Króka-Refs saga hefur notið vinsælda á fyrri tíð eins og m.a. sést af því að út frá henni hafa verið ortar a.m.k. þrennar rímur. Eitt rímnaskáldanna er sjálft passíusálmaskáldið, Hallgrímur Pétursson.
Vinsældir sögunnar má rekja til þess að hún er vel og skipulega sögð, hún er spennandi og viðburðarík, og hetjan er heilsteypt og afar snjöll og úrræðagóð. Líkja má sögunni við ævintýri sem endar vel. Hún hefur þó ekki notið sömu virðingar og ýmsar eldri Íslendingasögur sem geyma örlagaþrungnari frásagnir og djúphugsaðri atburðarás en hér er um að ræða.