Fædd / fæddur:

1856 to 1918
Jónas Jónasson frá Hrafnagili

Jónas Jónasson frá Hrafnagili skráði nafn sitt óafmáanlega á spjöld sögunnar með riti sínu Íslenskir þjóðhættir sem reynst hefur ómetanleg heimild um venju og siði fyrri tíðar á Íslandi.  Er það stórbrotið og einstakt verk þó samanburðar væri leitað út um allan heim.  En kannski einmitt vegna þess hve þjóðhættirnir hafa verið okkur Íslendingum hugleiknir hefur fólki sést yfir skáldverk Jónasar, sem eru nokkuð mikil að vöxtum og bera höfundi sínum góð sögu.  Og rétt eins og þjóðhættirnir  má segja þau skrif hafi brotið blað í bókmenntasögu okkar Íslendinga, en þar kynnumst við t.a.m. fyrstu sakamálasögum sem skrifaðar voru hér.

Valmynd

Bækur og verk

Jónas fæddist á Úlfá í Eyjafjarðardal árið 1856.  Foreldrar hans voru Guðríður Jónasdóttir og Jónas Jónssona. Jónas ,,lauk embættisprófi 1883, tók prestsvígslu, og þjónaði í Grundarþingum í Eyjafirði í um 25 ár. Seinna starfaði Jónas sem kennari við Gagnfræðaskólann á Akureyri.”[1]

Jónas kvæntist Þórunni Stefánsdóttur Ottesen og var þeim átta barna auðið, en fjögur þeirra létust ung úr berklum.  ,,Börnin sem upp komust tóku upp ættarnafnið Rafnar, en þau voru Oddur, forstöðumaður í Kaupmannahöfn, Jónas læknir, Friðrik prestur og Stefán Sigurður skrifstofustjóri S.Í.S. í Reykjavík.”[2]

Jónas skrifaði alla tíð mikið og virðist hafa verið mikill áhugamaður um bókmenntir strax á stúdentsárum sínum.  Þá þýddi hann m.a. Ævintýri á gönguför eftir Hostrup og var það tekið til sýningar í Gildaskálanum í Reykjavík árið 1882.  Þá skrifaði hann yfirlit um íslenskar bókmenntir sem má finna í Tímariti Bókmenntafélagsins árið 1881.[3]

Jónas varð prestur í Eyjafirði árið 1885, en samhliða þeim störfum skrifaði hann áfram mikið og hóf að senda  ritgerðir, þýðingar, frumsamdar smásögur og loks skáldsögur í tímarit.  ,,Á næstu tólf árum birtir hann fimmtán smásögur í tímaritunum Iðunni, Þjóðólfi, Norðurljósinu og Eimreiðinni og árið 1892 kemur út eftir hann skáldsagan Randíður á Hvassafelli.”[4]   Samdi hann tvær aðrar lengri skáldsögur, Jón halta og Hofsstaðabræður.  Þá samdi hann töluvert af styttri skáldsögum (nóvelettum) s.s. Magnúsar þátt og Guðrúnar (sögu frá fyrsta hluta 18. aldar), Kálfagerðisbræður (sögu frá 18. öld), Eið, Oddrúnargrát, Yfirmenn og undirgefnir, Björn í Gerðum, Offrið o.fl.

Sögur Jónasar falla undir raunsæisstefnu, enda er hann samtíða þeim Hannesi Hafstein og Einari Kvaran í skóla en þeir kynntu þá stefnu fyrst fyrir Íslendingum ásamt þeim Gesti Pálssyni og Bertel Ó. Þórleifssyni með tímaritinu Verðandi.

Í sögum Jónasar birtir hann okkur gjarnan umkomuleysi alþýðufólks í samskiptum við þá sem auðugri eru og ill staða kvenna í samfélaginu er honum ofarlega í huga.  En þrátt fyrir að raunsæið sé ráðandi í sögunum eru margar stemningar hans í anda rómantískari höfunda.

Skömmu fyrir aldamótin 1900 fer áhugi hans að vakna fyrir annars konar skrifum.  Þá skrifar hann stafrófskver og fleiri kennslubækur, svo og dansk-íslenska orðabók og ýmislegt sem tengist þjóðlegum fróðleik. 

Í kjölfarið snýr hann sér svo af mikilli elju að þjóðháttarfræðinni og fer að safna efni í ritið sem hann er hvað þekktastur fyrir, Íslenskir þjóðhættir.  Var hann í sambandi við fremstu þjóðháttafræðinga Norðurlanda, en fór þó sínar eigin leiðir og er þjóháttarfræði hans um margt ólík því sem þá tíðkaðist og þá einkum hvað hann leggur sig fram um að lýsa vinnubrögðum og daglegu atferli til forna í stað þess að leggja áherslu dultrúarleg atriði sem einkenndi rit þjóðháttarfræðinga annarra landa.   Fyrir vikið má segja að við höfum fengið ,,einstæða og sannferðuga þjóðlífslýsingu sem einkum á þó við 19. öldina á Íslandi.

Varðandi söfnun upplýsinga og útgáfu verksins vann Jónas í miklum tengslum við Odd Björnsson útgefanda frá Akureyri.  Ekki tókst þeim þó að gefa út nema lítinn hluta verksins, og entist Jónasi ekki aldur til að ljúka því fyllilega.  Kom það í hlut Einars Ólafs Sveinssonar að leggja síðustu hönd á verkið sextán árum eftir dauða Jónasar.

 Jónas lést árið 1918

 


[1] Vefsíða Amtsbókasafnsins á Akureyri - http://www.akureyri.is/amtsbokasafn/nr/7473

[2] Vefsíða Amtsbókasafnsins á Akureyri - http://www.akureyri.is/amtsbokasafn/nr/7473

[3] Árni Björnsson - ,,Tildrög þjóðháttaskrifa Jónasar frá Hrafnagili – Lesbók Mbl. 16. sept. 2006.

[4] Árni Björnsson - ,,Tildrög þjóðháttaskrifa Jónasar frá Hrafnagili – Lesbók Mbl. 16. sept. 2006.

Æviágrip
Tímalína Jónasar Hallgrímssonar