Fædd / fæddur:
Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal stendur nokkuð utan við bókmenntalegt umhverfi sinnar samtíðar. Sagan Heljarslóðarorrusta og gleðileikurinn Gandreiðin áttu sér t.a.m. engar hliðstæður í íslenskum bókmenntum þegar þær komu út og eiga það varla enn þann dag í dag. Benedikt var vel lesinn og sótti stílbrigði, orðaforða og efnistök gjarnan til fortíðarinnar og gæti það átt þátt í því hve eftirlifandi kynslóðir hafa sinnt honum lítið. En stílsnilld hans verður þó aldrei dregin í efa og hún birtist okkur vel í gleðileiknum Gandreiðin sem kom fyrst út árið 1866.
Benedikt Gröndal var sonur Sveinbjarnar Egilssonar skálds og rektors. Hann fæddist á Bessastöðum en faðir hans var þá kennari þar við skólann. Benedikt sigldi til Kaupmannahafnar að loknu stúdentsprófi og hóf þar háskólanám í náttúrufræði og bókmenntum. Námið sóttist seint og var hann kominn hátt á fertugsaldur er hann lauk meistaraprófi í norrænni málfræði. Eftir það sinnti hann um skeið ritstörfum í Höfn, gaf t.d. út tímaritið Gefn í fimm ár samfleytt (1870-74). Tæplega fimmtugur hvarf hann heim til Íslands og gerðist kennari við Lærða skólann en hraktist frá starfi vegna óreglu og ósamkomulags og lifði embættislaus síðustu áratugina.
Benedikt Gröndal var gáfaður og fjölhæfur en dreifði kröftunum, sinnti fleiri viðfangsefnum en hann hafði tíma til. Hann var ákafur málsvari rómantísku stefnunnar þó gengi hennar færi þverrandi um hans daga. „Hin íslensku fornrit og skáldskapur eru mínar aðalstoðir fyrir utan classicos,“ sagði hann, „þeir sem ekki þekkja þetta eru ónýtir.“
Kvæði Gröndals lýsa hugarflugi og ímyndunarafli sveimhugans. Þau höfðu á sínum tíma nokkur áhrif á kveðskap annarra skálda. Söguna Heljarslóðarorustu (1861) samdi hann um bardaga frakka og austurríkismanna við Solferino. Það er skopsaga í riddarasagnastíl, staðfærð til íslensks sveitalífs eins og þá var tíska. Fyrirmyndin var auðvitað Gamanbréf Jónasar Hallgrímssonar. Heljarslóðarorusta þótti fyrrum afar skemmtileg en í augum nútímalesenda mun fyndnin í henni tekin að fyrnast. Sjálfsævisaga Gröndals, er hann nefndi Dægradvöl (1923), mun eflaust halda nafni hans lengst á lofti. Hún er rituð af fjöri og hreinskilni. Þar er ekki aðeins að finna góðar heimildir um hann sjálfan heldur einnig marga samtíðarmenn hans, einkum þá sem hann var samvistum við í Kaupmannahöfn.