Höfundur
Einar Benediktsson

Útgáfa

2015
Ljóð
Hrannir

Hrannir var þriðja ljóðabók Einars Benediktssonar og kom út árið 1913, en þá voru liðin sjö ár frá útkomu bókarinnar Hafbliks (1906). Eins og fyrr er það Ísland; landið, tungan og arfurinn sem er hreyfiaflið í flestum ljóðanna. En bókin sýndi líka nýja hlið á skáldinu Einari Benediktssyni, því hún hafði að geyma sléttubanda rímu upp á nærri 160 erindi sem var Ólafs ríma Grænlendings. Þótti mörgum það skjóta skökku við og ekki samræmast því sem hann hafði gert áður. Einar gerði sér vel grein fyrir því að ríman væri ákveðið stílbrot og því ritaði hann formála að bókinni þar sem hann bæði réttlætir og skýrir tilkomu rímunnar. Í formálanum hvatti hann menn að blygðast sín ekki fyrir rímnakveðskapinn og lausavísur, því mikil list sé að þeim kveðskap, ef rétt sé að farið. Gerir hann mikið úr gildi slíks kveðskapar ekki síst fyrir það hvílíka fádæma þýðingu rímurnar hafi haft fyrir skilning þjóðarinnar á málinu og fyrir varðveiting málsins sjálfs.

Valmynd

Tilvitnun

Frá vestri til austurs um hólmann hálfan
hringar sig brimhvíta, fljótandi álfan.
Þar björgin sig mylja sem brothætt skurn
yfir bældu, æðandi reginhafi. —
Ein himinvíð sjón út á heimsenda sjálfan,
eitt helstorkið ríki með turn við turn,
sem gljá og speglast við geisla hvurn
yfir gaddbláum skuggum, marandi í hálfu kafi.

 

Í annað sinn heiðmáninn veltir nú vöngum
sem vofa á glugga yfir hafgaddsins svæði.
Hyldjúpsins þrá í hvalanna mæði
heyrist æ þyngri hjá vakanna spöngum.
Vordauðans sigð er á lofti um allt land.
Hver lambsfeldur skelfur við heiði og sand.
Hið volduga, harða, helþrönga band
tengir hugi og vonir á sóldögum köldum og löngum.

 

Heiðarnar eru línhvít lík,
lögð við hamranna dökku fjalir.
Blómin sín jarða daprir dalir.
Það dregur násúg um skaga og vík.
Túngrösin kynbætt af þúsund þrautum
við þúfuna grúfa í neðstu lautum.
Haginn er litlaus, lóslitin flík.
Lífsmörkin krjúpa í felur í jurtanna skautum. 

Úr ljóðinu Hafísinn eftir Einar Benediktsson

Hljóðbók
Hrannir

Lengd : 00:00

Sækja fyrir almennar tölvur

Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir almennar tölvur.

Sækja fyrir spjaldtölvur og snjallsíma

Smelltu hér til að sækja hljóðbókina fyrir iTunes eða önnur sæmbærileg öpp fyrir spjaldtölvur og snjallsíma.

Lengd : 00:00