir hans lést 17. júní árið 1862, er Gestur var á 10. ári.  Er víða að finna í kveðskap Gests merki um hve heitt hann unni móður sinni, sbr. kvæðið Á Miðhúsum: 

 

,,Hér get ég sofnað sætt með frið í lund,

ei saknað neins, er brást,

og dreymt svo milt um mína sælustund,

um móður, bernsku og ást.”

 

Þremur árum síðar flutti faðir hans að Mýrartungu í Króksfirði og ári síðar giftist hann aftur og nú ráðskonu sinni, Ingunni Bjarnadóttur.  ,,Ingunn var mikil mannkostakona, og mun hún hafa reynst sonum Páls góð stjúpa.  Kveður Einar H. Kvaran Gest ávallt hafa minnst hennar af hlýjum hug.”[3]

 

Gestur þótti snemma bráðger og í kirkjubókum frá þessum tíma er hann talinn læs sjö ára gamall.  Má ætla að það hafi legið að baki því að hann einn sinna bræðra var sendur til náms.  ,,Fyrst fékk hann tilsögn á Stað á Reykjanesi hjá síra Ólafi Johnsen prófasti, sóknarpresti sínum.  Því næst lærði hann undir skóla hjá síra Sveini Níelssyni prófasti á Staðastað.”[4]  Að því loknu hóf hann nám í latínuskólanum árið 1868.

 

 

Ekki virðist Gestur hafa sótt námið í latínuskólanum af miklu kappi og hann er ásamt nokkrum öðrum látinn endurtaka fyrsta bekk vegna slælegs árangurs í latneskum stíl.  Sótti hugur hans fróun í önnur hugðarefni, en námið og mun hann ,,hafa lesið mikið annað en skólabækurnar.”[5]  Hugur hans var þá þegar farinn að hneigjast að skáldskap og hann orti töluvert, en kvæði hans á þessum tíma bera ungum aldri hans vitni og ,,er alls ekki betri en annar laglegur skólaskáldskapur.”[6]  Hann hafði sig þó talsvert í frammi og þótti beinskeyttur ræðumaður og nokkuð óvæginn í skotum sínum á aðra. 

 

Á þeim tíma var talsverður rígur á milli árganga í skólanum og oft kom til ryskinga þó engin alvara lægi að baki.  Þorvaldur Thoroddsen sem var samtíma Gesti í skólanum hafði eftirfarandi að segja um Gest strax á fyrsta ári:  ,, ...hann var væskill að burðum og hugdeigur, en túlinn var óbilandi, hann höfðum við standandi uppi á bekk eða borði bak við fylkinguna, og skammaði hann óvinina óspart og ögraði þeim í snjöllum ræðum, var þeim að þessu hin mesta skapraun og sáu sig aldrei úr færi, ef hægt var, að hertaka Gest, hafa hann í varðhaldi og kvelja á ýmsan hátt...”[7]

 

Hann tók líka virkan þátt í allri félagsstarfsemi og að öllu jöfnu gekk skólagangan snurðulaust fyrir sig, en þó hafa skipst á skin og skúrir þar eins og hjá flestum.  Í bréfi til vinar síns Björns Jenssonar rektors Sigurðssonar sem dagsett er 10. desember árið 1873 er hann ekki beint ánægður með skólann og veru sína þar:

 

,,Mér er farið að dauðleiðast í skólanum, en ég læt lítið á því bera; skólinn er yfir höfuð að öllu leyti svo andlaus sem maður getur hugsað sér nokkuð instítút.  Hvernig getur líka annað verið?  Bækurnar eru stagneraðar og kennararnir borneraðir.  Embættismennirnir á Íslandi sýna líka, hvað þeir læra; það er víst, að menn geta með naumindum hugsað sér meira egóistiska, duglausari og hugsunarlausari kynslóð til að leiða einn lýð á framfara öld en majóritet embættismanna Íslands er....  Hér í skólanum hefur maður hugsunarfrelsi sem stendur.  Menn ættu þó að skilja, að disciplin er ekki annað en andleg kúgun í orðsins fyllsta skilningi...”[8]

 

Það er þó varhugavert að draga of miklar ályktanir af slíku bréfi, en þátttaka Gests í öllu menningarlífi skólans gefur það ótvírætt til kynna að oft hefur hann unað hag sínum í skólnum vel. 

 

Flestum þeim samtímamönnum Gests er ritað hafa um hann ber saman um að Gestur hafi ekki verið allra.  Einar Hjörleifsson Kvaran einn af Verðandimönnum og mikill vinur Gests, segir að hann hafi ekki verið ,,auðsækinn” og í Árbókum Lærða skólans er að finna eftirfarandi lýsingu á Gesti:  ,,Meðalmaður að hæð, hálslangur mjög og illa vaxinn; gáfaður vel og skáldmæltur; heldur óreglumaður, óvinsæll af mörgum; óspar á fé.”[9]  Gestur útskrifaðist svo sem stúdent frá Lærða skólanum árið 1875 og þaðan lá leiðin til Kaupmannahafnar.

 

 

Gestur tók sér far með póstskipinu Díönu, sem lagði úr höfn frá Reykjavík 27. júlí 1875.  Í Höfn lagði hann stund á Guðfræði og bendir flest til þess að hann hafi stundað námið af alúð til að byrja með.  Strax á öðru ári lauk hann prófi í hebreskri málfræði og heimspekilegum forspjallsvísindum með ágætis vitnisburði. 

 

En fljótlega fara önnur hugðarefni að taka meiri tíma, sem aftur bitnaði á náminu.  Hann t.a.m. annaðist útgáfu á þýðingum Matthíasar Jochumssonar á sorgarleiknum Manfred og nokkrum kvæðum eftir Byron lávarð.  Þá skrifaði hann á fyrsta ári sínu í Höfn fréttapistla fyrir blaðið Ísafold.  Þá gekk Gestur í leynifélag Íslendinga í Kaupmannahöfn sem nefndist Atgeirinn.  ,,Aðalmarkmið þess félags var að rita um íslensk stjórnmál í útlensk blöð”[10] og má ætla að allt vafstur í kringum það hafi einnig dregið hann frá náminu.  Einnig þótti Gestur nokkuð óreglusamur.

 

Eftir tveggja ára veru í Kaupmannahöfn ákvað Gestur að halda aftur heim til Íslands.  Virðist hann vera búinn að fá nóg af stórborgarlífinu í bili ef marka má eftirfarandi kvæði sem hann yrkir í maí sama ár.

 

,,Ég er þreyttur af angist - hér eldist mín sál,

svo aflvana berst ég með straum;

hér slokknar og eyðist allt æskunnar bál

við unaðssemd tryllta og glaum.

 

Ég er þreyttur og leiður við götur og grjót

og glymjandi stórborgar tál

og þessa svo stefnulaust streymandi sjót,

sem starir og glápir á prjál.

 

Nei, burtu með hégóma, hræsni og tál

og hjarta svo svikult og kalt;

ég vil leita og finna´ eina einustu sál,

sem ann mér og þekkir mitt allt.

 

Heimferðin var þó bara frí í eitt ár, því Gestur var ákveðinn í að fara út aftur og ljúka prófi.  Heima á Íslandi dvelur hann lengstum í Reykhólasveitinni hjá föður sínum.  Þar kynnist hann ungri stúlku, Ingunni Jónsdóttur, sem hann trúlofast.  Virðist nú í fyrstu sem bjartari tímar séu framundan hjá Gesti og að hann sé tilbúinn að taka ábyrgari afstöðu til lífsins.

 

Og með þessa nýju sýn á lífið heldur hann aftur utan og merkja menn mikla breytingu í fari hans fyrst eftir að hann kemur utan.  Hann einbeitir sér að náminu og virðist vera staðráðin í að standa sig.  En þá gerast ósköpin.  Bréf berst frá Ingunni þar sem hún slítur trúlofuninni.  Staðfesta Gests rýkur út í veður og vind og hann hellir sér út í hið ljúfa líf.  Voru menn sammála um að uppsögnin hafi gert útslagið á því hvernig fór og að Gestur lét hjá líða að taka próf.  Í ævisögu Finns Jónssonar, sem var samtíða Gesti á þessum tíma. er að finna eftirfarandi umsögn um Gest:  ,,Hann stundaði guðfræði; það hef ég nú aldrei skilið, mér fannst hann aldrei trúhneigður.  Það er mín trúa, að hann hefði tekið próf, ef hann hefði ekki fengið uppsagnarbréf frá unnustunni með fyrsta skipi í apríl.”[11]

 

Síðasta prófið sem Gestur tók í guðfræði var árið 1880, en þá lauk hann latínuprófi fyrir guðfræðinga.  Eftir það virðist hann einungis hafa stundað námið að nafninu til, en fer að sýsla við alls kyns verkefni, sem ekkert komu náminu við.  Á þessum tíma er fjárhagur Gests orðinn bágur, sem bæði kom til þess að Garðstyrk missti hann árið 1880 og svo hins að ekki fékk hann eins mikinn pening að heiman.  Þá var Gestur óreglusamur á þessum tíma, en slíkt líferni hefur kostað sitt.

 

Það er svo árið 1882 að Gestur, ásamt þeim Bertel Þorleifssyni, Einari Hjörleifssyni og Hannesi Hafstein, gefur út tímaritið Verðandi, sem segja má að marki ákveðin skil í íslenskri bókmenntasögu.  Þar kynna þeir Íslendingum nýja bókmenntastefnu, sem verið hafði að ryðja sér til rúms í Evrópu og kallaðist raunsæi.  Voru það sérstaklega framlög Gests og Einars sem féllu undir þá skilgreiningu.  En þrátt fyrir góðan ásetning seldist ritið dræmt og þó svo að þeir félagar hafi lengi haft hug á að framhald yrði á ritinu varð aldrei úr því.

 

Gestur hafði á þessum tíma fengið slæmt orð á sig fyrir óreglusemi og skuldasöfnun meðal Íslendinga í Höfn, og þó svo að flest af því virðist hafa verið orðum aukið, ágerðist orðrómurinn og brátt hafði hann ekki lengur að neinu að hverfa í Kaupmannahöfn, svo það var ekki um annað að ræða, en að snúa aftur heim til Íslands.

 

 

Það hefur eflaust verið erfitt fyrir Gest að snúa heim á þennan hátt, próflausan, skuldum vafinn og með vafasamt orðspor á bakinu.  Þó býðst honum fljótlega eftir að hann kemur til Reykjavíkur að gerast ritstjóri blaðsins Þjóðólfs.  Ekki var það þó til langframa, en árið eftir er hafin útgáfa blaðsins Suðra og varð Gestur ritstjóri þess.  Ekki gat hann lifað af þeim tekjum einum saman og gekk því að ýmsum aukastörfum s.s. að vera ritari á amtskontórnum, barnakennslu o.fl.  Það hefur því verið í nógu að snúast fyrir hann og fáar frístundir. 

 

Gestur var ritstjóri Suðra allt til ársins 1886 þegar blaðið hætti að koma út.  Hafði þá gengið á ýmsu hjá Gesti og er óhætt að segja að ekki hafi ríkt nein lognmolla yfir útgáfumálum í Reykjavík á meðan Gestur var ritstjóri, því hann átti í stöðugum útistöðum við ritstjóra annarra blaða, sérstaklega þá Valdimar Ásmundarson ritstjóra Fjallkonunnar og Jón Ólafsson ritstjóra Þjóðólfs.  Gestur lá ekki á skoðunum sínum og skoðanir hans áttu ekki upp á pallborðið hjá mörgum.  Á þessum árum skrifaði Gestur margt af því besta sem eftir hann liggur og margar greinar sem hann skrifaði í Suðra eru ómetanlegar heimildir um þann tíðaranda sem ríkti á Íslandi á þessum árum, ekki síst fyrir þá sök að Gestur sá hlutina í nokkuð öðru ljósi en flestir samtímamanna hans.  Má í raun segja að Gestur hafi átt þátt í að ryðja veginn sem einn fyrsti rannsóknarblaðamaðurinn á Íslandi og skapað blaðamönnum framtíðarinnar fordæmi.

 

Þegar andstæðingar hans höfðu búið svo um hnútana að Gestur fékk ekki lengur starfað að blaðamennsku sneri hann sér að ýmsum störfum og virðist oftast hafa haft nægilega mikið að gera til að hafa ofan í sig og á, en ekki meira en það og var hann venjulega nokkuð skuldsettur.

 

Það er svo árið 1890 að Gesti er boðin ritstjórastaða við blaðið Heimskringlu í Winnipeg og ákvað hann að taka því, enda virðist hann hafa verið búinn að fá nóg af Reykjavík, en eftir átta ára dvöl sína þar stóð hann uppi með enga fasta stöðu, nálega eignalaus og átti auk þess fáa vini.  ,,Vistin í ókunnri heimsálfu gat varla orðið miklu verri en fjárhagsleg óvissa og niðurdrep smábæjarlífsins í Reykjavík.”[12]   

 

 

Í Ameríku var Gesti vel tekið.  Í blaðinu Heimskringlu var sagt frá komu hans á tilkomumikinn hátt, og lofið hvergi sparað:  ,,Gestur Pálsson, hinn víðfrægi ritsnillingur og skáld, er væntanlegur hingað til Winnipeg næstk. föstudag 11. þ.m. til þess að gerast meðritsjóri Hkr.”[13]

 

Til að byrja með virðist líka allt hafa gengið vel meðan Gestur var að finna sig í nýju landi.  En það stóð ekki lengi.  Fljótlega er Gestur kominn í deilur við marga samferðamenn sína og farinn að sakna heimahaganna.

 

Í bréfi til Sigurðar bróður síns dagsettu 11. febrúar árið 1891, segir hann:  ,,Mér leiddist líka ákaflega mikið fyrst framan af veru minni hér.  En nú er mér farin að batna leiðindin töluvert, en þó vildi ég feginn vera kominn heim, ef ég gæti komist eins vel út af því í peningalegu tilliti þar og hér.”[14]

 

Í ágúst sama ár er Gestur búinn að fá nóg, en þá birtist eftirfarandi klausa í blaðinu Heimskringlu:  ,,Gestur Pálsson núverandi ritstjóri Heimskringlu, sendi stjórnarnefnd Hkr. 4. þ.m. beiðni um lausn frá starfa sínum frá 1. næstkomandi septembermánuði, þar sem hann annars var ráðinn til nýárs.  Nefndin veitti þegar þessa beiðni ritstjórans.”[15]

 

Hafði Gestur í hyggju að hverfa frá Ameríku og reyna fyrir sér einhvers staðar á Norðurlöndum, en af því varð aldrei.  14.  ágúst það sama ár er Gestur lagður inn á spítala í Winnipeg með lungnabólgu og úr henni lést hann fimm dögum síðar.  ,,Í dánarvottorði eru dvalarstaður hans, hjúskparstétt og foreldrar talin ókunn.  Svo umkomulaust stóð þetta íslenska skáld á banadægri sínu vestur í miðri Ameríku.”[16]

 

 

 

Þó svo að erfitt sé að alhæfa um slíka hluti verður seint hægt að segja um Gest að hann hafi verið hamingjusamur eða farsæll maður.  Bestu árin á hann hér heima á Íslandi áður en hann heldur til náms í Kaupmannahöfn árið 1875, en þó kynntist hann missi strax á tíunda ári þegar móðir hans sem hann elskaði mikið deyr.  Eftir að hann kemur til Hafnar virðist sem hann hafi einhvern veginn misst þráðinn.  Hann finnur sig ekki í námi og er á endanum orðinn hálfgerður einstæðingur úti þegar hann heldur heim.  Í Reykjavík stóð alltaf styrr um Gest og þaðan heldur hann átta árum síðar eignalaus og vinafár.  Í Kanada náði hann heldur ekki að festa yndi á því rúma ári sem hann dvaldi þar.

 

Ekki lá það heldur fyrir honum að stofna til fjölskyldu, en þó trúlofast hann tvisvar á ævinni.  Í fyrra skiptið slítur stúlkan trúlofuninni bréflega til Kaupmannahafnar og síðara skiptið slítur hann henni sjálfur, en hann hafði stuttu áður en hann hélt til Ameríku trúlofast mun yngri stúlku að nafni Guðfinna Guðrún Jónsdóttir.  Virðist sem hann hafi einhvern veginn ekki treyst sér til að deila lífi sínu á þann hátt sem hjónaband krefst, en til marks um það hafði Einar Kvaran þetta eftir honum:  ,,Hann sagði að það mætti aldrei fyrir koma - hann vissi það vel, að hann væri ekki gæddur  þeim eiginleikum, sem væru skilyrði fyrir farsælu hjónabandi; hann vantaði það stöðuglyndi, sem væri nauðsynlegt til þess að vera bundinn konu.”[17]

 

 

Þegar litið er til þeirra bókmenntaverka sem liggja eftir Gest Pálsson má í raun skipta verkum hans í tvo meginhluta.  Þar er annars vegar um að ræða rómantísk verk skólaáranna og svo raunsæisverk síðari ára.  Þá samdi hann bæði ljóð og sögur, en það eru fyrst og fremst sögurnar sem hafa haldið nafni hans á lofti.

 

Sem ljóðskáld hefur nafni Gests sjaldan verið hampað, en þar sem flest ljóðin voru samin áður en hann kynnist raunsæisstefnunni, eru þau góð heimild um fyrri hluta ævi hans.  Hafa margir orðið til þess að gera lítið úr kveðskap Gests og sagt ljóð hans oft ekki fylgja ströngustu bragfræðireglum, en þó séu þau þvinguð af því að fylgja einmitt þeim sömu reglum.  Það má kannski til sanns vegar færa að stór hluti ljóða hans séu brennd þessu marki, en það rýrir þó ekki hitt sem vel er gert og mörg ljóða Gests eru fallega ort og búa yfir óvenjulegri og skemmtilegri sýn.  Sveinn Skorri Höskuldsson segir í bók sinni um ævi og verk Gests að það sem ljóð Gests hafa helst sér til ágætis eru ,,mannlegur innileiki og persónuleg efnisafstaða...Þá kveður við nýjan tón í þeim kvæðum hans, sem hafa að geyma þjóðfélagslega afstöðu.”[18]  Þá má heldur ekki gleyma því að Gestur er einn af frumkvöðlum raunsæisstefnunnar hér á landi, og það eitt og sér skipar honum ákveðinn sess meðal skálda.  Hann vildi að skáld væru persónuleg í verkum sínum og tækju afstöðu.   ,,Gestur fann það einkum að íslenskri kvæðagerð, hve ópersónulegir flestir höfundar væru.  Sjálfur hefur hann ort flest bestu kvæði sín um persónulegar tilfinningar sínar og lífsviðhorf.”[19]  Það má segja að í því efni hafi hann rutt brautina fyrir þá sem á eftir komu. 

Í ljóðinu ,,Betlikerlingin” bregður fyrir þessari nýju bókmenntasýn Gests, en þar er það samúðin með smælingjunum sem knýr hann áfram:

 

Hún var kannske perla, sem týnd í tímans haf

var töpuð og glötuð, svo enginn vissi af,

eða gimsteinn, sem forðum var greyptur láns í baug,

- en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug.

 

Og í ljóðinu ,,Ekkja svæfir barn sitt” endurspeglar skáldið tilfinningar sínar á hjartnæman hátt:

 

Enn er tími - bros í draumum, blíði

bernskudraumur harla mörgum brást;

margur vaknar mitt í lífsins stríði

móðurlaus og finnur hvergi ást.

 

En eins og áður hefur verið nefnt eru það fyrst og fremst sögurnar sem haldið hafa nafni Gests á lofti.  Fyrstu sögurnar samdi hann strax er hann var við nám í Lærða skólanum og voru þær skrifaðar undir merkjum rómantíkur, en í Kaupmannahöfn kemst Gestur í kynni við raunsæisstefnuna og eftir það eru öll verk hans þeirri stefnu trú. 

 

Fyrsta sagan sem Gestur skrifaði í raunsæisstíl er Kærleiksheimilið og hana semur hann úti í Kaupmannahöfn og birtir í tímaritinu Verðandi.  Þegar hann svo kemur aftur heim birtir hann söguna Hans Vöggur, sem margir telja með hans bestu sögum.  Síðan koma sögur eins og Uppreistin á Brekku, Skjóni, Sagan af Sigurði formanni, Grímur kaupmaður deyr og Tilhugalíf, sem allar eru einkennandi fyrir stíl hans.  

 

En það er kannski best að skoða sögur hans útfrá eigin orðum, en  í fyrirlestri um íslensk skáld og skáldskap á þessari öld, segir hann: ,,...hreinar og beinar ,,fótógrafíur” af hversdagsatriðum í lífi hversdagsmanna eru enginn skáldskapur.  Til þess að slíkt verði skáldskapur, verður listin að leggja yfir það sína blæju, skerpa suma drættina í fyrirmyndinni og draga aðra út, og á bak við allt saman verður skáldsins eigin skoðun, eigin hugmynd, að skína eins og ljós, sem gefur listaverkinu persónulegan lit og persónulegan blæ; auga skáldsins verður alltaf að sjást gegnum listaverkið, því það er einmitt það, sem gefur því afl og mátt, en það má ekki ekki koma fram á leiksviðið sjálft, því þá verður skáldskapurinn prédikun, en ekki listaverk.”[20]

 


[1] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 18

[2] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 18

[3] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 20

[4] Einar H. Kvaran bls. 2

[5] Einar H. Kvaran bls. 2

[6] Einar H. Kvaran bls. 3

[7] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 25

[8] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 32 - 33

[9] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 36

[10] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 43

[11] Ævisaga Finns Jónssonar eftir sjálfan hann, bls. 38

[12] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 99

[13] Heimskringla 10. júlí 1890

[14] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 114

[15] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 114

[16] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 116

[17] Einar H. Kvaran bls. 5

[18] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 203

[19] Sveinn Skorri Höskuldsson bls. 210

[20] Gestur Pálsson Ritsafn1927 bls. 377.

Tímalína Jónasar Hallgrímssonar